Fimmtudagur 25. janúar 2007

25. tbl. 11. árg.

Þ au tíðkast nú hin breiðu spjótin í átökunum innan Frjálslynda flokksins. Þarf svo sem engan að undra að flokkur sem stofnaður var til að Sverrir Hermannsson gæti fengið útrás fyrir reiði sína skuli vera vettvangur orðbragðs sem annars staðar þætti óviðeigandi, svo ekki sé meira sagt. Formaður flokksins, varaformaður, ritari, frambjóðandi til ritara og fleiri ekki síður mætir menn láta nú í sér heyra og má vart á milli sjá hvert þeirra fer verst út úr þeirri umræðu.

Guðjón Arnar Kristjánsson formaður flokksins sá í gær sérstaka ástæðu til að senda út yfirlýsingu til að ítreka fyrri yfirlýsingu um stuðning sinn við Magnús Þór Hafsteinsson varaformann, rétt eins og einhverjum hefði dottið í hug að stuðningurinn hefði dvínað. Yfirlýsingin var send út vegna greinaskrifa frambjóðanda til ritara flokksins, en þessi frambjóðandi hafði til að mynda eftirfarandi að segja um þingmenn eigin flokks, og mætti ætla að hún hafi verið undir pólitískri handleiðslu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttir: „Harðar umræður fóru fram á miðstjórnarfundum [Frjálslynda flokksins] og orð sem hafa verið látin falla á þeim fundum ætla ég ekki að hafa eftir, en stundum hef ég efast um dómgreind og heilindi sumra þingmanna flokksins eftir þessa fundi.“

Það hefur líka vakið athygli að Margrét Sverrisdóttir frambjóðandi til varaformanns, eftir að hafa einnig íhugað framboð til formanns, vill ekki gefa upp hvort hún starfi áfram með flokknum tapi hún fyrir sameinuðu framboði formanns og varaformanns. Formaðurinn er ósáttur við þennan skort á skýru svari hjá Margréti og telur „landsfundarfólk“ eiga rétt á að vita hvaða kostum það standi frammi fyrir.

Þetta þarf út af fyrir sig ekki að vera ósanngjörn krafa, en af einhverjum ástæðum er formaðurinn ekki jafn tilbúinn og hann telur að Margrét eigi að vera til að gefa skýr svör. Samkvæmt kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær er hann ekki til í að svara því skýrt að hann muni geta starfað með Margréti fari hún með sigur af hólmi.

Stundum hefur verið sagt að Frjálslyndi flokkurinn sé aðeins eins máls flokkur og eins og komið er inn á hér í upphafi á það við rök að styðjast. Annað framboð virðist nú komið á fremsta hlunn með að bjóða fram og mun það stefna í að verða tveggja mála flokkur, þó að forsprakkar þess láti sem svo sé ekki líkt og títt er um slík framboð. Nýja framboð mun því  skáka Frjálslynda flokknum í málefnabreidd, en einnig að því leyti að framboðið prýðir fyrrverandi forsetaframbjóðandi. Hér er þó ekki átt við Ólaf Ragnar Grímsson þó að hann hafi vafalítið komið sterklega til greina. Því miður er hann upptekinn af störfum sínum fyrir Þróunarráð Indlands, en hann hefur sem kunnugt er tekið sæti í því góða ráði.

Þróunarráði Indlands er ætlað að móta tillögur um hvernig Indverjar geta styrkt efnahagslíf sitt og velferð þjóðarinnar án þess að umhverfið bíði varanlegt tjón af eða gæðum náttúrunnar verði stefnt í hættu. Ólafur Ragnar var valinn vegna sérþekkingar sinnar af efnahagsmálum hér á landi, en sem fjármálaráðherra fyrir nokkrum árum náði hann eftirtektarverðum árangri við að hækka skatta og skerða lífskjör almennings.

Fagnaðarefni er að Ólafur Ragnar skuli hafa getað fundið lausa stund frá önnum dagsins til að ráðleggja Indverjum, ekki síst í ljósi þess að Vladimir Putin og Jacques Chirac gátu ekki tekið að sér setu í indverska þróunarráðinu þrátt fyrir að eftir hefði verið leitað. Putin er öllum stundum með hugann við störf sín fyrir Þróunarráð Hollands, og Chirac er í hálfu starfi sem fulltrúi í Þróunarráði Mongólíu, en sem kunnugt er fylgir það starfsskyldum forseta ríkja að sitja í að minnsta kosti einu þróunarráði erlends ríkis, og helst fleirum.