Þ að hefur verið merkilegt að fylgjast með baráttu fjölmiðla í þágu Margrétar Sverrisdóttur undanfarna daga. Mest hefur taugaspennan greinilega verið á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins þar sem hver leiðarinn hefur rekið annan um málefni Margrétar og Frjálslynda flokksins. Daginn sem varaformannskjör Frjálslynda flokksins fór fram hamraði Morgunblaðið á því, að undir forystu þeirra Guðjóns A. Kristjánssonar og Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, væri útilokað að nokkur flokkur semdi við Frjálslynda um ríkisstjórnarþátttöku. Morgunblaðið, sem yfirleitt er kurteist í málflutningi sínum, segir að Guðjón Arnar hafi veifað „ómerkilegri dulu framan í fólk“ þegar hann hafi í setningarræðu landsþings látið í ljósi þá von að flokkur hans kæmist í ríkisstjórn að loknum kosningum. Það væri nefnilega ekki hægt:
Það er bæði gagnlegt og nauðsynlegt fyrir fulltrúa á landsfundi Frjálslynda flokksins að gera sér grein fyrir þessu. Flokkur þeirra á enga möguleika á að eiga aðild að ríkisstjórn vegna þess, að enginn flokkur, hvorki Samfylking né Vinstri grænir, að ekki sé talað um aðra, vilja eiga líf ríkisstjórnar undir flokki, sem aðhyllist þá stefnu í málefnum innflytjenda, sem sumir talsmenn Frjálslynda flokksins hafa boðað. Þar að auki lízt fulltrúum annarra flokka ekki á blikuna, þegar kemur að þingflokki Frjálslyndra flokksins, eins og hann nú er skipaður. |
Hvað á Morgunblaðið við, og hvað hefur það fyrir sér í þessu? Hvaða stefna er það nákvæmlega sem „sumir talsmenn Frjálslynda flokksins hafa boðað“, og er þess eðlis að aðrir flokkar geta ekki samið við þennan flokk um eitt né neitt? Ef að þessi kenning Morgunblaðsins er rétt, hvaða flokkar geta þá starfað saman? Það vantar nú ekki að „sumir talsmenn“ Samfylkingarinnar hafa lengi talað fyrir því að Ísland afsali sér fullveldi sínu og renni inn í erlent ríkjabandalag. Er þá Samfylkingin ekki algerlega ósamstarfshæf í augum þeirra flokka, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, sem standa vilja vörð um fullveldi Íslands? Þingflokksformaður vinstri grænna, gældi við það á dögunum að viðskiptabankarnir yrðu flæmdir úr landi. Ætli Morgunblaðið telji að vinstrigrænir hljóti að verða að pólitískum útlögum svo lengi sem sá maður er í forystu flokksins? Hefur Morgunblaðið aldrei heyrt þess getið að flokkar starfi saman, þó sumir hafi eitthvað það í stefnuskrá sinni sem hinir muni aldrei geta fellt sig við? Eða var blaðið einfaldlega að tala gegn betri vitund, í þeirri von að það gæti hrætt einhverja landsþingsfulltrúa til að kjósa þann frambjóðanda sem ritstjórn Morgunblaðsins er hugstæður?
Og, meðal annarra orða: Er einhver íslensku stjórnmálaflokkanna hlynntur því að afnumdar verði allar tálmanir fyrir flutningi útlendinga hingað til lands? Það eru hundruð þúsunda og milljónir manna sem sækja það fast að flytja til Vesturlanda og leita þar betri kjara en í heimalandinu. Er einhver stjórnmálaflokkur starfandi hér á landi, sem væri fús til að opna landið fyrir öllum sem hingað vilja koma og setjast að? Ef svo er ekki, hvaða eðlismunur er þá á þeim helgispjöllum sem Frjálslyndi flokkurinn er sagður hafa unnið, og svo stefnu allra hinna hófsömu flokka sem Morgunblaðið telur hafa einkarétt á því að setjast í ríkisstjórn?
Þó að Margrét Sverrisdóttir hafi tapað varaformannskjöri um helgina var Morgunblaðið ekki af baki dottið. Strax í leiðara á mánudaginn taldi það Frjálslynda flokkinn hafa farið herfilega að ráði sínu, og sá auk þess í hendi sér að stefna flokksins myndi héðan af verða „stöðugt ógeðfelldari“, þar sem hingað til hefði Margrét Sverrisdóttir verið „bremsa á þá þróun“. Hún var líka aðalmaður flokksins og vandséð hvernig flokkurinn getur án hennar verið:
Úr því sem komið er verður að telja líklegt að Margrét Sverrisdóttir hyggi á framboð á eigin vegum og stuðningsmanna sinna. Slíkt framboð myndi augljóslega draga umtalsvert fylgi frá Frjálslynda flokknum og laska hann mjög í kosningunum. En jafnframt er ekki ósennilegt að Margrét mundi sækja fylgi í ýmsar áttir. Hún hefur komið fram af festu og einurð í átökunum innan Frjálslynda flokksins og sýnt augljósa leiðtogahæfileika. Hún á næsta leik. |
Er það ekki svo, að mest allt kjörtímabilið, þegar Margrét Sverrisdóttir, þessi með kjörþokkann, var einn sýnilegasti talsmaður Frjálslynda flokksins, hafi vart mælst fylgi við flokkinn í skoðanakönnunum? Það var ekki fyrr en aðrir félagsmenn tóku að færa áður forboðin málefni nýbúa í tal á fremur fávíslegan hátt sem fylgi flokksins rauk upp í skoðanakönnunum. Það eitt hefði þó ekki dugað til því enginn veitti þessu þvaðri athygli fyrr en vinstri sinnaðir handhafar umburðarlyndisins fóru að æpa og góla gegn þessu tali. Það gerðu þeir ekki síst til að vekja á sér athygli í prófkjörum Samfylkingarinnar í haust en veittu um leið Frjálslynda flokknum langþráða og lífsnauðsynlega kynningu. Síðan hefur tíundi hver maður sagst ætla að kjósa Frjálslynda flokkinn. Og í þriðjudagsleiðara sínum virtist meira að segja Morgunblaðið hafa áttað sig á því að „þótt galvösk framkoma hinnar vestfirzku baráttukonu hafi vakið mikla athygli að undanförnu“ þyrfti meira til að koma, jafnvel einhver skoðun á helstu málum. En eins og Morgunblaðið segir: „Nú reynir á pólitískt bolmagn og þrek þessarar ungu konu sem hefur bersýnilega ákveðið að leiða nýja stjórnmálahreyfingu fram á sjónarsviðið.“ Ekki þarf að efa að Morgunblaðinu verður að þeirri ósk sinni. Margrét er líka ung og efnileg og hefur tímann fyrir sér. Það er ekki fyrr en á næsta ári sem þessi unga kona kemst á sextugsaldur.
Og til gamans: Í mánudagsleiðara sínum á Morgunblaðið hugleiðingu sem hvergi hefði getað birst nema þar:
Viðbrögðin við niðurstöðu varaformannskosningarinnar sl. laugardag benda til þess að konum í öllum flokkum þyki að sér vegið vegna þess hvers konar vinnubrögðum hefur verið beitt til þess að bola Margréti úr Frjálslynda flokknum. Þess vegna kunna áhrif þessara úrslita að verða víðtækari en talið hefur verið hingað til. |