Laugardagur 3. febrúar 2007

34. tbl. 11. árg.

T il er hópur manna sem nefnir sig samheitinu Framtíðarlandið. Markmiðið með starfi hópsins mun ekki síst vera að koma aðstandendum hans á þing, án þess að þeir þurfi að ómaka sig á því að fara í prófkjör hjá Samfylkingu eða Vinstrigrænum. Ekki mun hópurinn hafa sent frá sér formlega stefnuskrá, en hins vegar hefur gjarnan verið talað um að bók Andra Snæs Magnasonar Draumalandið sjálfshjálparbók fyrir hrædda þjóð sé nokkurs konar pólitískt manifesto hópsins.

Í gær voru veitt verðlaun sem bókaútgefendur standa fyrir og nefna íslensku bókmenntaverðlaunin. Þau hlaut Andri Snær Magnason fyrir bók sína Draumalandið sjálfshjálparbók fyrir hrædda þjóð og er þetta ekki dónalegur stimpill á manifestoið, nú þegar þrír mánuðir eru til kosninga. Úthlutuninni ræður lítil dómnefnd. Þar situr sá virti fræðimaður Sigríður Þorgeirsdóttir, sú sem um árið lét þess getið að „lögmál kapítalismans [væri] stuldur“. Hún situr einnig í stjórn Framtíðarlandsins. Ásamt Andra Snæ Magnasyni.

Nú getur auðvitað hverjum þótt það sem hann kýs um bók Andra Snæs, lesna sem ólesna, og þessi bókmenntaverðlaun. En ef þremur mánuðum fyrir kosningar sæti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í dómnefnd íslensku bókmenntaverðlaunanna og myndi þar ákveða að verðlauna nýútkomið pólitískt ritgerðasafn Geirs H. Haardes, þá er hætt við að óháð hugsanlegum kostum og göllum bókarinnar myndi mörgum þykja bæði verðlaunin og þau tvö heldur hafa sett niður. Nema auðvitað að viðurkennt hefði verið fyrirfram að verðlaunin væru pólitísk.

E inn af þeim sem hefur það umfram marga að hafa lesið umrædda bók Andra Snæs, er Bjarni Harðarson bóksali og blaðamaður, sem sjálfur hefur boðist til að lífga upp á þingsali með nærveru sinni á næsta kjörtímabili. Hann skrifaði heldur skemmtilega grein um bókina á dögunum og birti í hausthefti tímaritsins Þjóðmála. Stök hefti þessa tímarits, ómissandi fyrir frjálslynda áhugamenn um þjóðmál og menningu, fást í Bóksölu Andríkis.

H vað ætli margir tugir milljóna manna hafi látið lífið í síðari heimsstyrjöldinni, hvort sem er beinum stríðsátökum eða þá skipulögðum ofsóknum eins og til dæmis helför gyðinga? Eða í fyrri heimsstyrjöldinni, hversu margar milljónir manna létu þar líf sitt í skotgröfunum? Og örkumlin, hversu margar milljónir voru skildar eftir örkumlamenn? Eða eyðilegging dauðra hluta, hversu ofboðslegt varð ekki tjónið af þessu öllu, með sundursprengdum borgum frá Coventry langleiðina austur að Volgu. Þegar á allt er litið urðu þarna hörmungar stærri og meiri en svo að hægt sé að gera sér grein fyrir af nokkrum skilningi.

Þó virðist sem sumum þyki þetta allt bæði vel mælanlegt og stutt í að fólk hafi séð það svartara. Ólafur Ragnar Grímsson sagði á Bessastöðum í gær, að vegna loftslagsbreytinga vofðu meiri hörmungar yfir fólki en af samanlögðum heimsstyrjöldunum. Tilefnið var ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna, þar sem fréttamenn lögðu einna mesta áherslu á þá spá að á næstu áratugum sé hugsanlegt að sjávarborð hækki um allt að rúmum hálfum metra.

Engum fréttamanni sem sagði frá skýrslunni tókst þó að taka fram, að í síðustu skýrslu sömu aðila var því spáð að sjávarborðið myndi hækka um allt að 88 sentímetra. Og Ólafur Ragnar hikar ekki við að gera meira en að líkja þessu við tugmilljónir og aftur tugmilljónir fallnar, milljónir örkumlaðar og stórfellda eyðileggingu í fleiri en einni heimsálfu.

En Ólafur Ragnar sagði fleira í fjölmiðlum í gær. Hann segist telja það „einstæðan heiður fyrir Ísland að [sér] skuli hafa verið boðið“ að taka sæti í „þróunarráði Indlands“.

En hvernig er þetta heiður „fyrir Ísland“? Var ekki Ólafi Ragnari boðið persónulega en ekki sem forseta Íslands?