R íkisstjórnin hefur lagt öldungis fráleitt mál fyrir Alþingi. Nú á að spilla stjórnarskránni til að friða ímyndaða óánægða landsmenn og fyrst og fremst auðvitað þjóna duttlunum og hræðslu Framsóknarflokksins vegna komandi kosninga. Málið snýst um að setja óskýranlegt ákvæði inn í stjórnarskrána, ákvæði sem síðar kann að verða notað til að draga úr eignarréttindum og þar með hagsæld í landinu.
Nú á að stjórnarskrárbinda að villtur fiskur í sjó verði „þjóðareign“. Um leið verður sett ákvæði í stjórnarskrá þess efnis að sólin sé „sameign íslensku þjóðarinnar“. |
Fáir hafa orðið til að fagna þessari furðulegu ráðstöfun en margir til að gagnrýna. Einn þeirra sem hefur gagnrýnt málið efnislega er Skúli Magnússon dósent við lagadeild Háskóla Íslands og héraðsdómari. Skúli ritaði blaðagrein í vikunni undir fyrirsögninni Auglýst eftir efnislegu inntaki!, þar sem hann segir meðal annars:
„Lagalega gengur það ekki upp að villt og vörslulaus dýr, þ.á m. fiskar, séu undirorpin einhvers konar einstaklingaseignarrétti (eða sameignarrétti). Til að eignast villt dýr verður maður fyrst að veiða það. „Sameign þjóðarinnar“ eða „þjóðareign“ á nytjastofnunum getur af þessum sökum ekki vísað til „eignar“, hvorki eignar einstaklinga né ríkisins.“
Skúli bendir á að í krafti almenns lagasetningarvalds, fullveldisréttar, hafi íslenska ríkið það í hendi sér hvaða reglur eru settar um nýtingu á fiskveiðiauðlindinni, eins og kvótakerfið og þróun þess sýni best. Ekkert svar hafi hins vegar fengist við því hvaða réttaráhrif ákvæði um sameign þjóðarinnar eigi að hafa. Og hann heldur áfram og nefnir að með slíku stjórnarskrárákvæði, um „sameign“ eða „þjóðareign“, sé stuðlað að ágreiningi og illdeilum enda geti hver og einn túlkað þessi hugtök eftir pólitískri vild. Ákvæðið gangi því gegn því almenna markmiði laga og stjórnarskrár að skapa frið og öryggi í samfélaginu. „Það má heita nógu slæmt að „skreyta“ stjórnarskrár með ýmsum lagalega marklausum stefnuyfirlýsingum, eins og nú er í tísku víða um lönd. Það keyrir um þverbak þegar setja á í stjórnarskrá ákvæði sem enginn veit hvað þýðir!“, segir Skúli Magnússon.
Svo mörg voru þau orð og ekki ástæða til annars en taka undir þau.
En á þingi er ekki aðeins ríkisstjórnarmeirihlutinn, þar er líka minnihluti. Og jafn undarlega sem meirihlutinn hagar sér oft og tíðum þá tekst minnihlutanum yfirleitt að slá honum við. Nú emjar minnihlutinn yfir því að setja eigi þetta ákvæði inn í stjórnarskrána, en þá er það ekki af einhverjum ástæðum sem talist gætu skiljanlegar. Nei, það er annars vegar vegna þess að ekki sé nógu langt gengið í þjóðnýtingu eða ríkisvæðingu auðlinda landsins og hins vegar vegna málsmeðferðarinnar.
Össur Skarphéðinsson hefur þyngstar áhyggjur af því að hafa ekki nægilegt forskot á almenning í landinu. |
Minnihlutinn á Alþingi á sér nefnilega ekkert heitara áhugamál en málsmeðferðir. Minnihlutinn hefur engar áhyggjur af því að verið sé að spilla stjórnarskránni, hann hefur bara áhyggjur af því að hafa ekki verið hafður nægilega mikið með í ráðum áður en formenn stjórnarflokkanna kynntu dapurlega niðurstöðu sína. Össur Skarphéðinsson fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar telur til dæmis að formenn stjórnarflokkanna hafi ekki sýnt stjórnarandstöðunni þá „lágmarks virðingu“ að kynna frumvarpið fyrst fyrir Össuri áður en það var kynnt almenningi í landinu. Þetta er helsta áhyggjefni Össurar, að almenningur hafi fengið að vita um málið um leið og hann.
Aðrir taka í sama streng og telja að ekki sé boðlegt að ætla að keyra þetta frumvarp í gegnum þingið. Örfáum klukkustundum áður var þessi sama stjórnarandstaða þó reiðubúin til að hjálpa Framsóknarflokknum við að koma sams konar stjórnarskrárákvæði með hraði í gegnum þingið. Hraðafgreiðsla stjórnarskrárfrumvarps var boðleg ef það mátti verða til að kljúfa ríkisstjórnina.
Hraðafgreiðsla er reyndar einnig æskileg að mati stjórnarandstöðunnar til að koma meingölluðu frumvarpi félagsmálaráðherra um meint jafnrétti í gegnum þingið. Slíkt mál, jafn flókið og vafasamt sem það er, má afgreiða með hraði og umræðulaust að mati stjórnarandstöðunnar.
Það má þó stjórnarandstaðan eiga að hún verður seint sökuð um að vera samkvæm sjálfri sér.