Mánudagur 5. mars 2007

64. tbl. 11. árg.

Komist vinstri grænir, Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn saman til valda að loknum kosningum í vor er ekki útilokað að til yrði ríkisstofnun sem gæfi einn góðan veðurdag út tilkynningu á borð við þessa:

Samgönguráðuneytið hefur gefið út reglugerð um breytingu á reglugerð um lánshlutfall og fjárhæð BLS-veðbréfa, nr. 666/2007. Breytingin felur í sér að lánshlutfall almennra lána Bifreiðalánasjóðs hækkar úr 80% í 90% og hámarksfjárhæð almennra lána hækkar úr 3 milljónum króna í 4 milljónir króna. Reglugerð þessi tekur gildi 14. maí n.k. Viðmið við verðmat helst þó óbreytt.

Sumum kann að þykja þetta fjarstæðukennt, en rétt er að minna á að Íbúðalánasjóður ríkisins gaf út svo að segja samhljóða tilkynningu á miðvikudag þar sem skilaboðin og orðalagið eru hin sömu þó að Bifreiðalánasjóður heiti þar Íbúðalánasjóður. Út af fyrir sig má segja að fjandskapur vinstri flokkanna í garð einkabílsins geri ólíklegt að svona hugmynd verði að veruleika, en þó er engu að treysta í því sambandi, svo oft skipta þessir flokkar um skoðun.

En ef horft er framhjá því að sumir hafa yndi af að fjandskapast út í þarfasta þjón nútímamannsins þá er ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að þeir sem vilja veg Íbúðalánasjóðs ríkisins sem mestan geti ekki stutt rekstur Bifreiðalánasjóðs ríkisins. Er ekki staðreynd að flestir landsmenn fjármagna nú orðið bifreiðakaup sín með einhvers konar bílalánum? Er ekki staðreynd að allnokkur hluti ráðstöfunartekna almennings fer í bifreiðakaup? Er nokkurt vit í að leyfa markaðnum – þeirri grimmu skepnu – að sjá einum um að útvega fjármagn til bifreiðakaupa? Er ekki nauðsynlegt að ríkið tryggi samkeppni og lága vexti á bifreiðalánamarkaði?

Ef ríkið stofnar Bifreiðalánasjóð í ljósi glæsilegrar reynslu af Íbúðalánasjóði, er þá nokkuð því til fyrirstöðu að ríkið aðstoði landsmenn líka við að fjármagna önnur stórkaup sín eða jafnvel daglega neyslu? Er vit í því að leyfa einkaaðilum einum að sjá fólki fyrir algengustu greiðslumiðlunum, það er að segja greiðslukortunum? Auðvitað á ríkið að tryggja almenningi ódýr greiðslukort með háum úttektarheimildum og lágum vöxtum. Og vitaskuld verður að fylgja með rífleg yfirdráttarheimild á niðurgreiddum vöxtum.

Fyrst minnst er á greiðslukort er rétt að benda Steingrími J. Sigfússyni ekki á eitt. Netið auðveldar mönnum vissulega að nálgast klám en til að kaupa klám á netinu þurfa menn greiðslukort eins og í flestum öðrum netviðskiptum. Netlögga þyrfti að fylgjast með öllum vefsíðum í veröldinni ætlaði hún sér að koma í veg fyrir að Íslendingar sæju í bert. Það er vonlaust verk þótt Steingrímur sé röskur maður. Kortalögga þyrfti hins vegar aðeins að fylgjast með þessum nokkur hundruð þúsund greiðslukortum til að koma í veg fyrir að þau séu misnotuð til að greiða fyrir klám eða jafnvel sígarettur, sætindi, feitmeti eða það versta af öllu bjórinn.