Helgarsprokið 4. mars 2007

63. tbl. 11. árg.

E inkafyrirtæki sem starfar á alþjóðlegum markaði, Marel, ákvað á dögunum að leggja niður eina af starfsstöðvum sínum hér á landi, nánar tiltekið á Ísafirði. Tilgangurinn var sagður sá að ná betri árangri í rekstrinum og engin ástæða er til að efast um það, enda væri það sérkennileg ráðstöfum hjá eigendum fyrirtækisins að leggja niður starfsstöð ef það væri óhagkvæmt. Það má því segja að ákvörðun fyrirtækisins sé skiljanleg og eðlileg. Með sama hætti má telja að það sé skiljanlegt og eðlilegt hjá starfsmönnum að vera ósáttir við að störf þeirra séu lögð niður. Það má jafnvel líka hafa á því nokkurn skilning að bæjaryfirvöld á staðnum lýsi óánægju sinni og áhyggjum af atvinnuástandi. Við því er ekkert að segja. Atvinna er mikilvæg og eðlilegt að menn á hverjum stað harmi það ef atvinnutækifærum á staðnum fækkar. Það búa ekki allir við þann lúxus að geta haldið atkvæðagreiðslur til að hindra atvinnuuppbyggingu.

„Þó að krafa um flutning starfa ríkisins út á land sé ekki að nafninu til krafa um fleiri og dýrari störf á vegum ríkisins er hún það vissulega í raun.“

En þó að eðlilegt sé að bæjaryfirvöld lýsi áhyggjum er ekki þar með sagt að eðlilegt sé að þau geri hvað sem er vegna óánægju sinnar. Eitt af því sem ísfirsk yfirvöld hefðu mátt stilla sig um var að kalla eftir aðgerðum stjórnvalda, það er að segja ríkisvaldsins. Yfirvöld fyrir vestan hafa krafist þess að ríkisstjórnin grípi til aðgerða á borð við þær að flytja opinber störf vestur en slík krafa er vitaskuld fráleit. Landsbyggðin getur ekki byggt tilveru sína á óhagkvæmri dreifingu starfsmanna ríkisins út um landið.

Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar benti réttilega á að störfum á vegum ríkisins hefði fjölgað mikið á síðustu árum, en hann hélt því ranglega fram að þeim störfum ætti að dreifa um landið. Aðalatriðið í þessu sambandi er að starfsemi ríkisins á að vera eins hagkvæm og kostur er. Ef það reynist hagkvæmast að hafa einhverja starfsemi ríkisins á Ísafirði, þá á hún að vera þar. Ef ekki, þá á hún ekki að vera þar. Svo einfalt er það. Ríkið á að hafa eins fáa starfsmenn og það kemst af með og reka stofnanir sínar á eins hagkvæman hátt og kostur er.

Menn gleyma því stundum að peningarnir sem fara í laun ríkisstarfsmannanna og annan kostnað af rekstri stofnana ríkisins um hver mánaðamót eru teknir af skattgreiðendum. Skattgreiðendur eiga að geta treyst því að peningarnir sem ríkið tekur af þeim um hver mánaðamót séu notaðir með sem hagkvæmustum hætti. Að öðrum kosti tekur ríkið of mikið af skattgreiðendum. Þetta eru vissulega einföld sannindi en þó gengur býsna mörgum alveg ótrúlega illa að tileinka sér þau.

Þó að krafa um flutning starfa ríkisins út á land sé ekki að nafninu til krafa um fleiri og dýrari störf á vegum ríkisins er hún það vissulega í raun. Ef ekki væri þess einfaldlega krafist að starfsemi ríkisins væri höfð þar sem hún er hagkvæmust. Þá mundi stundum heyrast í bæjarstjórum úti á landi að þeir teldu fráleitt að flytja stofnanir ríkisins til bæjarfélaga sinna þar sem reksturinn gæti ekki orðið hagkvæmastur þar. Það hefur hins vegar aldrei gerst að bæjarstjóri úti á landi óski eftir að ríkið spari skattfé með því að flytja einhverja starfsemi ekki út á land og óhætt er að fullyrða að slíkt mun aldrei heyrast. Bæjarstjórar sem tjá sig um flutning opinberra starfa út á land eru jafnan að sinna þröngum sérhagsmunum en gefa minna fyrir hagsmuni skattgreiðenda.

Krafan um flutning starfa út á land er sem sagt í raun krafa um fleiri og dýrari störf hins opinbera til að halda uppi heildarkaupmætti á tilteknum stöðum. Þessi krafa er ekki ný og hún er ekki heldur séríslenskt fyrirbæri. Hún birtist líka í fleiri myndum, svo sem kröfunni um auknar tímabundnar framkvæmdir á tilteknum stöðum kostaðar af skattfé. Í bókinni Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt, sem hefur verið uppseld í nokkur ár hér á landi, er fjallað um margs konar hagfræðilegar ranghugmyndir. Ein þeirra snýr að smíði brúar sem er byggð með það að aðalmarkmiði að „skapa atvinnu“ en ekki í þeim eina tilgangi að vera samgöngubót. Gefum Hazlitt orðið, í þeirri von að það megi verða til að leiðrétta algengan misskilning:

Þegar atvinnusköpun verður markmiðið, verður þörfin aukaatriði. Þá þarf að búa til verkefni. Í stað þess að hugsa einungis um hvar verði að byggja brýr, fara ríkisútgjaldasinnarnir að spyrja sjálfa sig hvar hægt sé að byggja brýr. Geta þeir hugsað upp sannfærandi ástæðu til að smíða brú sem tengir saman tvo smábæi? Brátt verður það algjörlega nauðsynlegt. Þeir sem draga nauðsynina í efa eru kallaðir úrtölumenn og afturhaldsseggir.

Tvær röksemdir eru settar fram vegna brúarsmíðarinnar, ein sem heyrist aðallega áður en hún er smíðuð og önnur sem heyrist aðallega eftir að henni hefur verið lokið. Fyrri röksemdin er sú að hún muni skapa atvinnu. Segjum að hún muni skapa 500 störf í heilt ár. Menn draga þá ályktun að þessi störf hefðu að öðrum kosti ekki orðið til.

Þetta er það sem menn koma auga á í fljótu bragði. Ef við höfum aftur á móti þjálfað okkur í að líta fram hjá fyrstu afleiðingunum til hinna næstu, og framhjá þeim sem hagnast beint á framkvæmdum á vegum ríkisins til hinna sem verða fyrir óbeinum áhrifum, birtist okkur önnur og breytt mynd. Það er rétt að ákveðinn hópur brúarsmiða kann að fá meiri vinnu en ella, en brúna þarf að greiða fyrir með skattpeningum. Fyrir hvern dal sem fer í brúna þarf að taka einn dal frá skattgreiðendum. Ef brúin kostar 10 milljónir dala, munu skattgreiðendur tapa 10 milljónum dala. Þetta er það sem verður tekið af þeim og þeir hefðu að öðrum kosti getað eytt í það sem þá vantaði mest.

Þannig eyðileggur hvert starf, sem ríki eða sveitarfélög skapa með brúarsmíðinni, eitt starf á vegum einkaaðila á einhverju öðru sviði. Við sjáum mennina sem starfa við brúna og getum horft á þá við vinnu sína. Röksemd ríkisútgjaldasinnanna um að brúin skapi atvinnu verður ljóslifandi og sennilega sannfærandi fyrir flest fólk. En það er annað sem við sjáum ekki, vegna þess að því var því miður aldrei leyft að verða til. Það eru störfin sem eyðilögð voru með því að taka 10 milljónir dala frá skattgreiðendum. Það eina sem hefur gerst, í besta falli, er að orðið hefur tilfærsla á störfum vegna verksins. Fleiri brúarsmiðir eru að störfum, en færri við bílaframleiðslu, sjónvarpsviðgerðir, fataiðnað og landbúnaðarstörf.

Þá komum við að seinni röksemdinni. Brúin er til. Við skulum gera ráð fyrir að þetta sé falleg en ekki ljót brú. Hún hefur orðið til vegna galdra ríkisútgjaldanna. Hvar væri hún nú ef úrtölumennirnir og afturhaldsseggirnir hefðu fengið að ráða? Það væri engin brú. Landið væri bara þeim mun fátækara.

Hérna hafa röksemdir ríkisútgjaldasinnanna aftur betur í hugum allra þeirra sem ekki sjá annað en það sem blasir við með berum augum. Menn sjá brúna, en hafi þeir tamið sér að líta á óbeinu afleiðingarnar jafnframt þeim beinu, sjá þeir aftur með hjálp ímyndunaraflsins, möguleikana sem ekki hefur verið leyft að verða að veruleika. Þeir sjá óbyggð heimili, bíla og uppþvottavélar sem ekki hafa verið framleidd, kjóla og kápur sem ekki hafa verið saumuð og ef til vill matvæli sem enn hafa ekki orðið til. Að sjá þessa hluti sem aldrei hafa verið gerðir, krefst ímyndunarafls sem ekki er öllum gefið. Við getum ef til vill hugsað einu sinni um þessa hluti sem ekki urðu til, en við getum ekki haft þá stöðugt fyrir sjónum okkar eins og brúna sem við keyrum yfir daglega. Það sem hefur gerst er bara að einn hlutur hefur verið gerður í stað annarra.

Fyrir þá sem vilja auðga ímyndunaraflið er ekki úr vegi að lesa texta Hazlitts aftur og skipta þá út orðinu brú fyrir jarðgöng.