Þær eru misgagnlegar, tillögurnar sem lagðar eru fyrir Alþingi. Stjórnarandstaðan lagði þó fram þingsályktunartillögu um daginn, sem gæti orðið óvenjulega gagnleg, ef nokkur yrði til þess að lesa hana af skilningi. Sést af því, að engum er alls varnað.
Nú eru kosningar í nánd og til að frekar verði rætt um eitthvað annað en núverandi ástand mála eða þá þróun efnahagsmála og almennra lífskjara undanfarinn áratug eða svo, lagði stjórnarandstaðan fram svohljóðandi áríðandi þingsályktunartillögu:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka Ísland með formlegum hætti út af lista þeirra 30 þjóða, sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak vorið 2003 og lýsi [sic] því yfir að stuðningurinn við innrásina hafi verið misráðinn.“ |
Vonandi lesa sem flestir þessa tillögu og átta sig á því augljósa sem hún segir í raun. Og hvað er það?
Ein af lífseigari upphrópunum stjórnarandstöðunnar, bergmáluð af sumum álitsgjöfum, er það að á síðari hluta síðasta kjörtímabils hafi sá undarlegi atburður orðið að tilteknir tveir menn hafi lýst yfir stuðningi Íslands við hernaðaraðgerðir gegn ríkisstjórn Saddams Husseins í Írak og eiginlega gert Ísland aðila að innrás í það ríki. Allar götur síðan hafi Ísland verið innrásarþjóð og það vegna einhverrar ákvörðunar tveggja manna.
Þó alveg verði horft fram hjá því sem margir muna enn þá, að íslensk stjórnvöld skráðu sig ekki á neinn lista þá er annað atriði sem miklu meira máli skiptir, og þingsályktunartillaga Össurar og félaga minnir á, nú fjórum árum eftir innrás. Og meginatriðið er þetta: Í fjögur ár hefur Alþingi Íslendinga engar athugasemdir gert við það hvernig íslensk stjórnvöld héldu á málum í aðdraganda og eftir innrás bandamanna í Írak. Hafi ráðherrar lýst einhverri skoðun fyrir hönd Íslands þá hefur Alþingi gert þá skoðun að sinni, með því að andæfa henni aldrei síðustu fjögur árin og með því að setja ráðherrana ekki frá embættum sínum. Ef að það myndi einhvern tíma gerast, sem halda að hafi gerst, að íslenskri ráðherrar taki ákvörðun, hvað þá um stuðning við innrás í annað ríki!, gegn vilja Alþingis, þá myndi þingið þegar í stað samþykkja afturköllun á þeirri ákvörðun og svo væntanlega setja ráðherrana af.
Kjósendur fengu svo færi á að setja þessa tvo menn af í kosningum fyrir fjórum árum en kusu að gera það ekki enda fáir trúaðir á þær kenningar stjórnarandstöðunnar að tveir ráðherrar á Íslandi hafi stýrt innrásinni í Írak. Þetta er svona álíka trúverðug kenning og að Ísland eigi erindi í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.
Önnur meinloka sem margir hafa endurtekið hver af öðrum, er að framin hafi verið stórfelld lögbrot með því að ekki hafi verið haft „samráð við utanríkismálanefnd Alþingis“. Það er eins og þeir sem svo tala viti ekki einu sinni hvaða hugtak þetta er, utanríkismálanefnd Alþingis. Haldi sennilega að þetta sé véfréttin í Delfí og að enginn hafi vitað skoðun nefndarinnar á Íraksmálum. Utanríkismálanefnd alþingis eru nokkrir þingmenn,. Fyrir stjórnarandstöðuna sitja þar þannig Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir. Hver vissi ekki skoðun þeirra á Íraksmálum? Talið um að ekki hafi verið „haft samráð við utanríkismálanefnd Alþingis“ er kvörtun um að enginn hafi vitað skoðun Steingríms J. Sigfússonar, Össurar Skarphéðinssonar og Þórunnar Sveinbjarnardóttur á málinu – og það halda hafi þurft einn fund enn til að komast að því hver hún væri. Það er nú lögbrotið sem þeir hafa talað um í fjögur ár sem vilja ekki tala um neitt sem skiptir líf og hag íslenskra kjósenda máli.