H vað ætli menn – það er að segja, hvað ætli óbrjálaðir menn segðu, ef forysta Körfuknattleikssambandsins segðist hafa sett sér það markmið að íslenska körfuknattleikslandsliðið skyldi framvegis verða í hópi hinna bestu í heimi? Þess vegna væri það krafa sambandsins að aðrir menn, það er að segja skattgreiðendur, legðu sambandinu til milljarða króna á hverju ári, sem skyldi varið til að reisa körfuknattleikshallir, ráða færustu þjálfara og hafa þúsundir leikmanna á launaskrá svo þær gætu helgað sig boltanum einum.
Ætli svarið yrði ekki einfaldlega eitthvað á þá leið, að fámennt smáríki yrði að kunna sér hóf, það væri auðsæ fjarstæða að hægt væri með nokkru viti að að koma íslensku körfuknattleiksliði í fremstu röð á heimsvísu. Ekkert væri auðvitað að því að körfumenn settu markið hátt og gerðu sitt besta – en hið opinbera gæti ekki lagt skattfé í þess konar loftkastala.
Nákvæmlega sama svar á að gefa við því ævintýri að Háskóli Íslands geti orðið einn af bestu háskólum í heimi. Það er svo langsótt að því verður ekki trúað að nokkur maður hafi lagt það til í alvöru. Sennilega var þessi hugmynd eingöngu sett fram sem átylla til að særa nokkrar aukamilljónir út úr stjórnvöldum – og líklega hefur engum dottið í hug í upphafi að þær gætu orðið þrjúþúsund, eins og raunin er víst orðin, ekki síst þegar það liggur fyrir að Háskóli Íslands hefur fengið stórauknar fjárveitingar ár eftir ár eftir ár. En hefur jafnan talað reiðilega um fjársveltið sem honum sé haldið í.
Þeir sem halda að Háskóli Íslands geti orðið einn af bestu háskólum heims, þeir vita ekki hvað þeir tala um. Mesta furða raunar að þeir megi mæla, því enn munu sumir þeirra ekki hafa jafnað sig á vonbrigðunum sem urðu þegar Ísland reyndist ekki verða fíkniefnalaust á miðnætti einnar nýársnæturinnar.
En kannski vantaði þar bara aðeins hærri opinber framlög.