Þriðjudagur 30. janúar 2007

30. tbl. 11. árg.

Ádögunum tapaði vetnið fyrir hauggasinu í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Hjálmar Árnason ákvað í kjölfarið að þiggja ekki þriðja sætið á lista flokksins í kjördæminu. Hann sagðist hins vegar gjarnan vilja sjá „Suðurnesjakonu“ í sætinu. Hjálmar hafði þó ekki gefið fyrirheit um að víkja af listanum fyrir konu af Suðurnesjum ef hann lenti í fyrsta sæti en Guðni Ágústsson og Bjarni Harðarson í næstu sætum en hvorugur þeirra er Suðurnesjakona. Suðurnesjakonan er góð sem skrautmunur í þriðja sætið en hefði auðvitað aldrei fengið fyrsta sætið þótt listinn væri algerlega fullskipaður körlum austan úr sveitum. Allt var þetta tal því heldur lítillækkandi fyrir Suðurnesjakonur og ekki síður konur almennt.

Því miður er svonefnd jafnréttisumræða föst í þessu fari. Látlaus hausatalning femínista er leiðinleg fyrir þá einstaklinga sem taka þátt í stjórnmálum. Þessi hóphyggja gerir afar lítið úr einstaklingnum og því erindi sem hann á í stjórnmálin. Segjum til að mynda að kraftaverk gerist og Suðurnesjakonan – sem raunar mun búa í Reykjavík – sem sett var í þriðja sætið hjá Framsókn nái kjöri á þing. Er það ekki heldur dapurt upphaf á stjórnmálaþátttöku að hafa komist áfram út það eitt að vera kona af Suðurnesjum? Hvaða innlegg er það?

Þá er Margrét Sverrisdóttir gengin úr Frjálslynda flokknum. Þetta tilkynnti hún í gærkvöldi eftir fund með sínu fólki. Á hurðarhúni fundarstaðarins, utanverðum, biðu fulltrúar helstu fjölmiðla í rigningu og roki. Margrét hafði hins vegar vit á því að láta fjölmiðla vita að hún myndi skila flokknum úrsagnarbréfinu inn í dag. Fréttamenn ríkisfréttastofanna og Morgunblaðsins geta því haldið áfram að elta hana um bæinn í dag.

ÞÞað er óhætt að segja að talsverður áhugi sé á mælingum á jöfnuði og fátækt um þessar mundir. Fjölmiðlar hafa mestan áhuga á hryllingssögum af fátækt og auknum ójöfnuði. Líklega má því búast við fjörugum umræðum að loknum fyrirlestri Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, prófessors í stjórnmálafræði, um fátækt og ójöfnuð af sjónarhóli stjórnmálaheimspekinnar í Háskóla Íslands á morgun miðvikudaginn 31. janúar kl. 16.00 í stofu 101 í Odda. Í fyrirlestrinum gerir Hannes Hólmsteinn fyrst grein fyrir kenningu bandaríska heimspekingsins Johns Rawls um, að í réttlátu skipulagi beri að tryggja, að kjör hinna verst settu séu sem best. Hann kynnir síðan nýja alþjóðlega mælingu á atvinnufrelsi í ólíkum löndum og tengsl atvinnufrelsis, hagsældar og fátæktar. Samkvæmt þessari mælingu hefur atvinnufrelsi aukist einna mest á Íslandi í heiminum síðustu áratugi. Síðan ber Hannes Hólmsteinn saman engilsaxneska líkanið af hagkerfi og hið norræna og spyr, hvernig fátæku fólki vegnar í þessum ólíku hagkerfum, sem þó eru bæði kapítalísk. Þar kynnir hann athyglisverðar tölur frá bandarískri rannsóknastofnun, Institute for Policy Studies. Þá ræðir hann um hinar miklu breytingar á Íslandi síðustu fimmtán árin, meðal annars skattalækkanir, og spyr, hvernig einstökum hópum hafi vegnað, þar á meðal hinum tekjulægstu. Þar kynnir hann nýjar tölur, sem hann hefur aflað sér frá Efnahags- og framfarastofnuninni í París, en þær varpa ljósi á umræður síðustu missera um aukinn ójöfnuð á Íslandi. Að lokum reynir Hannes Hólmsteinn að komast að niðurstöðu um, hvaða lönd í heimi komast næst kröfu Johns Rawls um, að kjör fátæks fólks verði sem best. Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála stendur fyrir fundinum og verður Ólafur Þ. Harðarson prófessor, forseti félagsvísindadeildar fundarstjóri. Allir munu velkomnir, meðan húsrúm leyfir.