Mánudagur 29. janúar 2007

29. tbl. 11. árg.

Hvað er með fjölmiðlamenn og Margréti Sverrisdóttur? Af hverju er hún alla daga í fréttum? Verður hún deginum lengur eða skemur framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins? Rekur þingflokkurinn hana? Eða miðstjórnin? Ætlar hún í varaformannsframboð? Ætlar hún í formannsframboð? Hættir hún í flokknum ef hún tapar? Á pabbi hennar nafn flokksins? Er hún ósátt við framkvæmd kosninga á landsfundinum? Ætlar hún að kæra? Er hún að fara á fund með stuðningsmönnum sínum? Hvenær verður fundurinn? Verður hún efst hjá Frjálslyndum í öðru Reykjavíkurkjördæminu? Hvoru? Styður Guðjón A. hana ekki örugglega þá? Hættir hún í flokknum? Hvaða flokkur býður henni öruggt þingsæti?

Margrét Sverrisdóttir hefur greinilega lengi haft metnað í stjórnmálum. Henni hefur þó hingað til hvergi tekist að ná kjöri, hvorki á þing né í borgarstjórn og nú ekki sem varaformaður Frjálslynda flokksins. Það er ekkert að því, en hvers vegna er hún alltaf í fréttum?

Hún er eins og Paris Hilton. Alltaf í fréttum og enginn veit af hverju.

Morgunblaðið birti forsíðufrétt á sunnudagsblaði sínu um að „framsæknar konur“ væru kallaðar frekjur. Þetta er fyrirsögn mikillar úttektar sem blaðið ákvað skyndilega að gera um hið brýna mál, „stöðu kvenna í íþróttum“. Á forsíðu Morgunblaðsins eru áskrifendur blaðsins sérstaklega upplýstir um það hversu fáar konur gegni formennsku í „sérsamböndum innan Íþrótta- og ólympíusambandsins“.

Þessi skyndilega úttekt Morgunblaðsins, með forsíðufrétt í sunnudagsblaði, er alveg ótengd þeirri staðreynd að þingfréttaritari Morgunblaðsins, Halla Gunnarsdóttir, er nú í framboði til formanns Knattspyrnusambands Íslands. Sem er eitt sérsambanda innan Íþrótta- og ólympíusambandsins.