Miðvikudagur 21. febrúar 2007

52. tbl. 11. árg.

F yrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, segir margt á heimasíðu sinni sem samflokksmenn hans hljóta að harma að birtist opinberlega. Um síðustu helgi gerði hann sér til að mynda lítið fyrir og hótaði heilli atvinnugrein, nánar tiltekið bönkunum. Ekki er alveg ljóst hvað hann ætlar að gera þeim komist hann til valda, en greinina endar hann á orðunum „guð forði bönkunum frá því að gera annaðhvort mig eða Jóhönnu Sigurðardóttur að arftaka Árna Matt.“ Hvað yrði sagt ef forystumenn alvöru stjórnmálaflokka töluðu með þessum hætti? Og hvernig væri nú ef fjölmiðlar spyrðu núverandi formann flokksins að því hvort til greina komi að gera Össur að ráðherra, jafnvel fjármálaráðherra, verði Samfylkingin í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili?

FF yrir rúmri viku ræddi Viðskiptablaðið við Ólaf Ragnar Grímsson og spurði hann þá meðal annars að því hvort hann mundi „koma aftur inn í pólitíkina“ þegar hann léti af störfum forseta. Ólafur Ragnar svaraði neitandi en svarið var út í hött, meðal annars vegna þess að spurningin byggði á röngum forsendum. Ólafur Ragnar hefur aldrei farið út úr pólitíkinni þannig að hann getur ekki komið inn aftur. Ólafur Ragnar er á kafi í pólitíkinni og hefur verið frá því hann illu heilli tók við embætti forseta Íslands fyrir rúmum áratug. Hann hefur beitt forsetaembættinu fyrir vagn stjórnarandstöðunnar og reynt eftir föngum að klekkja á ríkisstjórninni, bæði með málflutningi sínum og með því að ganga þannig fram að árekstrar verði á milli hans og ríkisstjórnar.

Að undanförnu hefur Ólafur Ragnar gengið enn lengra en áður í að reyna að sölsa undir sig meiri völd en honum standa til boða samkvæmt lögum og hefðum. Hann hélt því fram í sjónvarpsviðtali um helgina að forsetinn sé ekki á neinn hátt undir ákvarðanir ríkisstjórnarinnar settur, til dæmis hvorki undir utanríkisráðherra né forsætisráðherra. Framvegis mun forsetinn því væntanlega reka sjálfstæða stefnu jafnt í innanríkis- sem utanríkismálum og hafa þannig að engu ákvæði stjórnarskrárinnar.

Svo fjarstæðukennd er raunar þessi síðasta tilraun til útþenslu forsetaembættisins að Ólafur Ragnar fær ekki stuðning frá neinum af formönnum stjórnmálaflokkanna, hvorki í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þegar Morgunblaðið bar sjónarmið Ólafs Ragnars undir formennina er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sú eina sem reynir að gera gott úr orðum hans. Hún gerir það þó ekki með því að lýsa sig sammála honum, heldur segir orðin slitin úr samhengi, sem er fjarstæða, og að hann hafi verið að grínast, sem væri þá til marks um afar sérstæðan húmor.

Steingrímur J. Sigfússon er þeirrar skoðunar að forsetinn sé valda- og ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og telur augljóst að forsetaembættið hafi sérstök tengsl við tvö ráðuneyti, forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið. Greinilegt er með öðrum orðum að Steingrímur telur ekki að Ólafur Ragnar geti fylgt annarri utanríkisstefnu en ríkisstjórn Íslands. Guðjón Arnar Kristjánsson er sömu skoðunar og kveðst ekki hafa heyrt áður þá skilgreiningu á forsetaembættinu sem Ólafur Ragnar kynnti um helgina.

Jón Sigurðsson sagði, líkt og Guðjón Arnar, að „ýmsar skilgreiningar og stjórnlagaskýringar núverandi forseta Íslands í sjónvarpsviðtali um helgina komu mér mjög á óvart og ég hef ekki heyrt þær eða séð fyrr.“ Geir H. Haarde benti á að hér væri þingræði og að forsetinn réði því ekki hverjir væru ráðherrar og fráleitt væri að líta svo á að ráðuneytin væru einhvers konar deildir í forsetaembættinu eins og Ólafur Ragnar lét liggja að í fyrrgreindu viðtali.

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson settist í embætti forseta Íslands var embættið laust við pólitísk átök og deilur. Þegar hann bauð sig fram til forseta óttuðust margir að aldrei yrði friður um störf hans í því embætti frekar en öðrum. Þeir hafa reynst sannspáir.