Miðvikudagur 24. janúar 2007

24. tbl. 11. árg.
Fyrir tíu árum lét Andríki sig dreyma um að einn daginn yrði hið opinbera bæði frjálslynt og sparsamt.
Baráttan stendur enn.

F lest í þessum heimi breytist og margt er það í fortíðinni sem kæmi mönnum í dag spánskt fyrir sjónir ef í það færi. Ef horft er nógu langt til baka má þannig finna einn og sama daginn þar sem Tony Blair er baráttuglaður stjórnarandstöðuþingmaður, fréttavefurinn mbl.is er ekki til, Geir H. Haarde er óbreyttur þingmaður sem lofar góðu, Fréttablaðið er ekki einu sinni orðið að hæpinni hugmynd, íslenska ríkið rekur Búnaðarbanka Íslands, Ögmundur Jónasson er þingmaður óháðra, Samfylkingin er ekki til, Arnaldur Indriðason hefur aldrei gefið út bók, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er ekki enn búin að sækja um hjá Ríkisútvarpinu, Framsóknarflokkurinn bíður rólegur eftir því að Birkir Jón Jónsson öðlist kosningarétt með tíð og tíma, enginn veit enn að einhvern tíma í framtíðinni verður efnilegur ungur maður, Illugi Gunnarsson, kjörinn formaður Heimdallar, þjóðvegur eitt liggur fyrir en ekki undir Hvalfjörð.

Jú og þennan dag, rétt eins og daginn áður og þar áður, kom vefritið Vefþjóðviljinn út eins og ekkert hefði í skorist og fór hófsömum orðum um menn og málefni.

Í dag eru liðin tíu ár síðan stjórnmálafélagið Andríki hóf að gefa út vefritið Vefþjóðviljann, sem hefur síðan án undantekninga komið út hvern dag ársins, óháð veðri, lögbundnum frídögum og viðtökum lesenda. Og eru lesendur blaðsins þó sá hópur sem það hugsar einna hlýjast til og einkum þá þeir fjölmörgu sem í áranna rás hafa haft samband við blaðið, hvort sem er til þess að þakka fyrir útgáfuna eða greina frá því í ómisskiljanlegum orðum hvernig aðstandendur hennar yrðu best meðhöndlaðir. Hvorir um sig hafa haldið útgefandanum sannfærðum um nauðsyn starfseminnar. Öllum þessum misþakklátu lesendum vill Andríki senda hlýja kveðju sína á áratugsafmælinu og þá ekki síður þeim lesendum sem hafa tekið þátt í að minnka misskiptinguna í landinu með því að styrkja félagið fjárhagslega, hvort sem er reglulega eða uppúr þurru. Fyrirfram þakkar félagið svo þeim sem síðar kunna að vilja bætast í hinn ágæta hóp velgjörðamanna þess, en það má gera um hlekk vinstra megin á síðunni. Af skiljanlegum ástæðum eru bæði útgjöld og hlekkir vinstra megin.

Á síðustu misserum hefur svo bæst við nýr hópur sem eru viðskiptavinir Bóksölu Andríkis. Þar hefur mikill fjöldi manna átt viðskipti sem vonandi hafa orðið til þess að afsanna þá kenningu að í viðskiptum geti enginn hagnast nema annar tapi. Í bóksölunni bjóðast áhugaverðar bækur auk ánægjunnar sem hver röskur maður hefur af tilhugsuninni um að hafa átt þátt í að efla veg frjálslyndrar bókaútgáfu á Íslandi. Bóksöluhlekkurinn er líka vinstra megin en það er af óskiljanlegum ástæðum.

Vefþjóðviljinn hefur á þeim tíu árum sem hann hefur lónað úti fyrir þjóðlífinu haft heldur fá orð um ritstjórnarstefnu sína eða aðra annmarka á sjálfum sér. Meginskoðanir blaðsins munu þó vart hafa farið langt fram hjá lesendum og í tilefni dagsins vill blaðið láta það eftir sér að upplýsa um að framvegis hyggst það tala fyrir nákvæmlega sömu sjónarmiðum og áður. Fyrir frelsi einstaklingsins til orða og athafna; með réttu og gegn röngu. Vefþjóðviljinn mun halda sínu striki og láta hvorki skipast við kvartanir né kröfur þeirra sem af og til telja sig einhverra hluta vegna eiga heimtingu á því að blaðið taki aðra afstöðu en það hefur hingað til tekið til manna og málefna. Blaðið mun áfram vera óháð einstaklingum, flokkum, fyrirtækjum og félagasamtökum og ætíð taka afstöðu til mála eftir því sem hyggjuvit þess sjálfs hrekkur til.

Flesta daga ársins fjallar Vefþjóðviljinn um stjórnmál. Það gerir hann ekki í dag heldur fyrst og fremst um sjálfan sig. Fyrstu tíu ár ævi sinnar lét hann vera að ávarpa lesendur sína. Það gerir hann ekki í dag. Hér hafið þér þrjúþúsundsexhundruðfimmtugastaogþriðja tölublað Vefþjóðviljans. Vær saa god, Flatöbogen.