Laugardagur 23. desember 2006

357. tbl. 10. árg.

H áskólablaðið, tímarit stúdenta við Háskólann í Reykjavík, kom út nú í desember. Meðal efnis er viðtal við danska tölfræðinginn Björn Lomborg sem kunnur er fyrir að hrekja ýmsar heimsendaspár umhverfissinna. Sú barátta hansn hófst með því að hann ætlaði þvert á móti að reka menn eins og Julian Simon á gat. Simon og fleiri höfðu þá viðrað efasemdir um að ástand umhverfismála væri eins slæmt og af er látið í fjölmiðlum fyrir tilstilli umhverfisverndarsamtaka. Það kom Lomborg, sem verið hafði félagi í Greenpeace, í opna skjöldu að heimurinn virtist ekki á heljarþröm. Lomborg er einnig kunnur fyrir vel rökstuddar efasemdir sínar um Kyoto sáttmálann um takmörkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Lomborg er nú forstöðumaður Copenhagen Consensus stofnunarinnar sem reynir að greina vandamál heimsins og raða þeim eftir mikilvægi. Það segir sig sjálft að þau viðfangsefni sem stjórnmála- og embættismenn, ekki síst í alþjóðlegum stofnunum, taka ákvörðun um að sinna eru ekki endilega þau sem bæta líf jarðarbúa mest. Um Kyoto sáttmálann segir Lomborg til að mynda í viðtalinu:

Til dæmis má benda á að það kostar jafn mikið að framfylgja ákvæðum Kyoto-bókunarinnar í eitt ár og að tryggja öllum jarðarbúum ferskt vatn til eilífðarnóns. Mér fannst undarlegt að enginn hafði ljáð máls þessu. Enginn benti á að það fé sem var eytt til að framfylgja Kyoto-bókuninni væri ekki hægt að verja til annarra verkefna, sem mörg hver eru mun meira aðkallandi.

Í Háskólablaðinu er einnig rætt við annan fyrrverandi róttækling frá Skandinavíu, Johan Norberg að nafni. Norberg hefur einnig snúið við blaðinu og gaf fyrir nokkrum árum út bókina In Defense of Global Capitalism.

Á hverri mínútu sem ég tala eru 60 manns að vinna sig upp úr fátækt, á hverri mínútu, á hverri klukkustund, allan sólarhringinn. Á hverri mínútu hætta 13 börn að vinna og hefja skólagöngu í staðinn. Þetta eru umfangsmestu breytingar sem heimurinn hefur nokkru sinni orðið vitni að og þetta gerist hraðast í þeim löndum sem hafa tekið alþjóðavæðingunni opnum örmum, stunda alþjóðaviðskipti og fagna erlendum fjárfestingum, sérstaklega í Austur- Asíu. Þetta er í raun sagan sem ég vildi segja. Annars vegar hvað hlutirnir hafa batnað stórkostlega, t.d. hefur sár fátækt minnkað um helming á síðustu 20 árum, og hins vegar skýra hvaða gangvirki býr það að baki og hvernig alþjóðavæðingin bætir ástandið.

Bæði þessi viðtöl minna menn á að það er mikilvægt að læra af því sem vel gengur í veröldinni og ekki síður að líta með gagnrýnum augum á þau verkefni sem ýmsar alþjóðlegar ríkisstofnanir eyða gríðarlegum fjármunum í en koma að litlu gagni í samanburði við hvað önnur verk gætu skilað.