Miðvikudagur 28. febrúar 2007

59. tbl. 11. árg.
Ég hef verið talsmaður þess að hreinsa kalda stríðið út en það þarf að gera það þannig að það sé jafnræði í því. Menn þurfa að meta þetta tímabil á hlutlægan og hlutlausan hátt en sarga ekki bara á því öðru megin.
– Steingrímur J. Sigfússon í DV 1. febrúar 2000

Árið 2000 lét Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra kanna það hvort Íslendingar gætu fengið aðgang að skjölum austur-þýsku leyniþjónustunnar STASI. Ýmsir Íslendingar höfðu verið við nám í Austur-Þýskalandi og raunar öðrum kommúnistaríkjum og sendiráð margra kommúnistaríkja höfðu fáránlega mikil umsvif hér á landi á starfstíma STASI . Það var því forvitnilegt að skoða hvort einhverjir Íslendingar tengdust hinni illræmdu leyniþjónustu, hvort sem væri með því að hafa orðið fyrir barðinu á henni eða lagt henni lið.

Þrátt fyrir að flestir stúdentanna gerðu sér grein fyrir ástandinu þar eystra, mannréttindabrotum, örbirgð og öðrum fylgifiskum alræðisins, voru margir þeirra furðu fámálir um það er heim var komið. Enn undarlegra var þó að sumir þeirra héldu áfram að gagnast þeim stjórnmálaflokkum sem börðust fyrir þeim hugmyndum sem skipulagið austan Járntjalds byggði á. Nærtækt dæmi um slíkan mann er Hjörleifur Guttormsson núverandi hugmyndafræðingur vinstrigrænna og frambjóðandi flokksins í Reykjavík í alþingiskosningum í vor.

Málaleitan Sólveigar var borin undir Steingrím J. Sigfússon formann vinstrigrænna á sínum tíma. Hann sagðist vissulega talsmaður þess að lofta út úr skjalageymslum kalda stríðsins. En hann taldi ekki síður mikilvægt að kanna hverjir hefðu haft tengingu hinum megin og átti þá væntanlega við bandamenn Íslendinga í Atlantshafsbandalaginu. Það væri ekki síðra verkefni en að kanna tengingar við harðstjórana í Sovétblokkinni. Steingrímur taldi með öðrum orðum fráleitt af vera að „sarga“ á þeim sem hugsanlega hefðu unnið fyrir STASI á meðan ekkert væri unnið í hinum sem hefðu kannski unnið með lýðræðisþjóðunum.

Þetta viðhorf Steingríms rifjast upp núna þegar landsfundur vinstrigrænna hefur í ályktun fagnað „brottför Bandaríkjahers frá Íslandi og því að leynd skuli hafa verið aflétt af skjölum sem tengjast veru hersins á landinu.“ Blessaðir mennirnir fagna því að gamlir samningar tveggja lýðræðisríkja um varnarmál séu gerðir opinberir en þegar átti að kanna hvort einhverjir Íslendingar hefðu tengst STASI var það óttalegt „sarg“.

Vinstrigrænir virðast hafa tekið það óbreytt upp frá forverum sínum, Kommúnistaflokknum og Alþýðubandalaginu, að samstarf Íslendinga með vestrænum lýðræðisþjóðum um varnir gegn Sovétríkjunum hafi verið sprottið af illum hvötum.