Helgarsprokið 24. desember 2006

358. tbl. 10. árg.

Í Morgunblaðinu á þriðjudaginn var rætt við, aðstoðaframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Tilefni viðtalsins var að samtökin hafa komist að því með hjálp ráðgjafarfyrirtækis að veikindadögum hafi fjölgað um einn og hálfan milli áranna 2004 og 2005 auk þess sem starfsmannavelta hafi víst verið nokkuð breytileg undanfarin ár og sveiflast frá því að vera 14,8% niður í 9,4% og svo vaxið aftur upp í 14,2%. Aðstoðarframkvæmdastjórinn segir þessar upplýsingar mikilvægar því veikindadagar og starfsmannavelta séu dulin kostnaður hjá fyrirtækjunum.

Hvernig má það vera að veikindadagar séu dulinn kostnaður hjá fyrirtækjum? Langflestir ef ekki allir ráðningarsamningar eru með ákvæði um veikindadaga. Rétt eins og margir aðrir samningar sem innihalda ákvæði um einhverskonar afföll, seinkanir eða yfir höfuð áhættu sem svo endurspeglast í verðinu. Ef manneskja er ráðin til starfa þá má einfaldlega gera ráð fyrir að fyrr eða seinna verði hún í það minnsta flensunni að bráð. Ef fram kæmi manneskja sýnt gæti fram á algert ónæmi fyrir öllum sjúkdómum þá gæti viðkomandi væntanlega selt veikindadagaákvæðið út úr samningnum sínum gegn hærri launum. Þangað til selja menn áfram rúmlega tvöhundruð daga á ári, afhenda stundum örlítið færri en bæta það upp með lægra verði. Kaupandinn kaupir þessa rúmlega tvöhundruð daga, fær stundum afhenta örlítið færri og færir mismuninn sem kostnað. Ef bæði kaupandi og seljandi geta byggt á reynslunni og gert áætlanir og gera með sér frjálsa samninga, er vandinn þá nokkur annar en óþægindin sem fylgja flensunni?

Í sama viðtali kvartar aðstoðarframkvæmdastjórinn undan of hárri starfsmannaveltu, en hún virðist hafa náð 14,8% árið 2002 og 14,2% árið 2005. Hann segir ákjósanlegt að starfsmannavelta fari ekki yfir 10% á ári. Af þessari 10% ákjósanlegu hámarksveltu er væntanlega drjúgur hluti sem kalla mætti náttúrulega veltu, gamalt fólk hættir að vinna, ungt fólk byrjar að vinna, heimavinnandi fara aftur á vinnumarkað og fólk á vinnumarkaði fer að vinna heima. Eftir stendur þá að ekki svo margir skipta um starf á vinnumarkaði en er það sérstaklega jákvætt? Eða er það sérstaklega neikvætt? Fyrir fyrirtæki sem byggja samkeppnisstöðu sína á besta starfsfólkinu á hverjum tíma hlýtur aukin almenn starfsmannavelta að vera góð tíðindi, það er einfaldlega gott úrval á markaðnum. Um leið eru þetta kannski ekki góð tíðindi fyrir fyrirtæki sem þess í stað þarf að ná bestu samningunum um aðföng og húsnæði en leggur minni áherslu á starfsmenn. Fyrirtæki er mjög óskyld að þessu leyti, sum þeirra eru næm fyrir starfsmannaveltu önnur ekki.

Þess vegna er svo furðulegt að þegar kemur að þessum mikilvæga en þó mis mikilvæga þætti í rekstri fyrirtækja þá eru þau nánast öll tilbúin til að láta heildarsamtök sín semja við heildarsamtök seljandans um kaupin á vörunni!

Þætti engum skrýtið ef formaður samtaka viðskiptabanka yrði sendur út í heim einu sinni á ári til að semja um vaxtakjör á endurfjörmögnun íslensku bankanna og þar ytra myndi hann hitta fyrir fulltrúa samtaka fjármálafyrirtækja sem lána íslenskum bönkum og framhaldinu færu fram viðræður undir stjórn sáttasemjara og svo væru sífellt að berast af fundinum vangaveltur um aðkomu ríkisins eða með öðrum orðum aðkomu skattgreiðenda sem af af óútskýrðum ástæðum ættu að leggja talsverðar fjárhæðir fram á næstu árum svo unnt yrði að greiða fyrir samningum íslensku bankanna við þá útlendu.

Þetta dæmi er nefnt hér vegna þess að þegar íslenskir bankar sækja sér lán – sem í fjölmiðlum heita endurfjármögnun – þá keppast þeir við um að tryggja sér, hverjum og einum sem best kjör og af mestu kappi um að tryggja sér betri kjör en keppinautarnir. Samt, þegar kemur að öðrum stórum útgjaldalið banka, launagjöldum, þá standa þeir ekki á eigin fótum, ekki frekar en flest önnur fyrirtæki hér á landi.

Fyrirtækin, sem líta á sig sem kaupendur vinnuafls senda nefnd sinna manna til að hitta vafasama nefnd viðskiptavina sinna sem líta á sig sem seljendur vinnuafls og svo kalla báðar nefndir til fundarstjóra sem ríkið skaffar og sér um að stýra fundi, ákveða kaffitíma, tryggja hressingu í hléi og skaffa húsnæði. Að lokum kemur svo fulltrúi ríkisins og semur fyrir alla hina sem engin sæti eiga í hvorugri nefndanna um að þeir sem engan fulltrúa eigi á fundinum, skattgreiðendur, skuli ausa úr sjóðum sínum til að liðka fyrir samningum eins og það er kallað.

Vefþjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegra jóla.