H ver eru stóru tíðindin í nýrri skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC? Þeir sem horfðu á fréttir Stöðvar 2 eftir að skýrslan kom út á föstudag hafa ekki hugmynd um það og raunar hafa fæstir fjölmiðlar staðið sig vel í að skýra frá niðurstöðunum. Morgunblaðið hefur gert það einna best, sérstaklega vegna ágætrar fréttar Kristjáns Jónssonar um málið í laugardagsblaðinu, en í þeirri frétt sýnir hann óvenjulegt sjálfstæði og leitar fanga út fyrir fréttatilkynningu IPCC. Í leiðara Elínar Albertsdóttur í Blaðinu á laugardag gætti hins vegar þess misskilnings að vegna hlýnunar jarðar ætti ekki að reisa álver á Íslandi. Staðreyndin er sú að þeir sem hafa áhyggjur af áhrifum mannsins á loftslagið ættu að vilja sem flest álver hingað til lands til að nýta orku sem ekki fylgir bruni jarðefnaeldsneytis á borð við olíu og kol.
Stöð 2 gerði eins og stundum áður, sló einhverju fram í kynningu sem átti sér enga stoð í fréttinni. Í kynningu fréttarinnar sagði: „Kolsvört skýrsla um loftslagsmál…“ en sérfræðingurinn sem rætt var við í fréttinni vildi ekki kalla skýrsluna kolsvarta. Þetta er undarleg fréttamennska og því miður of algeng á Stöð 2 sem skýrir líklega hvers vegna mun færri treysta fréttum Stöðvar 2 en helsta keppinautarins.
![]() |
Loftslagsskýrslan sem enginn les en allir tala um. Niðurstöður skýrslunnar eru frekar jákvæðar fyrir Íslendinga en flestar fréttir og viðbrögð stjórnmálamanna gefa allt annað til kynna. |
En hvað stendur þá upp úr í skýrslunni? Það má segja að það sé þrennt:
- Hlýnun yfirborðs jarðar hefur verið nokkuð stöðug en ekki vaxandi eins og oft er haldið fram.
- Spáð hækkun yfirborðs sjávar hefur lækkað um helming frá síðustu skýrslu fyrir sex árum.
- Ekki er talin hætta á að Golfstraumurinn sé að hverfa, þrátt fyrir hræðsluáróður um annað.
Lítum nánar á fyrsta atriðið. Á mynd SPM-3 í skýrslunni, eða öllu heldur í útdrættinum úr skýrslunni sem væntanleg er í vor, má sjá að hlýnunin hefur verið nokkuð jöfn í langan tíma. Patrick Michaels loftslagsfræðingur bendir á þetta í nýrri grein sinni og segir hlýnunina hafa verið um 0,18°C á áratug frá árinu 1975. Loftslagslíkönin sem keyrð eru í tölvum sýna einnig jafna hlýnun að sögn Michaels og þess vegna sé einfalt að framreikna hlýnunina og áætla að hún verði um 1,8°C á þessari öld. Í nýju skýrslunni eru nefndar margar tölur um mögulega hækkun hitastig, allt frá 1,1°C upp í 6,4°C, þannig að óvissan er mikil. Fram kemur að bestu gildin séu 1,8°C fyrir lægra mat og 4,0°C fyrir hærra mat. Í síðustu skýrslu, sem kom út fyrir sex árum, voru gefin upp mörkin 1,4-5,8°C. Allar þessar vangaveltur um mögulega hlýnun segja aðallega það að óvissan er mikil og vikmörkin hafa færst út, bæði upp og niður. Þegar litið er á það sem kallað er besta mat eru mörkin hins vegar þrengri og efri mörkin langt undir efri mörkunum í fyrri skýrslu, 4°C nú en 5,8°C þá. Taki menn mark á skýrslu IPCC draga þeir þess vegna væntanlega þá ályktun að minni hætta sé en áður á mikilli hlýnun.
Spá um hækkun yfirborðs sjávar á þessari öld hefur lækkað um helming frá síðustu skýrslu fyrir sex árum. Nú er spáð rúmlega 40 cm hækkun sem er ekki langt frá því sem hækkunin hefur verið síðustu 150 árin, eins og nýlega var bent á. Þetta eru óneitanlega líka jákvæð tíðindi og verða væntanlega til að slá á áhyggjur þeirra sem töldu að allt væri að fara í kaf.
Fyrir níu árum notaði Ólafur Ragnar Grímsson áramótaræðu forseta Íslands til að hrella landsmenn með heimsendaspádómi, meðal annars um kafsiglingu landsins. Hann talaði um „umturnun hafstrauma“ og sagði að áhrif loftslagsbreytinga muni koma hvað harðast niður á Íslendingum vegna legu landsins og lykilhlutverks Golfstraumsins. Svo kom ekki gæfulegur spádómur: „Jökulhella mun þá leggjast yfir landið allt, fiskistofnarnir sem haldið hafa lífi í þjóðinni um aldir hverfa úr hafinu umhverfis, hluti núverandi byggða sökkva við hækkun sjávarborðs.“
Heimsendaspáin um hækkun sjávarborðs hefur reynst fjarstæðukennd og jafnvel miðað við fyrri spár átti hún engan rétt á sér. Það hefur líka alltaf legið fyrir að spáin um að Golfstraumurinn væri að hverfa átti ekki heldur rétt á sér, en nú hefur IPCC tekið undir það með afgerandi hætti og telur „mjög ólíklegt að meiri háttar og skyndileg breyting verði á Golfstraumnum á 21. öldinni“ eins og það er orðað í skýrslunni.
Þær breytingar sem hafa orðið frá þriðju skýrslu IPCC frá 2001 yfir í nýju skýrsluna virðast almennt bera með sér jákvæð tíðindi. Stjórnmálamenn hafa yfirleitt gengið út frá því að mikill hluti hlýnunarinnar væri vegna athafna mannsins. Það ætti þess vegna ekki að breyta neinu um stefnumörkun stjórnvalda í heiminum þó að fastar sé kveðið að orði um það nú en í fyrri skýrslu að maðurinn hafi áhrif á hlýnun jarðar. Það ætti engu að breyta þó að nú sé talið mjög líklegt en áður hafi verið talið líklegt að maðurinn hefði áhrif. Þó ganga fréttir út á það að nú þurfi aldeilis að bregðast við og taugaveiklaðir stjórnmálamenn svara spurningum á þann veg að þeir virðast telja að einhver ný og váleg tíðindi sé að finna í skýrslunni.
Ástæðan fyrir þessum viðbrögðum flestra fréttamanna og stjórnmálamanna er líklega sú að þeir hafa ekki lesið nýju skýrsluna og þeir lásu ekki heldur eldri skýrsluna. Að ekki sé talað um líkurnar á að þeir hafi lesið nokkuð annað um málið, til dæmis rannsóknir vísindamanna, en sem kunnugt er þá er skýrslan sem nú liggur fyrir aðeins stefnumarkandi samantekt úr rannsóknum sem á að birta með vorinu. Ef að líkum lætur og ef reynslan kennir nokkuð verða skrif vísindamannanna mun hófstilltari og með fleiri fyrirvörum en samantektin sem nú hefur verið birt.