Þriðjudagur 6. mars 2007

65. tbl. 11. árg.

A

Borgaryfirvöld ætla að veita Dieselbílum, sem valda margfalt meiri sótmengun en bensínbílar, afslátt í bílastæði borgarinnar. Hugmyndina má rekja til vinstri grænna.

ð tillögu umhverfisráðs Reykjavíkur hefur bílastæðasjóði borgarinnar verið falið að útfæra kerfi sem veita á „vistvænum“ bílum afslátt í bílastæði. Miðað við allt fárið sem magnað hefur verið upp að undanförnu vegna svifryks í borginni mætti ætla að „vistvænn“ bíll væri fyrst og fremst bíll sem gæfi frá sér lítið sót. Sót er einna varasamasti hluti svifryksins.

Þetta mun þó ekki raunin heldur verður miðað við útblástur gróðurhúsalofttegunda. Það þýðir að bílar með Dieselvélar eiga meiri möguleika en bensínbílar á að komast í „vistvæna“ flokkinn. Dieselbílar gefa hins vegar frá sér margfalt meira sót en bensínbílar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem neyslustýring í nafni umhverfisins reynist undarleg. Til að hafa nú engan heiður af fulltrúum vinstri grænna í umhverfisráði borgarinnar er sjálfsagt að geta þess að tillaga um þessa ívilnun handa bílum sem valda meiri svifryksmengun kom upphaflega fram á síðasta kjörtímabili.

Morgunblaðið hefur auðvitað sagt samviskusamlega frá öllum ótíðindum af svifrykinu að undanförnu og hvergi dregið af sér frekar en þegar önnur vandamál herja á þjóðfélagið. Að vísu missti það áhugann á svifrykinu þegar aðgerðir borgarinnar gegn óhreinindum á götunum fóru að bera árangur í síðustu viku og vandi þeirra sem „skilja vegna netfíknar“ ruddi forsíðu blaðsins. Menn geta svo treyst því að þegar blaðið hefur talið sig ná nægri örvun með vandamálafréttunum kemur það í Reykjavíkurbréfi, að heimurinn sé að fara norður og niður, lífshættir nútímamannsins séu agalegir og grípa þurfti til stórfelldra ríkisafskipta, stýra neyslu, hækka skatta, breyta hugarfari fólksins og setja ákvæði í stjórnarskrá um sameign þjóðarinnar á einhverju.

Eitt slíkt Reykjavíkurbréf birtist um síðustu helgi í framhaldi af svifryksumfjöllun blaðsins. Þegar Morgunblaðið fjallar um umhverfismál vitnar það auðvitað fyrst og fremst í sjálft sig en einnig menn sem geimverur hafa numið brott og skilað aftur með nýjustu íhlutum. Í nýjasta Reykjavíkurbréfinu er sagt að fregnir af svifryki í Reykjavík hafi gengið af goðsögninni um borgina með hreina loftið dauðri. Og hverjar eru tillögur Morgunblaðsins um það efni? Jú, annars vegar leggur blaðið til skattlagningu nagladekkja sem margir ökumenn telja svo mikilvægt öryggistæki að þeir láta sig hafa það að aka um á slíkum dekkjum. Hins vegar vill blaðið beita harkalegri neyslustýringu gegn bensínbílum, bæði með háum sköttum á bensínbíla og bensín í samanburði við Dieselbíla og Dieselolíu.

En hvað varð um áhyggjur Morgunblaðisins af svifrykinu? Þær hljóta að vera roknar út í veður og vind fyrst blaðið leggur til að bíleigendur verði þvingaðir til að aka um á Dieselbílum sem gefa frá sér margfalt meira svifryk í útblæstri en bensínbílar.

Í þessu sambandi má svo geta þess að nær allir strætisvagnar borgarinnar eru knúnir Dieselolíu sem gefur margfalt meira sót en bensínið sem er orkugjafi flestra einkabíla. Því til viðbótar liggur fyrir að stórir bílar, eins og strætisvagnar og vörubílar, þyrla margfalt meira svifryki upp af götunum en venjulegir einkabílar. Ryk undan einkabílum safnast út í kanta og svo kemur strætó og þyrlar öllum hroðanum upp. Strætó gefur því ekki aðeins frá sér meiri gróðurhúsalofttegundir á farþegakílómetra en margir einkabílar heldur sótar hann meira og veldur meiri svifryksmengun.