Helgarsprokið 21. janúar 2007

21. tbl. 11. árg.

F yrir tæpum tveimur árum ákvað Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þá varaformaður og fyrrverandi talsmaður Samfylkingarinnar, að bjóða sig fram til formanns flokksins gegn Össuri Skarphéðinssyni. Ingibjörg taldi nauðsynlegt að skipta um formann til að efla flokkinn svo hann kæmist til áhrifa í íslenskum stjórnmálum. Leikar fóru svo að flokksmenn tóku undir með henni og hún sigraði með 2/3 hlutum atkvæða. Líklega hefðu einhverjir greitt atkvæði á annan hátt ef þeir hefðu gert sér grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta mundi hafa fyrir flokkinn. Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að samkvæmt nýrri könnun blaðsins sé fylgi Samfylkingarinnar komið niður í 21%, en þegar Ingibjörg ákvað að bola Össuri úr formannsstólnum var fylgið um 35%.

„Ekki er líklegt að þeim, sem vilja öllu ráða þegar þeir eru í minnihluta, sé treystandi til þess að fara með þau völd sem fylgja því að vera í meirihluta.“

Þetta er vitaskuld nokkur árangur hjá núverandi formanni Samfylkingarinnar og raunar mjög þakkarvert. Þetta er hins vegar ekki sá árangur sem flokksmenn vonuðust eftir, en þeir hafa þurft að þola síendurtekin vonbrigði eftir að Ingibjörg tók við af Össuri. Þar kemur ýmislegt til og ekki bara ummæli eins og þau sem formaðurinn lét falla um daginn að þjóðin treysti ekki þingflokki Samfylkingarinnar. Slík ummæli, jafn sérstök og þau eru, hafa líklega ekki mikil áhrif á fylgi flokksins, enda er formaðurinn með þeim aðeins að viðurkenna orðinn hlut. Það vissu jú allir að fólk treystir ekki Samfylkingunni og fólk treystir henni hvorki meira né minna við að formaður flokksins viðurkenni vantraustið.

En hvað veldur þá gæftarleysi Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum? Þar kemur vissulega margt til og verður ekki allt rakið hér. Þó er sjálfgefið að nefna eitt atriði og það er tal flokksins, sérstaklega þó formannsins, um Evrópusambandið, evruna og krónuna. Fylgi Samfylkingarinnar, og raunar einnig Framsóknarflokksins með fyrrverandi formann og Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra í broddi fylkingar, líður fyrir það að hinn almenni maður hefur áttað sig á að atkvæði greidd þessum flokkum auka líkurnar á að Ísland lendi undir Brussel og að krónunni verði kastað fyrir evru.

Fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins beinlínis spáði því að Ísland yrði gengið í Embættismannasambandið innan fárra ára og utanríkisráðherra telur sig ekki nota lengur krónur vegna þess að hún greiði yfirleitt með plastkortum. Málflutningur af þessu tagi hefur kostað Framsóknarflokkinn um það bil tíu prósentustig og fylgi hans mælist nú rúm 7% í könnun Fréttablaðsins. Hann má samkvæmt könnuninni eiga von á fjórum þingmönnum, eða þriðjungi þess sem hann hefur nú, og ætti að velta því fyrir sér hvort hann vill kveðja síðustu kjósendur sína með áframhaldandi evrutali eða hvort hann vill snúa af þeirri braut og lyfta fylginu upp í tveggja stafa tölu. Hann getur haldið áfram á sömu braut og leyft Frjálslyndum og Vinstri grænum að reita af sér afganginn af fylginu, en hann getur líka enn tekið upp málflutning sem er í senn meira í anda meginstefnu og sögu flokksins og gerir honum kleift að fá nægt fylgi til að geta áfram talist alvöru stjórnmálaflokkur.

Samfylkingin getur líka velt því fyrir sér hvort hún hyggst halda áfram á þeirri braut að hrista af sér fylgi eða hvort hún ætlar að freista þess að lyfta sér upp á ný. Þó er vitaskuld ekki létt verk að lyfta fylgi flokks sem flaggar formanni sem er sífellt að missa út úr sér einhverja vitleysu. Ingibjörg ætlaði til að mynd að slá sér upp á því um daginn að krónan hafði veikst og hljóp til og lýsti gjaldmiðilinn ónýtan. Þó mátti hún vita að slík ummæli væru til þess fallin, ef einhver tæki mark á henni, að veikja gjaldmiðilinn, enda stutt í kosningar og hún þrátt fyrir allt enn formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Það kom þó í ljós að hún þykir ekki sérlega marktæk og krónan styrktist fljótt á ný. Ingibjörg ætti líka að átta sig á því að jafnvel þó að hún kæmist í stjórn eftir kosningarnar í vor þá mundi hún þurfa að lifa með þessum gjaldmiðli allt næsta kjörtímabil, enda engum sem dettur í hug að hægt væri að kasta krónunni í skyndi þó að til valda kæmust flokkar sem hefðu einbeittan vilja til þess.

Ef Samfylkingin fær að ráða geta landsmenn kvatt krónurnar sínar. Ekki aðeins vegna þess að Samfylkingin vill taka upp evru, heldur miklu frekar vegna þess að Samfylkingin mun taka meira til sín með sköttum.

Annað sem á vafalítið stóran þátt í fylgishruni Samfylkingarinnar er afstaða flokksins til skattalækkana ríkisstjórnarinnar. Skattar hafa verið lækkaðir á síðustu árum og kjörtímabilum og fólk finnur fyrir því á launaseðlinum og í buddunni. En frá því að Samfylkingin varð til hefur hún verið á móti þessum skattalækkunum og Ingibjörg hefur meira að segja þá sögu í skattamálum að hafa fært útsvarið í Reykjavík úr lágmarki í hámark á fáeinum árum. Það er þess vegna alveg ljóst hvað við tekur ef Samfylkingin fær að ráða skattheimtu í landinu, skattar verða hækkaðir. Samfylkingin getur vissulega leikið þann leik fyrir komandi kosningar eins og þær síðustu að bregðast við loforðum Sjálfstæðisflokksins um skattalækkanir með því að lofa þeim líka, en nú trúir bara enginn slíkum loforðum. Ef Samfylkingin hefði meint það fyrir síðustu kosningar að hún vildi lækka skatta, þá hefði hún ekki reynt að þvælast fyrir öllum skattalækkunum ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili. Staðreyndin er sú að fólk er búið að átta sig á því hvers konar flokkur Samfylkingin er. Þetta er í meginatriðum gamaldags vinstri flokkur og hann er að verða kominn niður í það fylgi sem slíkir flokkar hafa haft hér á landi.

Þriðja atriðið sem ástæða er til að nefna hér eru hin svokölluðu samræðustjórnmál formannsins. Kjósendur hafa af umræðum á Alþingi ítrekað getað fylgst með samræðustjórnmálunum í verki og líklega á það sinn þátt í fylgistapi Samfylkingarinnar. Fólki geðjast vitaskuld ekki að samræðustjórnmálum sem ganga út á að halda þinginu í herkví í hverju málinu á fætur öðru og beita ítrekað þeim brögðum að reyna að þvinga meirihlutann til að láta að vilja minnihlutans. Flestir hafa þann skilning á lýðræðinu að meirihlutinn eigi að ráða og að minnihlutinn eigi ekki að fá sitt fram með frekju og yfirgangi. Samræðustjórnmál Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hafa hreinlega reynst afar ógeðfelld. Ekki er líklegt að þeim, sem vilja öllu ráða þegar þeir eru í minnihluta, sé treystandi til þess að fara með þau völd sem fylgja því að vera í meirihluta.

Átrúnaðargoð sumra Samfylkingarmanna sagði forðum daga, í lauslegri endursögn, að þegar karlinn í brúnni hætti að fiska ætti að láta hann róa. Þá tóku vinstri menn undir. En hvernig ætli það sé með kerlinguna í brúnni, ætli hún verði látin sigla sinn sjó þegar hún er hætt að draga bein úr sjó? Það er svo sem ólíklegt að Samfylkingunni takist að skipta um formann fyrir kosningar í vor, en þó væri það eina leiðin fyrir flokkinn til að komast út úr þeim ógöngum sem hann er nú í.