Laugardagur 24. febrúar 2007

55. tbl. 11. árg.

F ormaður vinstri-grænna flutti í gær setningarræðu landsfundar flokksins og fór vítt yfir sviðið eins og gjarnan er gert við slíkar aðstæður. Formaðurinn, Steingrímur J. Sigfússon, var vígreifur og taldi að nú væri „bullandi stemmning fyrir því að fella ríkisstjórnina“ og sennilega er þetta rétt lýsing á stemmningunni. Hann taldi líka nú væru „bullandi möguleikar“ á að fella ríkisstjórnina og mynda aðra og betri með aðild vinstri-grænna, sem er líka vafalítið rétt lýsing á möguleikunum.

Elskaður og dáður leiðtogi vinstri-grænna hélt bullandi ræðu við setningu fimmta landsfundar flokksins í gær.

En það kom fleira fram í þessari bullandi ræðu formannsins. Ræðan var svo sem ósköp hefðbundin ræða forystumanns vinstri flokks fyrir kosningar og greinilegt að nú ætla vinstri-grænir ekki að gefa Samfylkingunni neitt eftir af fylginu sem er nær miðjunni en þeir hafa hingað til sóst eftir. Formaðurinn forðaðist að tala illa um auðvaldið og lét þess getið, í anda nafna síns Hermannssonar, að einn af „efnaðri viðskiptajöfrum þessa lands“ hefði tjáð sér fyrir nokkrum vikum að hann ætlaði að kjósa vinstri-græna í vor. Vefþjóðviljinn getur upplýst að hann hitti þennan sama efnaða mann skömmu eftir að maðurinn ræddi við Steingrím og sagðist hann hafa skipt um skoðun. Hann væri ekki lengur á þeim buxunum að kjósa vinstri-græna. Svona getur nú heimurinn verið sérkennilega fullur af bullandi tilviljunum.

Hvað um það. Steingrímur Joð ætlar að gera allt fyrir alla og það eiginlega alveg án þess að hækka skatta, enda stendur ríkissjóður svo vel – sem er þó ekki afleitri ríkisstjórninni að þakka, það er rétt að því sé haldið til haga. Eftir námskeið hjá varaformanni Samfylkingarinnar hefur Steingrímur lært að það er best fyrir stjórnmálamenn að telja sem oftast upp í númeraröð það sem þeir hafa að segja og þess vegna rakti Steingrímur það í tuttugu tölusettum liðum sem hann hyggst ná fram á fyrsta ársfjórðungnum komist hann til valda að kosningum loknum.

Ekki verða liðirnir allir taldir upp hér, en óhætt er að segja að þegar Steingrímur hefur bætt sjö milljörðum á ári við hjá öldruðum, þegar hann hefur samið um auknar tekjur til sveitarfélaganna, boðið út strandsiglingar, aukið fjárveitingar til samgöngumála, fjarskiptamála og ýmissa sérvalinna atvinnumála, þarf ekki að hafa áhyggjur af afgangi í rekstri ríkissjóðs.

Um leið ætlar Steingrímur að hækka skatta á þennan efnaða fyrrverandi væntanlegan kjósanda sinn, sem hefur líklega hætt við þegar hann áttaði sig á að hann hefði ekki efni á að kjósa Steingrím nema flytja um leið til Bahamaeyja. En Steingrímur segist „í sjálfu sér“ ekki vera „að boða skattahækkanir í heild, heldur tilfærslur“, sem hljómar miklu betur fyrir kosningar.

Og það dettur heldur engum í hug að vinstri-grænir mundu hækka skatta kæmust þeir í aðstöðu til þess. Það að þeir hafa hingað til verið á móti öllum skattalækkunum ríkisstjórnarinnar er auðvitað engin vísbending um að þeir mundu hækka skatta ef þeir kæmust í aðstöðu til þess. Og þó að þeir hafi í samvinnu við Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn í Reykjavík farið með útsvarið úr lögbundnu lágmarki í lögbundið hámark á nokkrum árum og lagt á ýmsa nýja skatta og gjöld, þá er það ekki heldur nein vísbending um hvað koma skal ef sömu flokkar fara að stýra ríkisfjármálunum.