Mánudagur 22. janúar 2007

22. tbl. 11. árg.
Þess vegna er ég dálítið undrandi á þessari skammsýni. Ég beini því til hæstvirts fjármálaráðherra og fjárlaganefndar að málið verði skoðað upp á nýtt því ég hef ekki fundið neina fjárveitingu til þessara samtaka í fjárlagafrumvarpinu og heldur ekki í breytingartillögum meiri hlutans. Ég vonast til þess að þeir sem ráða fjármálum og pólitík í þessu landi, sem er auðvitað ríkisstjórnin, skynji alvarleikann sem felst í fíkniefnavanda fólks sem er komið í harða neyslu og afbrot. Ég hvet því til þess að áður en menn koma hingað aftur til að afgreiða þetta frumnvarp endanlega við 3. umræðu verði tekið af fullri einurð á því að fjármagna eða styrkja þau samtök sem hafa sýnt sig geta leyst vanda fólks sem er komið í mikinn og alvarlegan vanda. Ég held að við getum ekki farið miklu betur með fjármuni okkar en svo.
– Guðjón A. Kristjánsson brýnir þingmenn til dáða við umræðu um fjárlög 2003.

Í síðustu viku urðu þau óvæntu tíðindi að íslenska stjórnarandstaðan varð sár, svekkt og reið. Þetta er vitaskuld sjaldgæft og vakti því athygli, en skýringin var sú, að henni tókst ekki að efna til utandagskrárumræðna á Alþingi um hið umtalaða meðferðarheimili, Byrgið í Grímsnesi. Ástæðan fyrir að því að stjórnarandstöðunni tókst ekki að koma þessu skemmtilega umræðuefni á dagskrá löggjafarþingsins var sú, að einhverjir menn hafa allan mánuðinn haldið þinginu uppteknu frá morgni til kvölds við að ræða lítið frumvarp menntamálaráðherra; frumvarp sem í fæstum orðum gengur út á það að gefa starfsmönnum Ríkisútvarpsins Ríkisútvarpið.

Það er auðvitað hið versta mál að óprúttnir aðilar hafi þannig með löngum ræðuhöldum hindrað stjórnarandstöðuna í því að segja nokkur spakleg orð um málefni Byrgisins. Eina huggunin er sú, að á undanförnum árum hefur stjórnarandstaðan oft náð að tjá sig um þetta ágæta meðferðarheimili, einkum þegar fjárlög voru til meðferðar og þrýst var á um hærri framlög til Byrgisins. „Ég lýsti þeirri skoðun minni að standa þyrfti vel við bakið á þessari starfsemi, hún væri þjóðfélaginu til mikilla hagsbóta og ég hefði alla vegana í því sem ég hef verið að kynna mér í þessa veru ekki séð að menn stæðu betur að málum annars staðar varðandi fólk sem lent hefði í harðri fíkniefnaneyslu og afbrotum“, sagði einn núverandi stjórnarandstöðuleiðtoginn í einni fjárlagaumræðunni, enda hafði hann kynnt sér málin og gat ekki séð að neins staðar stæðu menn betur að málum en í Byrginu.

Og sá árangur náðist vissulega að formaður fjárlaganefndar lýsti því yfir að komið yrði til móts við Byrgismenn. Því fagnaði stjórnarandstaðan, enda lengi barist drengilega fyrir auknum framlögum til Byrgisins. Jón Bjarnason þingmaður vinstrigrænna sagðist þó fremur hafa kosið bein framlög strax en óljós loforð um framtíðina: „Ég fagna þó þeirri yfirlýsingu sem háttvirtur formaður fjárlaganefndar gaf varðandi bæði húsnæðisvanda og rekstrarvanda Byrgisins. Þetta var rætt í fjárlaganefnd eins og háttvirtur formaður fjárlaganefndar kom inn á en var ekki afgreitt. Málin eru enn þá til afgreiðslu hjá ríkisstjórn. Ég viðurkenni að við hefðum kannski heldur viljað að afgreiðslan hefði farið fram nú þegar innan fjárlaganefndar en ég treysti því að hæstvirt ríkisstjórn muni fylgja málum eftir og leysa húsnæðis- og rekstrarvanda Byrgisins því þar er afar mikilvægt starf unnið, og ég veit að það nýtur víðtæks stuðnings.“

Það er vissulega mjög leitt að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi ekki fengið næg tækifæri síðustu daga til að ræða málefni Byrgisins frekar, því um hana eru þeir hinir fróðustu eftir langa baráttu. „Hina ágætu starfsemi sem fram fer á vegum Byrgisins að Efri-Brú í Grímsnesi“, eins og talsmaður Samfylkingarinnar í ríkisfjármálum orðaði það réttilega. Einhvern tíma kemur þó að því að málþófi ríkisstjórnarinnar linnir og stjórnarandstaðan kemst að til að ræða mikilvæg mál – og þá mega menn treysta því að þá, eins og jafnan, mun stjórnarandstaðan ræða þau af ábyrgð og sanngirni, en ekki til þess að skora pólitísk stig.

Þ að er ósanngjarnt að segja að Hjálmar Árnason hafi farið illa út úr prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi um helgina. Hann fékk þar 1421 atkvæði, samtals í fyrstu þrjú sætin, og þegar við þau er bætt þeim tvö þúsund sem áður höfðu í undirskriftasöfnun skorað á hann að bjóða sig fram í fyrsta sæti, þá er hann kominn með hátt á fjórða þúsund atkvæða. Þegar svo að lokum er bætt við þessa tölu öllum þeim sem enn trúa því að nokkuð sé að marka undirskriftasafnanir, þá verða þetta allt í allt svona þrjúþúsund og fimmhundruð manns.