Helgarsprokið 18. mars 2007

77. tbl. 11. árg.
But if one regards the state as possessing a “grabbing hand” – as being the custodian of its own self-interest, rather than public interest – then it is disquieting to see the political parties losing their traditional autonomy. In the old German Democratic Republic there was a variety of political parties when people went to the polls: but they were all integral parts of the state and therefore constituted no real alternative to the Socialist Unity Party. Western Europe will end up recreating a rather different but almost as artificial democracy if once independent parties become beholden to Finance Ministries. What is the electorate to make of politicians who seek election in order to pay themselves money… to seek re-election?
– Niall Ferguson The Cash Nexus – Money and Power in the Modern World 1700 – 2000.

Þ að væri ekki úr vegi að fjarlægja dönsku bronsmyndina við þakskegg alþingishússins til þess eins að koma þar fyrir ljósaskilti, sem varaði landslýð við því þegar þingmenn mæta til vinnu. Það má örugglega líka nýta lofvarnarflauturnar til þess sömuleiðis, fyrst þær eru þarna enn þá. Það virðist alltént vera ómögulegt fyrir þing að koma saman í nokkra mánuði án þess að gera einhverja „lausn“ að lögum, sem er mun verri en vandamálið sem hún átti að taka á.

„Það er mikið rausað um mikilvægi þess að hlúa vel að sprotafyrirtækjum á Alþingi, en þá samúð þverr undraskjótt ef sprotarnir eru pólitískir. Með þeim takmörkunum, sem nú gilda um styrki til stjórnmálasamtaka þurfa nústarfandi stjórnmálaflokkar engu að kvíða í þeim efnum.“

Lögin um fjármál stjórnmálasamtaka flokkast án nokkurra tvímæla undir slíkt mál. Vefþjóðviljinn benti á helstu meinbugi frumvarpsins fyrr í vetur og ágætt að rifja fáein atriði upp í því sambandi:

– Ein helsta forsenda þessarar lagasetningar var sú, að sífellt fleiri einstaklingar og fyrirtæki hefðu nú fjárhagslega burði til að kosta stóran hluta af kosningabaráttu einstakra flokka eða einstaklinga. Það þarf hæfileika til að koma ekki auga á, að þetta þýðir sömuleiðis að það er þar með auðveldara en áður er að afla fjár til frjálsra félagasamtaka, eins og stjórnmálaflokkarnir voru, áður en lögin voru samþykkt. Því fleiri auðmenn og stórfyrirtæki; því fleiri tækifæri til fjármögnunar.

– Þarf svo virkilega að benda sérstaklega á, að augljóslega eru áhrif einstakra auðmanna og stórfyrirtækja hlutfallslega minni, eftir því sem þeir eru fleiri.

– Merkilegt samt, að ef auðmenn ætla sjálfir í framboð, þá eiga þeir með tilkomu nýju laganna mun meiri möguleika en Jón og Gunna úr millistétt til þess að verða sér úti um til dæmis. eitt þingsæti. Eina sem auðmaðurinn þarf að gera að er að bjóða sig fram í eigin nafni og nýta auð sinn til að greiða það sem til þarf til þess að kynna sig og baráttumál sín. Það getur að sjálfsögðu engin bannað honum að verja sínum eigin fjármunum til þess. Jón og Gunna úr millistétt hafa ekki fjárhagslega burði til þess að fara þessa leið, sem var svo sem í lagi áður en lögin voru samþykkt, því þá gátu þau hugsanlega sótt styrki til þeirra, sem vildu styrkja framboð þeirra. En lögin í dag hefta mjög möguleika þeirra sem vilja styrkja Jón og Gunnu, með þeim takmörkunum sem gilda um framlög styrktaraðila.

Ekki það að Vefþjóðviljinn hafi neitt á móti því að auðmenn bjóði sig fram til þings, eða annarra opinberra starfa. Þeir hafa til þess jafnan rétt og aðrir landsmenn og ekkert sjálfsagðara en þeir nýti sér það ef þeim svo lystir. En það hlýtur að koma þeim sjálfum spánskt fyrir sjónir, að tiltölulega nýsamþykkt lög um framlög til stjórnmálaflokka veiki sérstaklega möguleika þeirra, sem verða að treysta á fjárframlög annarra til að bjóða sig fram.

– Lögin gera Alþingi að vernduðum vinnustað, það er að segja þau vernda núverandi flokka fyrir samkeppni í formi nýrra stjórnmálaflokka. Þeir flokkar, sem voru starfandi þegar lögin tóku gildi, njóta þess sérstaklega enda hefur nýjum flokkum nú verið gert mun erfiðara að afla sér fjár en áður. Það er mikið rausað um mikilvægi þess að hlúa vel að sprotafyrirtækjum á Alþingi, en þá samúð þverr undraskjótt ef sprotarnir eru pólitískir. Með þeim takmörkunum, sem nú gilda um styrki til stjórnmálasamtaka þurfa nústarfandi stjórnmálaflokkar engu að kvíða í þeim efnum. Þetta er væntanlega gervilýðræðið, sem Ferguson fjallar um í tilvitnuninni hér að ofan.

Það verður áhugavert, en sennilega ekki gaman, að sjá hvernig framlög stjórnmálaflokka til sín sjálfra munu þróast næstu ár. Er  einhver stjórnmálamaður tilbúinn að fullyrða að þessi framlög muni ekki hækka umfram verðlag hverju sinni? Það er erfitt að spá um framtíðina. Grunsemdir Vefþjóðviljans eru þó þær, að þrátt fyrir rómaða hófsemi alþingismanna muni sjálftaka þessi vera í litlum tengslum við aðra verðlagsþróun. Megi allar góðar vættir tryggja, að vefritið hafi rangt fyrir sér hvað það varðar.

Það er því miður samt ekki hægt að forðast þá tilfinningu, að með lagasetningunni var stjórnmálaflokkum lýðveldisins breytt úr því að vera frjáls félagssamtök í ríkisstofnanir. Alls kyns meintir kvillar sem tengdust hinu fyrrnefnda voru einfaldlega læknaðir með því að drepa sjúklinginn.