Föstudagur 12. janúar 2007

12. tbl. 11. árg.

Í slenska óperan sýnir aldrei hverja sýningu nema sjö til tíu sinnum, að því er fram kom í viðtali Ríkisútvarpsins við Bjarna Daníelsson óperustjóra fyrr í vikunni. Þetta er ekki vegna þess að áhorfendur vanti og síðustu sýningarnar séu fyrir hálftómum sal. Nei, svo er ekki. Í viðtalinu kom nefnilega líka fram að Óperan hefur ekki efni á að sýna oftar vegna þess að hver sýning fyrir sig stendur ekki undir sér. Óperan tapar meiru þá daga sem hún sýnir fyrir fullu húsi en dagana sem ekkert er sýnt og þetta er ástæðan fyrir því að söngvararnir æfa og æfa, en sýna svo bara rétt mátulega oft til að nánustu vinir og ættingjar geti troðist inn í salinn. Það er vit í þessu.

Íslenska óperan fylgir markvisst þeirri stefnu að tapa á hverri sýningu – og nýtur við það stuðnings ríkisins.

Í viðtalinu við óperustjórann kom fleira forvitnilegt fram, til að mynda það að svona hefur þetta ekki alltaf verið. Hér á árum áður var hver sýning rekin með hagnaði þannig að það borgaði sig að sýna sem oftast. Einhverjum þætti líklega ástæða til að svo væri enn í dag. Bjarni upplýsti að fyrir meira en tveimur áratugum, þegar óperustarfsemi var að hefjast, þá hafi 23.000 manns komið á eina sýninguna, sem hafi verið sýnd 49 sinnum. Þetta var hægt í þá tíð vegna þess að kostnaður var miðaður við það að hægt væri að sýna eins lengi og menn vildu kaupa miða, eins og óperustjórinn orðaði það. Nú er það sjónarmið ekki haft til hliðsjónar.

„Draumurinn var nú upphaflega, þegar þetta var stofnað sem sjálfseignarstofnun, að það mætti reka þetta svona á einhverjum einkaforsendum og einhverjum markaðsforsendum. En það kom auðvitað mjög fljótt í ljós að það er gjörsamlega ómögulegt,“ sagði óperustjórinn. „Og síðustu mörg mörg ár þá hefur aðaltekjulind Óperunnar verið framlag úr ríkissjóði. Það eru ekki mörg ár síðan að náðust samningar um að tvöfalda framlag ríkisins og síðan þá hefur þetta nú gengið svona bærilega að halda upp samfelldri dagskrá þarna.“ Með tvöföldun framlags ríkisins hefur þetta gengið svona bærilega, en hvernig hefði verið að hækka í staðinn miðaverðið og lækka kostnaðinn við hverja sýningu? Hvernig stendur á því að mönnum þykir það ekki vísbending um ósamræmi á milli miðaverðs og kostnaðar á sýningu ef ekki tekst að hafa upp í þennan kostnað þótt allt seljist upp? Hvernig má það vera að við þær aðstæður hlaupi menn fyrst til ríkisins í stað þess að laga til í rekstrinum? Og hvernig má það vera að ríkið samþykki að tvöfalda styrki sína þegar augljóst er að engin tilraun er gerð til að afla sem mestra tekna og halda kostnaði í lágmarki?

Þess má loks geta að verkið Flagari í Framsókn verður frumsýnt í Óperunni í febrúar. Sýningarfjöldi mun vera hæfilegur til að kjósendur flokksins geti gert sér glaðan dag – með mökum.