Helgarsprokið 25. febrúar 2007

56. tbl. 11. árg.

A merican Civil Liberties Union, ACLU, eru elstu og stærstu mannréttindasamtök Bandaríkjanna, með skrifstofur í hverju ríki og yfir hálfa milljón félagsmanna. Samtökin, sem stofnuð voru árið 1920, eru í raun stærsta lögfræðifirmað í Bandaríkjunum á sviði almannahagsmuna. Samtökin reka oftar mál fyrir hæstarétti en nokkur annar að dómsmálaráðuneytinu einu undanskildu. Um eitthundrað fastráðnir lögmenn samtakanna ásamt um tvöþúsund lögmönnum í sjálfboðavinnu reka nálægt sexþúsund mál á vegum samtakanna á hverju ári. Auk þessa reka samtökin skrifstofu í Washington D.C. til að vekja athygli löggjafans á ýmsum mannréttindamálum og sinna jafnframt fræðslu til almennings um mannréttindi.

„Í bók sinni, Til varnar klámi, bendir Strossen á að ritskoðun og lög gegn klámi gangi ávallt gegn mannréttindum og þar með réttindum kvenna“

Samtökin hafa það fyrst og fremst á stefnuskrá sinni að berjast fyrir stefnuskrá Bandaríkjanna, það er að segja réttindakafla stjórnarskrárinnar svo og þeim lögum sem tryggja eiga réttindi borgaranna gagnvart ríkisvaldinu. Samtökin hafa leikið lykilhlutverk og á stundum aðalhlutverk í sögu mannréttindabaráttu í Bandaríkjunum á tuttugustu öldinni og þá einkum fyrir fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar sem kveður á um mál, – funda-, trú- og félagafrelsi.. Og sú saga vitnar um mikinn árangur þessarar baráttu sem reyndar hefur verið merkilega farsæl sé horft til þess að samtökin hafa tæpast valið sér viðfangsefni eftir vinsældum þeirra. Barátta samtakanna hefur verið svo farsæl einkum vegna þess að þau hafa aldrei í áttatíuogsjö ára sögu sinni hvikað frá stefnu sinni fyrir fyrsta réttindakaflanum. Þau eru í þeim skilningi einhver alíhaldsömustu samtök í heimalandi sínu.

Núverandi forseti samtakanna er Nadine Strossen, lagaprófessor við lagaháskólann í New York, New York Law School. Hún er fyrst kvenna til að gegna starfi forseta ACLU og er eftirsóttur fyrirlesari og álitsgjafi um mannréttinda- og stjórnarskrármál. Tímarit lögfræðinga í Bandaríkjunum, National Law Journal, hefur í tvígang sagt hana meðal 100 áhrifamestu lögfræðinga í Bandaríkjunum. Hún hefur af mörgum öðrum tímaritum og félagasamtökum verið talin í hópi áhrifamestu samtíðarmanna þar í landi. Árið 2005 efndi lagadeild háskólans í Tulsa til ráðstefnu sem bar titilinn: „Nadine Strossen: fræðimaður sem baráttumaður“. Árið 1995 útnefndi New York Times nýútkomna bók hennar sem eina af markverðustu bókum ársins. Sú bók ber heitið: Defending Pornography: Free Speech, Sex and the Fight for Women’s Rights, eða Til varnar klámi: málfrelsi, kynlíf og baráttan fyrir réttindum kvenna.

Bók, Nadine Strossel, forseta ACLU, Til varnar klámi: málfrelsi, kynlíf og baráttan fyrir réttindum kvenna.

Í bók sinni, Til varnar klámi, bendir Strossen á að ritskoðun og lög gegn klámi gangi ávallt gegn mannréttindum og þar með réttindum kvenna auk þess sem hún færir sannfærandi rök fyrir því að slíkt bann sé alls ekki til þess fallið að draga úr ofbeldi gegn konum. Til varnar klámi færir hún meðal annars þessi rök. Í fyrsta lagi: klám er ekki í eðli sínu ofbeldi og þar sem þegar eru ákvæði í lögum sem banna ofbeldi og annars konar þvinganir er ekki þörf á sérstakri löggjöf um klám. Í öðru lagi: konur sem sitja naktar fyrir eða leika í klámmyndum eru ekki alltaf og óhjákvæmilega beittar nauðung. Það sem verra er, það viðhorf þeirra feminista, sem eru fylgjandi ritskoðun, að konur geti ekki af fúsum og frjálsum vilja setið fyrir eða leikið í klámmyndum gengur þvert gegn hugmyndum um full og óskoruð mannréttindi kvenna og gerir fullorðnar konur að ósjálfráða börnum. Í þriðja lagi þá bendir hún á að með því að gera klám útlægt þá séu réttindi og öryggi þeirra kvenna sem við það starfa að engu gert.

Setjum sem svo að Andríki, útgáfufélag Vefþjóðviljans, myndi leigja sal á einhverju hótelanna, keypti auglýsingar í blöðum og hefði tekist að telja Nadine Strossen á að koma til Reykjavíkur til að halda erindi um bók sína: „Til varnar klámi“. Hver yrðu þá viðbrögð borgarstjórnar og þingmanna? Myndu menn mæla fyrir því að lögreglan elti hana á röndum? Myndu borgarfulltrúar samþykkja ályktanir, sem feður dætra sinna, gegn því að forseti stærstu og elstu mannréttindasamtaka Bandaríkjanna fengi húsaskjól á meðan dvölinni stæði? Hvaða glæpir yrðu bornir upp á hana af stjórnmálamönnum?

Hér er ekki spurt út í bláinn því ef af yrði þá yrði þetta sannkölluð klámráðstefna en ekki hópur saklauss fólks á leið í Bláa lónið.