Laugardagur 27. janúar 2007

27. tbl. 11. árg.

I ngibjörg Sólrún Gísladóttir á mikið hrós skilið. Henni hefur tekist það ómögulega. Hún hefur með markvissri og einbeittri baráttu sinni dregið svo mjög úr trúverðugleika Samfylkingarinnar að fylgi flokksins er komið niður fyrir fylgi Vinstri grænna. Í könnun Frjálsrar verslunar sem gerð var fyrir nokkrum dögum var fylgi Samfylkingarinnar komið niður í rúm 18%, um tveimur prósentum undir fylgi Vinstri grænna og innan við helmingur af fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Sumir eiga erfitt með að trúa því að fylgi flokks sem stofnaður var til að vera um 40% flokkur og naut á köflum þokkalegs stuðnings undir fyrri forystu skuli vera orðið jafn rýrt og raun ber vitni. Menn velta fyrir sér ástæðunum og hér voru nokkrar nefndar fyrir um viku. En vissulega kemur fleira til. Samfylkingin hóf kosningabaráttuna fyrr en aðrir flokkar, meðal annars með mikilli fundaherferð formannsins og þingmanna flokksins um allt land og hefur fjöldi funda verið haldinn frá því snemma í þessum mánuði. Fundir sem þessir eru almennt talað jákvæðir fyrir fylgi flokka og flestir stjórnmálamenn eflast við að fara um landið og koma sjónarmiðum sínum á framfæri beint og milliliðalaust.

Fundir Samfylkingarinnar hafa hins vegar heppnast það illa að þeir hafa beinlínis haft neikvæð áhrif á fylgi flokksins. Fréttir sem berast manna á milli af fundunum eru á þá leið að formaðurinn vinni þar enga sigra, svo vægt sé til orða tekið. Fjölmiðlar hafa hins vegar minna sagt frá óförum Samfylkingarmanna út um landið. Jafnvel fjölmiðill sem lætur sig hafa það að birta „fréttaskýringu“ um gömul tíðindi á forsíðu sinni kveikir ekki að því að það kunni að sæta tíðindum að stjórnmálaflokkur skuli hrapa í fylgi á sama tíma og formaður hans hendist landshorna á milli til að funda með kjósendum.