Fimmtudagur 22. febrúar 2007

53. tbl. 11. árg.

Þ au undur urðu í vikunni að opinber sveitarstjórn, og það borgarstjórn Reykjavíkur, ákvað einróma að beina því til lögreglunnar að hópur fólks sem hingað er væntanlegur verði allur rannsakaður sem framleiðendur barnakláms. Það er með algerum ólíkindum að borgarfulltrúar fari svo út af sporinu og þeim öllum til skammar.

Segjum nú sem svo, að af einhverjum furðulegum ástæðum hafi borgaryfirvöld í Reykjavík upplýsingar um að tilteknir erlendir ríkisborgarar framleiði barnaklám í heimalandi sínu, en telja má fullvíst að slík framleiðsla sé jafn ólögleg þar og hér. Við þær aðstæður ættu borgaryfirvöld þegar að koma þeim upplýsingum til erlendra lögregluyfirvalda, annað hvort beint eða biðja íslensk lögregluyfirvöld að miðla upplýsingunum. En þetta gerir borgarstjórn Reykjavíkur ekki, enda hafa borgarfulltrúar ekkert í höndunum sem styður þessar ásakanir. Borgarfulltrúarnir láta sér einfaldlega sæma að samþykkja – ekki persónulega heldur í nafni borgarstjórnar Reykjavíkur – opinbera yfirlýsingu þar sem svívirðilegir glæpir eru algerlega órökstutt bornir upp á hóp fólks og svo stilla borgarfulltrúarnir sér brosandi upp fyrir framan ljósmyndara Morgunblaðsins, en blaðið tók sérstaklega fram að „konur [hefðu verið] í meirihluta fundarmanna“.

Einhver Gísli Marteinn Baldursson tók til máls á fundinum og hefur sennilega ekki skafið utan af hlutunum. Ekki má hins vegar rugla þessum manni saman við samnefndan borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins því þessi sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki hafa tekið til máls sem fulltrúi neins flokks „heldur sem faðir dætra minna“. Morgunblaðið varð þá auðvitað mjög ákaft og spurði strax hvort hann líti á sig sem femínista. Því svaraði Gísli þessi með snjöllum hætti: „Ég hef ekki verið að setja þann merkimiða á mig en trúi á jafnan rétt einstaklinganna.“

Nýbúinn að greiða atkvæði með samþykkt opinberrar sveitarstjórnar um að allir einstaklingar í óþekktum ferðamannahópi skuli rannsakaðir sem barnaníðingar, nýbúinn að hrífast með bylgjunni sem vill leyfa Jóni að banna Pétri að strippa fyrir Pál, mætir þessi Gísli Marteinn Baldursson og trúir á jafnan rétt einstaklinganna.