Þriðjudagur 23. janúar 2007

23. tbl. 11. árg.

M orgunblaðið má eiga það að það er sjálfu sér samkvæmt. Það flytur pólitískan rétttrúnað dag eftir dag. Mest ber auðvitað á þessu í hefðbundnu ritstjórnarefni, en fréttamatið litast mjög af hinu sama. Forsíða síðasta sunnudagsblaðs er ágætt dæmi.

Stærsta frétt forsíðunnar er vitaskuld af því máli sem hefur lengi legið þungt á ritstjórn Morgunblaðsins, því skelfilega máli að fram að þessu hafi leikmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu fengið hærri dagpeninga meðan þeir spiluðu með landsliðinu heldur en starfssystur þeirra í kvennalandsliðinu. En á forsíðu sunnudagsblaðsins er því loks slegið upp, við almennan létti um allan hinn siðaða heim, að nú hafi verið endir bundinn á óréttlætið. „Konur jafnar körlum“ segir í fyrirsögn Morgunblaðsins þar sem vísað er í það sem blaðinu sjálfu fannst mikilvægast í ýtarlegu viðtali sínu við fráfarandi formann Knattspyrnusambandsins og stjórnarformann West Ham united, Eggert Magnússon: „Leikmenn beggja liða fá héðan í frá greiddar 5.000 kr. í dagpeninga á dag í tengslum við landsleiki“. Þingfréttaritari blaðsins mun meira að segja vera kominn í framboð til formanns Knattspyrnusambandsins til að taka á þessu brýnasta hagsmunamáli íslenskra knattspyrnuáhugamanna. Aldrei veltir Morgunblaðið hins vegar fyrir sé spurningum á borð við þær hvort réttmætt sé að skattgreiðendur leggi félagsskap sem þessum til stórfé í stúkubyggingar. Blaðið telur sig sjá gríðarlegt óréttlæti innan samtaka en gerir engar athugasemdir við þá nauðung sem skattgreiðendur er beittir til að styrkja samtökin.

Önnur forsíðufrétt var ekki síður dæmigerð fyrir það sem áskrifendur Morgunblaðsins hafa fengið inn um lúgur sínar undanfarin ár. „Sagðir njósna fyrir CIA“ sagði þar í fyrirsögn og hefur væntanlega vakið skelfingu á ritstjórninni sem telur að fjögur hættulegustu öfl aldarinnar séu bandarísk stjórnvöld, ísraelski herinn, Hvalur hf. og verkaskipting án ríkisforsjár á heimilum landsmanna. Og fréttin hófst á þeim látlausu orðum sem blaðið telur alveg sjálfsögð:

Þegar venjulegur Dani millifærir fé inn á erlendan bankareikning – til dæmis til að gera upp skuld við kunningja í Svíþjóð, greiða fyrir leigu á orlofshúsi á Spáni eða styrkja múslimasamtök í Pakistan – á hann á hættu að upplýsingar um hann berist bandarískum yfirvöldum, til að mynda leyniþjónustunni CIA.

Morgunblaðið hefur ekki lengur hugmyndaflug til að ímynda sér að þetta geti í einhverju tilviki verið ósambærilegar ráðstafanir, til dæmis frá sjónarhóli hryðjuverkavarna. Morgunblaðið sér bara engan mun á því að leigja sér orlofshús á Spáni eða styrkja múslimasamtök í Pakistan. En látum það vera, og vissulega mega múslimar eða aðrir velunnarar þeirra styðja sín samtök. En fréttin sjálf var tekin beint upp úr Politiken hinu danska og sagði þar að nær allar rafrænar greiðslur milli landa færu fram um ákveðið net, SWIFT, sem flestallar bankastofnanir notuðu, og væri óhjákvæmilegt að þær upplýsingar bærust bandarísku stjórnvöldum. Fylgdi sögunni að persónuverndarstofnanir „allra landa Evrópusambandsins [væru] á einu máli“ um að SWIFT bryti reglur og ætti „á hættu að vera refsað fyrir þetta háttalag.“

Daginn eftir kemur svo í ljós að mestallt er þetta vitleysa og þessi taugaveiklun jafn óþörf og aðrar. Í gær hefur Morgunblaðið það eftir formanni landsnefndar SWIFT á Íslandi að reglan sé sú, að bandarísk stjórnvöld geti fengið upplýsingar um einstakar færslur ef upplýsingar liggja fyrir sem benda til þess að þær tengist hryðjuverkum. „Það eru mjög takmarkaðar upplýsingar sem yfirvöld í Bandaríkjunum geta nálgast. Og það eru engar upplýsingar látnar af hendi nema undir eftirliti lögfræðinga og endurskoðenda SWIFT“, sagði formaður landsnefndarinnar og bætti því við fullyrðing blaðsins um persónuverndarstofnanir Evrópu væri röng. Þessi frétt, og er alger óþarfi að velta fyrir sér hvort blaðið fór eftir á og leitaði þessara viðbótarupplýsinga eða sat uppi með leiðréttingar forstöðumannsins, birtist vitaskuld ekki á forsíðu heldur á blaðsíðu níu. Á forsíðu voru merkilegri fréttir, eins og til dæmis „Snákar herja á Ástrala“.

Önnur spurning um Morgunblaðið sem forvitnilegra er að velta fyrir sér er hins vegar: Hvort ætli það verði fyrir eða eftir gjaldþrotið sem forsvarsmenn blaðsins byrja að velta fyrir sér hvers vegna borgaralega þenkjandi áskrifendur blaðsins séu í stórum hópum hættir að lesa það sér til ánægju – og yngri kynslóð borgaralegs fólks láti sér ekki detta í hug að kaupa það?