Helgarsprokið 28. janúar 2007

28. tbl. 11. árg.

Á það hefur verið bent að kæmu menn aftur til Jarðarinnar utan úr geimnum í dag eftir 300 ára fjarvist tækju menn fyrst og fremst eftir einni breytingu þegar menn nálguðust jarðarkringluna. Norður-Ameríka, sem fyrir 300 árum var rólegasti staðurinn á Jörðinni, er orðin full af borgum og bæjum, iðandi af lífi og eftirsóttasti bústaðurinn í hugum íbúa annarra heimsálfa. Breytingin er undraverð.

Þegar ferðalangarnir væru búnir að ná áttum á jörðu niðri myndi það fljótt renna upp fyrir þeim að Bandaríki Norður-Ameríku, með öllum sínum kostum og brestum, gegna lykilhlutverki í flestum stærstu málum heimsbyggðarinnar. Ferðalangarnir væru jafnframt eiginlega alveg skyni skroppnir ef þeir spyrðu ekki þeirrar spurningar hvort það væri tilviljun að mesta framfaraskeið mannkyns með lýðræði, mannréttindum og velmegun, hefði orðið að veruleika um leið og Bandaríki Norður-Ameríku urðu til. Farmfarirnar eru svo miklar frá stofnun Bandaríkjanna að nú um stundir er á lífi um fjórðungur þeirra sem tegundin homo sapiens hefur alið af sér á þeim 50 þúsund árum sem liðin eru síðan hún dreifði sér um Jörðina. Af tvöþúsund og fimm hundruð kynslóðum manna eru þær þrjár til fjórar kynslóðir sem á lífi eru núna um fjórðungur allra manna.

Á síðasta ári kom út bókin Mayflower, nefnd eftir skipinu sem flutti Pílagrímana svonefndu með tíu vikna harmkvælum til Ameríku árið 1620. Pílagrímarnir voru hópur púrítana sem lagði í slíka óvissu yfir Atlantshafið til að geta skipað málum eftir eigin trúarlegu sannfæringu. Pílagrímarnir náðu fótfestu í nýja heiminum með ógurlegu harðfylgi um 50 kílómetrum sunnan við þar sem nú er Boston og kallast Plymouth. Allar aðstæður fyrstu árin voru Pílagrímunum mjög óhagstæðar. Hungur, vetrarkuldar, vanþekking á gæðum landsins og óútreiknanlegir frumbyggjar huggu stór skörð í hópinn. Fyrstu árin voru mörkuð skelfilegri vosbúð. En haustið 1623 varð breyting á. Nathaniel Philbrick, höfundur bókarinnar, lýsir henni svo:

Haustið 1623 lauk viðvarandi og niðurdrepandi matarskorti í Plymouth. Undangengin tvö sumur höfðu Pílagrímarnir ræktað allt í sameiningu, sem var sú aðferð sem notuð hafði verið í Jamestown og öðrum enskum landnemabyggðum. Hörmulega lítil uppskera síðasta haust hafði hins vegar fært mönnum heim sanninn um að grípa þyrfti til róttækra breytinga til að auka uppskeruna.

Í apríl þetta ár ákvað Bradford að hvert heimili skyldi marka sér akur til ræktunar og hirða afraksturinn. Viðhorfsbreytingin sem fylgdi í kjölfarið var sláandi. Menn urðu mun viljugri til vinnu en áður. Fyrri árin höfðu karlmenn sinnt akuryrkjunni á meðan konu gættu heimilis og barna. „Konurnar héldu nú hiklaust út á akurinn“, ritaði Bradford, „og tóku börnin með sér og þau hjálpuðu til“. Pílagrímarnir höfðu nú kynnst gangverki kapítalismans. Þótt afkoma nýlendunnar væri en óvissu háð á næstu árum þurftu íbúar hennar aldrei að þola hungur framar.

Það er umhugsunarefni að hrikalegar aðstæður Pílagrímanna í ókunnugri heimsálfu hafi ekki virkjað samtakamátt þeirra betur en þarna er lýst. Það varð þeim mikil gæfa þegar leiðtogi þeirra tók ákvörðun um að hver maður ræktaði eigin skika og nyti árangurs af erfiði sínu. Örbirgðin, kuldinn, hungrið og hætturnar í ókunnu landi dugðu ekki til að allir legðust á eitt um að bæta ástandið. Það var um líf eða dauða að tefla. Að auki hefði hópurinn átt að njóta þess að hafa að mestu leyti sameiginlega trúarlega sannfæringu. Allt kom fyrir ekki.