Þriðjudagur 27. febrúar 2007

58. tbl. 11. árg.

Í

Steingrímur J. segist mjög áhugasamur um sjónarmið kvenna. Hann hefur þó ekki lesið bókina sem segir allt aðra sögu. Enda er hún eftir konu.

gær vitnaði Vefþjóðviljinn í hina fróðlegu bók Margrétar Frímannsdóttur, Stelpan frá Stokkseyri, þar sem hún sendi fyrrverandi samstarfsmönnum sínum í Alþýðubandalaginu hugleiðingu um áhuga þeirra á umhverfismálum. Steingrímur J. Sigfússon fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalagsins og núverandi formaður vinstrigrænna fær raunar fleiri kveðjur í bókinni, ekki síst um meintan áhuga á „kvenfrelsismálum“ sem höfundi þykir hreint grín þegar mið er tekið af framkomu Steingríms í garð kvenna í Alþýðubandalaginu.

Margrét segir að svo femínískur hafi Steingrímur verið að hann hafi vart virt sig viðlits á þingflokksfundum Alþýðubandalagsins eftir að hún hafði hann undir í formannskjöri. Hún segir jafnframt frá því að karlarnir hafi haldið fundi án sín til að leiða mál til lykta. Að karlafundunum loknum var svo kallað á Margréti til að skýra henni frá afstöðu flokksins sem hún var formaður fyrir. Í Silfri Egils á sunnudaginn var voru þessar lýsingar Margrétar bornar undir Steingrím J. Sigfússon en hann sagðist ekki kannast við þær, hann væri einlægur femínisti og bæri virðingu fyrir konum. Til að leggja áherslu á virðingu sína fyrir Margréti og undirstrika áhuga sinn á sjónarmiðum kvenna bætti hann því svo við að hann hefði ekki lesið bókina hennar.

En það er ástæðulaust fyrir Steingrím að vera að blaða í þessari bók sem samstarfskona hans til margra ára var að skrifa um sameiginlega reynslu þeirra. Til þess hefur hann auðvitað kvenkyns varaformann. Katrín Jakobsdóttir, sá einfaldlega um málið fyrir hönd flokksins ásamt fleiri ungum gáfumönnum og gáfu þau bókinni umsögnina: „Minnislausa stelpan frá Stokkseyri. Margrét Frímannsdóttir heimfærir endurminningar Thelmu Ásdísardóttur upp á sjálfa sig.“

Um helgina héldu vinstrigrænir svo landsfund þar sem helstu niðurstöður voru eftirfarandi:

1. Stofna ber embætti netlögreglu.
2. Úrslit þingkosninga skulu ákveðin með lögum.

Fyrra stefnumálinu lýsti Steingrímur J. Sigfússon í fyrrnefndum þætti á Stöð 2 þar sem hann ræddi helstu tíðindin af landsfundinum. Netlögreglan á að taka á því sem Íslendingar eru að skoða á erlendum netsíðum. Hér eru loks komnar útfærðar hugmyndir um störf í „hátækni- og þekkingariðnaði“ frá vinstrigrænum. Þessum eftirsóknarverðu störfum hafa vinstrigrænir lengið lofað að þeir færi landsmönnum þegar þeir komast til valda. Þar með þurfi menn ekki að þræla lengur í öllum þessum gríðarlega fjölda af tveimur álverum sem hér hafa risið frá landnámi eða þessu eina sem nú er í byggingu. Netið hefur tvímælalaust skapað tæknileg skilyrði til að vinstrigræn stjórnvöld geti aflað sér þekkingar á því hvað almenningur er eiginlega að pikka á tölvurnar sínar á síðkvöldum. Og hér er einnig komin skýringin á því hvers vegna Steingrímur vill helst að ríkið kaupi aftur þær símasnúrur sem liggja í jörðu hér á landi. 

Seinna stefnumálið er einnig tilvalið efni í vísindaskáldsögu með alræðisívafi. Vinstrigrænir vilja binda jafnt hlutfall karla og kvenna á Alþingi í lög, gott ef ekki stjórnarskrá. Það hefði til að mynda haft það í för með sér eftir síðustu þingkosningar að 12 eða 13 lýðræðislega kjörnir þingmenn hefðu misst sæti sín og í stað þeirra komið frambjóðendur sem náðu bara alls ekki kjöri. Afar snyrtileg leið til að afnema lýðræði í landinu.