Föstudagur 9. mars 2007

68. tbl. 11. árg.

Menn renndi auðvitað í grun að skipt hefði verið um ríkisstjórn í landinu þegar tóbaksvarnarfrumvarpið var samþykkt fyrir nokkrum misserum en það tekur ráðin af eigendum veitingahúsa, sviptir þá hluta eignarréttar. Grunurinn styrktist svo þegar 1% tekjuskattslækkun var dregin til baka að kröfu Alþýðusambands Íslands síðastliðið sumar. Þegar allar kröfur vinstri manna um takmarkanir á starfsemi stjórnmálaflokka og frambjóðenda og aukna ríkisstyrki til flokkanna, sem nú verma þingsætin, náðu fram að ganga rétt fyrir jólin máttu menn auðvitað gera sér grein fyrir ástandinu.

En nú liggur það ljóst fyrir. Vinstri menn hafa náð völdum í landinu án kosninga. Formenn stjórnarflokkanna kynntu í vikunni að óskiljanlegu þjóðnýtingarákvæði yrði bætt í stjórnarskrána og félagsmálaráðherra kynnti frumvarp til jafnréttislaga sem afnemur samningsfrelsi launþega og atvinnurekenda. Hugo Chavez þurfti þó að vinna kosningar til að hrinda þessum stefnumálum í framkvæmd. Íslenskir vinstri menn þurfa ekki að ómaka sig á því.

Ímorgun birti Ríkisútvarpið skoðanakönnun sem sýnir að það sígur jafnt og þétt á ógæfuhliðina fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna. Að sama skapi vex vinstri grænum fiskur um hrygg.

Bæði Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hafa fallið í þá gildru að láta vinstrigræna stjórna kosningabaráttunni. Samfylkingin hóf eltingarleikinn við VG með því að fara í hástemmda stefnumótun um umhverfismál á flokkskontórnum í Reykjavík. Stefnan var nefnd „Fagra Ísland“ en frambjóðendur flokksins vítt og breytt um landið gátu ekki stutt hana. Í Sjálfstæðisflokknum hafa nokkrir ungir menn verið í kapphlaupi um að kynna flokkinn sem furðuverkið „hægri grænan“. Í þessu ati sínu hafa þeir notið stuðnings og hvatningar Morgunblaðsins. Hámarki náði þetta með birtingu á grænum sjálfstæðisfálka á forsíðu Morgunblaðsins. Síðustu vikuna hefur þetta einkum snúist um að hræða líftóruna úr Reykvíkingum með svifryki. Þótt ábyrgðin á svifrykinu liggi fyrst og síðast hjá borgaryfirvöldum hefur spjótunum verið beint að bíleigendum. Gamlar hugmyndir vinstri grænna um skattlagningu nagladekkja hafa skyndilega verið settar fram sem stefna Sjálfstæðisflokksins.

Með þessu hafa bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking gert vinstri grænum þann greiða að sannfæra fólk um allt sé í steik í umhverfismálum.

Sjálfstæðismennirnir ungu hafa með aðstoð Morgunblaðsins sannfært stóran hóp kjósenda um að sjálfstæðisstefnan, hægristefna, sé ekki umhverfisvæn ein og sér. Kokka þurfi upp nýja stefnu undir nafninu „hægri grænir“, mála fálkann grænan og taka upp gömul stefnumál vinstrigrænna.

Í gær bættist svo Framsóknarflokkurinn í hópinn þegar hann ákvað að gera hitt draumamál vinstrigrænna að helsta umræðuefni næstu vikna með því að félagsmálaráðherra hans lagði fram frumvarp til jafnréttislaga. Í frumvarpinu eru allar helstu hugmyndir vinstri grænna um ríkisafskipti í nafni jafnréttismála; kynjakvótar, launalögga og afnám samningsfrelsis.

Fyrir nokkrum dögum bauð stjórnarandstaðan stjórnarflokkunum upp á liðsinni við að koma þjóðnýtingarákvæði náttúruauðlinda í stjórnarskrá. Stjórnarandstaðan var tilbúin til að samþykkja slíkar grundavallarbreytingar á stjórnarskránni á síðustu dögum þingsins án allrar umræðu í þjóðfélaginu. Hvað varð um hugmyndir Samfylkingarinnar um samræðu- og umræðustjórnmál og þátttökulýðræði?