E inhverjir héldu víst að jólasveinarnir hefðu horfið til fjalla á þrettándanum, en einn virðist þó hafa villst eða ruglast á dagsetningum. Sá telur ef til vill að hann eigi að snúa heim þann þrettánda. Í gær var í það minnsta sagt frá því í öllum fjölmiðlum að menntamálaráðherra hefði dregið upp úr sekk sínum loforð um aukinn fjárstuðning við Háskóla Íslands upp á litla þrjá milljarða króna, sem fela meðal annars í sér þreföldun á rannsóknarframlagi ríkisins.
Morgunblaðið hefur eftir rektor Háskólans að hann ætli sér „áfram að vera arðbærasta fjárfesting samfélagsins“, en ekki er útskýrt hvernig fundið er út að hann sé það. Rannsóknir styðja tæplega þessa kenningu, enda þótt ýmsir þeir sem rannsaka eða túlka rannsóknir á arðsemi menntunar leggi sig alla fram um að gera hlut menntunarinnar sem mestan. Það er raunar í besta falli ósennilegt að einhver arðsemi verði af þessari tilfærslu á fjármunum frá skattgreiðendum til háskólakennara og nemenda við Háskólann. Líklegast er að þetta sé ósköp venjuleg sóun á fjármunum ríkisins.
Það kann að vísu að vera að einhverjir háskólakennarar njóti góðs af þessu fjárhagslega og hið sama má segja um nemendurna. Þeir fá hugsanlega betra nám sem gerir þeim ef til vill kleift að afla sér hærri ævitekna. Ef því er haldið fram að allir landsmenn, þar með talið þeir sem ekkert hafa með Háskólann að gera, hagnist sérstaklega á þessu, er það hins vegar afar hæpin fullyrðing.
Með þessu er ekki gert lítið úr háskólanámi eða þeim sem starfa innan Háskólans. En það er engin ástæða til að láta eins og ótakmarkaður fjáraustur í þá skili sér í ótakmarkaðri aukningu arðsemi fyrir alla landsmenn vegna starfa þeirra. Og það má ekki gleyma því að þeir milljarðar sem jólasveinninn í menntamálaráðuneytinu hefur ákveðið að taka af skattgreiðendum og afhenda háskólamönnum, hefði ekki legið ónýttur hjá skattgreiðendum. Þeir hefðu notað féð í það sem þeir hefðu talið arðbært og vafalaust tekist betur til en menntamálaráðherra. Þeir vita sjálfir hvort það er háskólamenntun, nauðþurftir, nýr bíll eða sparnaður sem líklegast er til að skila þeim mestri arðsemi. Skattgreiðendur þurfa engar leiðbeiningar frá stjórnmálamönnum um það hvernig þeim farnast best í lífinu.
Loks er rétt að minnast á að það er afar sérkennilegt ef það þykir sjálfsagt, að fjármunir séu teknir af einum til að niðurgreiða nám annars, sem með námi sínu getur vænst hærri tekna en sá sem niðurgreiðir námið. Hvað réttlætir að afgreiðslumaður í matvöruverslun niðurgreiði nám tannlæknanema? Eða að fiskverkamaður niðurgreiði nám viðskiptafræðinema? Að reyna að réttlæta þetta með því að námið sé svo miklu arðbærara fyrir alla landsmenn en nokkuð annað sem menn aðhafast, er hrein fjarstæða.