Föstudagur 26. janúar 2007

26. tbl. 11. árg.

R óttækir femínistar eru víst illa haldnir af spenningi þessa dagana. Það er ekki lítið lagt á þá sem ætlað er að halda ró og einbeitingu á tímum sem eru svo spennandi að í sömu vikunni býður Halla Gunnarsdóttir sig fram sem formann Knattspyrnusambands Íslands og Hillary Clinton hefur opinberlega baráttu fyrir því að verða forseti Bandaríkjanna. Halla hafði það að vísu umfram Hillary að hafa sérstakt kosningamál en því miður var því nokkuð spillt þegar stærsta máli aldarinnar lauk á dögunum með því að ákveðið var dagpeningar knattspyrnukvenna yrðu sami fimmþúsundkallinn og strákarnir fá. En jafnvel þó svo óheppilega myndi vilja til að öll kosningaloforð hennar verði uppfyllt fyrir kosningar, þá getur hún þó notað þá röksemd sem femínistum þykir snjöllust alls sem snjallt er; hún er kona og kjör hennar yrði lyftistöng fyrir aðrar konur.

Dagblaðsútgáfa Veru skrifar í gær sérstaka Staksteina um framboð Clinton og hvaða áhrif kjör hennar myndi hafa. Og vitaskuld er þar aðeins velt fyrir sér áhrifum þess á það málefni sem blaðinu þykir mestu skipta í heiminum: kvennabaráttuna. Ekki orð um að þessi vinstri sinnaði stjórnmálamaður hafi það umfram marga aðra stjórnmálamenn að hafa náð engum málefnalegum árangri á nokkru sviði, en sé fyrst og fremst þekktur fyrir hjónaband sitt. Eina pólitíska forystuhlutverkið sem viðkomandi hafi tekið að sér um dagana, á vegum stjórnar eiginmannsins, hafi farið út um þúfur og frambjóðandinn geti ekki stært sig af neinu nema að vera þekktur og með digra sjóði. Nei, slík sjónarmið skipta engu hjá Veru ef sigur Clinton gæti orðið „gífurlegur innblástur“ fyrir konur.

Staksteinarnir ganga raunar ekki út á neitt annað en þetta; að „ungar konur“ fylgist nú spenntar með kosningabaráttu bæði í Bandaríkjunum og Frakklandi, því þar geti konur komist á forsetastól. Og það finnst Veru mjög spennandi. Ekki af því að þessar konur hafi einhverja tiltekna stefnu – á það er ekki minnst í Staksteinunum – heldur af því að þær eru konur. Sem mun vera sama ástæða og sumir vilja hafa í forgrunni þegar valinn er formaður Knattspyrnusambands Íslands. Sem væri raunar allt í lagi. Hverjum er ekki sama hver er formaður Knattspyrnusambands Íslands? Það starf er líklega jafn mikilvægt og embætti sjávarútvegsráðherra Sviss.

En jafnvel þó þessar konur komist ekki til valda, þá er flest í heiminum á réttri leið. Á blaðsíðu 4 í gær slær sama blað upp ánægjulegri frétt: „Fyrrverandi karlremba styrkir Unifem á Íslandi“. Við hlið þeirrar fréttar er önnur, einnig brýn. Undir glæsilegri litmynd af forseta Íslands stendur hughreystandi fyrirsögn: „Fundaði með fyrirmennum“.

E in spurning fyrir fjölmenningarmenn. Nú eru þúsundir og aftur þúsundir útlendinga fluttar hingað til lands. Þar á meðal tíuþúsund Pólverjar eða svo. Þetta fólk lifir hér lífi sínu, starfar væntanlega einhvers staðar, greiðir skatta, horfir á sjónvarp, greiðir afnotagjöld. Hvað segja fjölmenningarmenn um það að tíuþúsund Pólverjar þurfi að fjármagna einstaklega hlutdrægar íþróttalýsingar þar sem fréttamenn svonefndir reyna ekki að leyna þeirri von sinni að Íslendingar sigri Pólverja sem öruggast í sundbolta?

F lokkur sem ekki er til og enginn hyggst kjósa, hefur nú klofnað í tvennt. Það er nýtt met. Yfirleitt hafa félög ekki klofnað fyrr en skömmu eftir að þetta fólk gengur í þau.