Helgarsprokið 14. janúar 2007

14. tbl. 11. árg.

A nnað slagið hefur skotið upp kollinum umræða um það hvort kasta beri krónunni og taka upp annan gjaldmiðil á Íslandi. Áður fyrr var einkum ræddur sá möguleiki að taka upp Bandaríkjadal og stundum heyrðust þær raddir að taka upp svissneskan franka. En eftir að evran kom til sögunnar hefur umræðan einkum snúist um hana. Um tvo kosti er að ræða varðandi evruna. Ganga í Evrópusambandið og gerast aðili að myntbandalaginu eða gera evruna að gjaldmiðli landsins án aðildar að myntbandalaginu og þá án nokkurs möguleika á að hafa áhrif á það.

„Þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að ríki yrðu beitt sektum ef fjárlagahallinn yrði umfram 3% mörkin, þá sluppu stórveldin í Evrópusambandinu…“

Aðild að myntbandalaginu, og þar með Evrópusambandinu, er ekki beinlínis girnilegur kostur. Allt of margir fylgikvillar eru samfara aðild líkt og Vefþjóðviljinn hefur oft bent á. Sambandið er ólýðræðislegt, ógegnsætt, pólitísk elíta sambandsins ræður ríkjum og ríkin eru ósamstíga. Við það bætist að minni ríkin eru nær áhrifalaus sem mælir enn frekar gegn sambandsaðild Íslands. Valdamestu ríkin stjórna að mestu leyti því sem þau vilja stjórna í Evrópusambandinu. Þau eru jafnvel hætt að reyna að fara hljótt með það. Þjóðverjinn Günther Verheugen, sem situr í hinni valdamiklu framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, stakk nýlega upp á því í samtali við þýsku sjónvarpsstöðina ZDF, að smærri ríkin í Evrópusambandinu fái ekki að skipa framkvæmdastjóra með eigin málaflokk heldur væri betra að þau skipuðu aðeins varaframkvæmdastjóra.

Yfirgangur valdamestu ríkjanna hefur ekki síst verið áberandi í evrusamstarfinu. Reglurnar eru settar fyrir valdaminni ríkin sem ber að lúta þeim skilyrðislaust að viðlögðum refsingum. Þegar að valdamestu ríkjunum kemur er slakað á reglunum eða þeim jafnvel breytt. Einn af mikilvægustu þáttum myntbandalagsins, sem talsmenn Evrópusambandsaðildar hér á landi hafa haldið nokkuð á lofti, er að því ber að tryggja aga í efnahagsmálum. Stöðugleikasáttmálinn kveður meðal annars á um að fjárlagahalli megi ekki vera meiri en 3% af landsframleiðslu. Þessari grundvallarreglu er ætlað að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum og að verðbólgu sé haldið í lágmarki.

Vissulega háleitt og jafnvel lofsvert markmið. Ágætt að setja eilitlar hömlur á misvitra stjórnmálamenn sem oft eru allt of skammsýnir. Koma í veg fyrir að ríkisstjórnir mæti efnahagsniðursveiflu með auknum ríkisútgjöldum. Bæði Írland og Portúgal fengu gula spjaldið þegar fjárlagahalli þeirra var umfram það sem sáttmálinn leyfir. Frábært hugsuðu margir, ákvæðin virka. En eins og við var að búast af Evrópusambandinu, þá átti þetta bara við um valdaminni ríkin. Þegar að stórveldunum kom breyttist allt. Skyndilega var fráleitt að tala um ófrávíkjanlega reglu. Þýskaland og Frakkland létu ekki bjóða sér þá fásinnu árið 2003 að láta sekta sig fyrir að fylgja ekki grundvallarmarkmiðum stöðugleikasáttmálans þrjú ár í röð. Nú mátti ekki lengur túlka stöðugleikasáttmálann of bókstaflega. Frakkland og Þýskaland kröfðust þess að fá undanþágur frá ákvæðum þessa sáttmála og þrátt fyrir gífurlega óánægju margra aðildarríkjanna fengu þau það í gegn að reglurnar voru sveigðar og beygðar. Þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að ríki yrðu beitt sektum ef fjárlagahallinn yrði umfram 3% mörkin, þá sluppu stórveldin í Evrópusambandinu, Frakkland og Þýskaland, við þær háu sektargreiðslur sem sáttmálinn kveður á um.

Það má stórlega efast um að það væri töfralausn fyrir Ísland að taka upp evruna án aðildar að Evrópusambandinu og myntbandalaginu. Og raunar er ólíklegt að unnt sé að taka evruna upp án aðildar að Evrópusambandinu. Amelia Torres talsmaður Evrópusambandsins í efnahagsmálum hefur meðal annarra bent á að evran sé órjúfanlegur hluti sambandsins og mælir sambandið ekki með því að önnur ríki taki hana einhliða upp án aðildar. Það má jafnframt efast um að slík aðild hefði breytt miklu um þau efnahagslegu vandamál sem íslenskt efnahagslíf hefur staðið frammi fyrir að undanförnu. Frekar má ætla að vandamálin hefðu verið meiri. Það er alþekkt sem oft hefur verið bent á, síðast af Gunnari Haraldssyni forstöðumanni Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, að hagsveiflur hér á landi eru yfirleitt allt aðrar en hagsveiflur í Evrópu. Oft hefur verið uppsveifla á Íslandi á sama tíma og Evrópa hefur verið í niðursveiflu og öfugt. Slíkt ástand mundi iðulega leiða til þess að Ísland byggi við lága vextir í uppsveiflu og háa vexti í kreppu.

Þá er full ástæða til að nefna að vinsældir evrunnar hafa lengi verið takmarkaðar í mörgum evrulöndum og samkvæmt nýlegum könnunum hafa þær farið minnkandi. Ein af ástæðunum fyrir þessu er að verðlag hefur þótt hækka við upptöku evrunnar, enda verðskyn fólks takmarkað í öðrum gjaldmiðlum en þess eigin. Breytir þá vitaskuld engu hvort menn greiða með seðlum eða greiðslukortum þó að Valgerður Sverrisdóttir þingmaður Framsóknarflokksins virðist ekki átta sig á því að þegar fólk notar greiðslukort til að greiða fyrir vörur hér á landi þá er það að nota krónur, rétt eins og ef það reiðir fram fé eða skrifar ávísanir.

Er ekki við hæfi að Samfylkingin berjist frekar fyrir upptöku dollarans en evrunnar?

Vilji menn endilega kasta krónunni, en það er til dæmis vart hægt að skilja Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur formann Samfylkingarinnar öðruvísi en að hún vilji það, þá er spurning hvort ekki væri meira vit í að horfa til eldri gjaldmiðils fastmótaðs ríkjasambands sem um ríkir meiri eining en evruna. Evran er ung, aðeins frá árinu 1999 og voru peningaseðlar ekki gefnir út fyrr en árið 2002. Væri ekki nær að formaður Samfylkingarinnar skoðaði möguleikann á kostum þess að taka upp dollara á Íslandi þegar krónunni væri fleygt í stað þess að einblína á að lokka landið til að ganga Brussel-skrifræðinu á hönd.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar og væntanlega forsætisráðherraefni sama flokks hefur fundið krónunni allt til foráttu að undanförnu og gott ef hún telur hana ekki uppsprettu flests þess sem miður hefur farið. Lausnina sér hún í himnasendingunni ESB og skilur ekkert í því að ríkisstjórnin skuli ekki hafa drifið landið í sambandið. Ekki virðast þó allir sammála forsætisráðherraefninu. Gífurleg jöklabréfaútgáfa frá áramótum, og stærsta útgáfa slíkra bréfa á föstudaginn var, bendir til alls annars en að menn hafi ekki trú á því að krónan geti tórað. Og flestir þeir sem rætt hefur verið við um málið að undanförnu, fyrir utan formann Samfylkingarinnar, virðast telja að krónan sé enn nothæf, umræðan sé stormur í vatnsglasi,  hún sé á villigötum og að í evrunni felist engin töfralausn fyrir Ísland.

Það er umhugsunarvert fyrir kjósendur í komandi kosningum hvað formanni Samfylkingarinnar gengur til. Var hún í raun að nota skammtímasveiflur í krónunni til að skora ódýr stig í kosningabaráttu? Þýðir það að hún telur allt til vinnandi að ná árangri í kosningum, jafnvel að tala niður gjaldmiðil landsins? Eða álítur hún öll meðul leyfileg til að lokka landið í Evrópusambandið?