Mánudagur 25. desember 2006

359. tbl. 10. árg.

S tarfsmenn erlends fyrirtækis, Standard & Poor’s létu íslenska stjórnmálamenn heyra það í síðustu viku: Það er alger lausung í ríkisfjármálum, þið eyðið og eyðið. Og svo eru að koma kosningar, hamingjan hjálpi ykkur!

Lánshæfismat íslenska ríkisins var að þessu sögðu lækkað og því hefur fylgt lækkandi gengi hlutabréfa og krónunnar.

Nú kemur auðvitað engum á óvart þó frjálslynd vefrit setji upp sögðum-við-ekki?-svipinn, þegar fréttir berast af því að erlend fyrirtæki séu farin að gagnrýna eyðslu hins opinbera harðlega. Vefþjóðviljinn hefur gagnrýnt bæði alþingismenn og sveitarstjórnarmenn fyrir óhóflega eyðslu á síðustu misserum, og þarf ekki að endurtaka það hér. En kannski af því að nú eru jól og þá flestir vinir, þá er sjálfsagt fyrir alla þá, sem deila áhyggjum af lausung í opinberum fjármálum, að hafa í huga að hér er í raun við fleiri en stjórnmálamenn að sakast.

Vissulega eru opinber fjármál á ábyrgð hinna kjörnu fulltrúa. Þeir eiga að stýra landi og sveitarfélögum í samræmi við grundvallarsjónarmið, gera það eitt sem þeir vita réttast og standast hvers kyns þrýsting. En í raunveruleikanum er það hins vegar svo, að stjórnmálamenn verða fyrir verulegum þrýstingi og þeir sem byggja völd sín og áhrif á lýðræðislegu umboði hljóta að horfa að einhverju leyti til þess.

Þeir eru ótalmargir sem hafa áhyggjur af, reiðast eða hneykslast á opinberri eyðslu. En hvers vegna láta þeir sjaldan til sín heyra þegar verið er að taka ákvarðanir um útgjöld sem máli skipta? Það eru stofnuð samtök til að þrýsta á um borun jarðganga, þverun fjarða, byggingu húsa, framleiðslu kvikmynda, stækkun stúkna og svo framvegis og svo framvegis. Forsvarsmennirnir sjá ráðamenn ekki í friði, tala tala og tala um það sama, og á endanum finnst stjórnmálamönnum að nú sé búið að tala svo mikið um málið að ekkert sé eftir annað en að taka ákvörðun. Undir áróðurinn gegn skattgreiðendum tóna svo leiðarar Morgunblaðsins en blaðið styður aukin ríkisútgjöld skilyrðislaust nema til landbúnaðar þar sem það setur það skilyrði að landbúnaðurinn sé „lífrænn“. En hvers vegna láta frjálslyndir menn ekki meira til sín taka? Hvers vegna beita þeir sér ekki harðar gegn opinberri eyðslu? Hvers vegna láta þeir sér nægja að reiðast úti í horni? Eiga þeir ekki svolitla sök á því sjálfir þegar örmagna stjórnmálamaður mætir loksins og sprengir síðasta haftið í göngunum gegnum Kögunarhól?