Föstudagur 23. febrúar 2007

54. tbl. 11. árg.
Við höfum engar forsendur fyrir því að meina þeim aðgöngu að hótelinu. Svo framarlega sem þeir fara hér að lögum og reglum og trufla eða særa ekki aðra gesti hótelsins þá höfum við í rauninni ekkert haldbært í höndunum til þess að neita að taka við þeim. Við höfum ekki lagt það í vana okkar að yfirheyra gesti okkar um það hvaða atvinnu þeir hafa eða hvað þeir gera sér til dægrastyttingar. … Við teljum að ef yfirvöld sjá sér ekki fært að stöðva þetta fólk þegar það kemur hingað inn í landið þá eigum við afskaplega erfitt með að setja okkur í það sæti að loka hér á það. Eftir því sem mér skilst er enginn þarna á sakaskrá eða hefur verið fundinn sekur um neitt.
– Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Hótels Sögu, í Blaðinu í gær.

Nógu einkennilegt hefur nú verið að fylgjast með forráðamönnum Hótels Sögu ræða væntanlega gesti sína í fjölmiðlum undanfarna daga. Að hlusta á þá afsaka sig fyrir það að vera því miður ómögulegt að neita þessum illu gestum um gistingu. Slík framkoma ein og sér hefði verið næg ástæða til þess að yfirvegað fólk tæki heldur en ekki að efast um þá starfsemi sem fer fram í Bændahöllinni og hafði fram til þessa verið kölluð hótel. En nú þegar forsvarsmenn Hótels Sögu hafa bitið höfuðið af skömminni með því að svíkja samninga við væntanlega gesti sína, fólk sem ekkert hefur til saka unnið gagnvart hótelinu og raunar lagt sig í líma að uppfylla alls kyns dynti hótelhaldarans, þá hljóta vitibornir menn endanlega að afskrifa forráðamenn hótelsins.

Þeir sem nú gista Hótel Sögu – og bíða rólegir eftir reikningi sínum, óvitandi um að hótelið reka menn sem telja að gerðir samningar skipti engu máli og að orð þeirra séu minna virði en baul kúa þeirra – geta sér til skemmtunar leigt sér erótíska mynd á herbergi sínu. Fyrir það tekur hótekið af þeim gjald, þó hótelið neiti að vísu framleiðendum myndanna um gistingu hjá sér, eftir að hafa athugasemdalaust samþykkt pantanir þeirra. Það liggur nú fyrir yfirlýsing eiganda Hótels Sögu, Bændasamtaka Íslands, þess efnis að hann fari eingöngu eftir gerðum samningum að því marki sem honum sjálfum sýnist, jafnvel þeim samningum sem hann hefur sjálfur opinberlega lýst fullgilda nokkrum klukkustundum áður. Það væri maklegt ef skattgreiðendur tækju þessa menn á orðinu og leyfðu þeim að kynnast Bændasamtaka-orðheldni, næst þegar kemur að greiðslum samkvæmt „búvörusamningi“.

Hvað ætli hinir tilkomumiklu búhöldar við Hagatorg geri næst? Nú þegar þeir hafa lagt gildismat á samþykkta gesti sína, um hverja ætli nálaraugað lokist næst? Þeir hafa nú brotið samninga sína við þá gesti sem þeir að sögn höfðu fengið staðfest að höfðu hvergi nein lög brotið; slíkir hótelhaldarar geta nú varla tekið við dæmdum mönnum, íslenskum eða erlendum. Spilavíti eru bönnuð á Íslandi. Ætli erlendir eigendur og starfsfólk spilavíta megi í framtíðinni gista á Sögu? Eða munu svokallaðir hótelhaldarar kannski alfarið afsala sér lyklavöldum til hins hrópandi skríls á götunum, femínistafélagsins og hjarðarinnar í borgarstjórn?

Á hverju ári fer nú fram mikil ganga um miðbæinn, svonefnd gleðiganga. Ekki fer á milli mála í fréttum að skemmtiatriði göngumanna eru mörg hin djörfustu og alveg áreiðanlegt að þau og gangan sjálf hneyksla marga sem heima sitja. Göngumenn sjálfir eru hinir kátustu og auðvitað á að láta þá í friði svo lengi sem enginn er neyddur til þátttöku eða brotinn réttur á neinum með öðrum hætti. Gangan nýtur einnig stuðnings og velvilja hinna siðprúðu borgaryfirvalda í Reykjavík. Hvað ætli menn segðu nú ef eitthvert hótel tæki upp á því að neita um gistingu einhverjum sem hingað kæmi til þess að taka þátt í göngunni? Að ekki sé talað um fáheyrðan fruntaskap eins og að rifta samþykktri pöntun? Ætli ekki yrði sagt að hótelhaldari ætti ekki að fá að komast upp með að láta skoðun sína á gestunum ráða því hver fái herbergi og hver ekki? Ætli ekki yrði fljótlega farið að krefjast þess að hlutaðeigandi hótelhaldari yrði fangelsaður fyrir fordóma og fantaskap?

Nú er hins vegar rétt að taka fram, að vitaskuld er Vefþjóðviljinn fylgjandi viðskiptafrelsi og að hverjum og einum sé frjálst að neita að eiga viðskipti við annan. Að skoðun Vefþjóðviljans hefði Hótel Saga ekki þurft að lofa þessu fólki gistingu. En hótelið gerði það. Það var einfaldlega kominn á fullgildur samningur, sem annar kaus skyndilega að brjóta á viðsemjanda sínum. Vitaskuld hafa forráðamenn Hótels Sögu gert þetta vegna þrýstings frá ofsatrúarhópi sem mjög hefur fært sig upp á skaftið síðustu misserin, en þó skýringin sé hjá skrílnum er ábyrgðin hjá hótelinu. Raunar er það svo að það færist mjög í vöxt að hávaðamenn á götum úti hrifsi völdin í alls kyns málum. Dómstóll götunnar svonefndur, eða þeir sem láta eins og þeir tali fyrir einhvern óskilgreindan almenning, fara um með látum og litlar sálir láta undan. Einn daginn heimtar dómstóll götunnar að refsing einhvers manngarms verði þyngd, og ef að krafan kemur í tæka tíð þá láta dómstólar undan; næsta dag heimta þeir sem stýra kórnum kannski að ákærðir menn verði sýknaðir og þá verður það gert; einn daginn hlaupa femínistar fram og vilja útskúfa fólki sem þeir þó hvorki hafa heyrt né séð, og auðvitað er látið undan því. Hver veit hvar næst verður látið undan, ef ekki verður spyrnt við fótum.