Mánudagur 26. febrúar 2007

57. tbl. 11. árg.
Við í Alþýðubandalaginu vorum svo sem heldur engir sérstakir talsmenn umhverfismála. Ég man ekki til þess að Alþýðubandalagið í ríkisstjórn legði áherslu á umhverfismál. Umhverfisráðuneytið var fyrst og fremst stofnað til þess að búa til fleiri ráðherrastóla og styrkja ríkisstjórnina með aðild Borgaraflokksins.
– Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins, Stelpan frá Stokkseyri bls. 226, Akureyri 2006.

Þó auðvitað eigi ekki að draga óendanlegar ályktanir af slíku, þá voru þær skemmtilegar frásagnirnar af vinstragræna landsfundarfulltrúanum sem yfirheyrði hina umhverfisvænu félaga sína um það hvernig þeir hefðu komið sér á fundarstað. Yfirheyrandanum, sem sjálfur er mikill áhugamaður um hjólreiðar, hafði nefnilega blöskrað einkabílaflóðið fyrir utan fundarstaðinn og kvaddi sér því hljóðs og vildi vita hversu margir fundarmenn höfðu komið gangandi á fundinn. Það reyndist enginn hafa gert. Þá vildi hann vita hve margir hefðu komið með strætisvagni. Það hafði enginn gert. Næst mun hann hafa spurt hversu margir hefðu komið á reiðhjóli og það hafði þó einn gert. Að lokum spurði hann hverjir höfðu komið á einkabíl – og það reyndust vera allir hinir.

Nú væri ekki sanngjarnt að gera þá kröfu til allra þeirra manna, sem einlæglega berjast fyrir minni notkun einkabíls, að þeir fari sjálfir allra sinna ferða annað hvort á þríhjóli eða í strætisvagni. Það er ekki hægt að lá fólki þó að það umgangist heiminn eins og hann er, fremur en eins og það vildi helst að hann væri. En það er engu að síður merkileg staðreynd að á landsfund vinstrigrænna, landsfund sem þingfréttamaður Ríkissjónvarpsins þreytist ekki á að taka fram að sé sá fjölmennasti í sögunni, komi færri menn á hjóli og færri menn gangandi, en á meðalstóran aðalfund Andríkis. En til að sanngirni sé gætt, þá koma jafn margir á strætisvagni á þessar tvær mikilvægu samkomur.

En þessi litla frásögn – sem sannar ósköp lítið ein og sér – er engu að síður enn ein áminningin um það, að það er margt málum blandið með hinn ákafa umhverfisáhuga sem forystumenn vinstrigrænna reyna að sýna í sífellu. Mannanna sem efndu árlega til „bíllauss dags“ þegar þeir stýrðu Reykjavíkurborg , en óku sjálfir um allt á fólksbíl þann dag, alveg eins og aðra daga. Hinn vinstrigræni forsvarsmaður bíllausa dagsins fór um á embættisbifreið borgarinnar með einkabílstjóra um leið og hann skoraði á samborgara sína að skilja nú bílana eftir heima.

Eins og áður hefur verið rakið, þá er nokkuð margt sem bendir til þess að umhverfisáhugi vinstrigrænna sé meiri í orði en á borði. Að vinstrihreyfingin-grænt framboð sé einfaldlega hefðbundinn sósíalískur flokkur, sem veifi umhverfisfána af þeirri ástæðu helstri, að aðrir fánar hans séu orðnir gegnsæir og fáum myndi líka sem þar sæist í gegn.