Þriðjudagur 19. desember 2006

353. tbl. 10. árg.

H

Nú er komið í ljós að Bandaríkin undir stjórn Bush hafa hægt mun meira á  útblæstri gróðurhúsalofttegunda en gamla Evrópusambandið.

in viðtekna skoðun evrópskra stjórnmálamanna og fjölmiðla á umhverfismálum er eitthvað á þessa leið: Bandaríkjamenn eru mestu umhverfissóðarnir og af þeim er George W. Bush sá versti. Við Evrópumenn erum meðvitaðir þátttakendur í Kyoto en Bush er meðvitundarlaus strengjabrúða orkufyrirtækjanna.

Ef marka má umræðuna hefur útblástur svonefndra gróðurhúsalofttegunda auðvitað aukist hrikalega síðan Bush og olíuvinir hans tóku við stjórninni í Hvíta húsinu af Clinton og hinum sígræna Al Gore. Og á meðan Evrópa er að sameinuð um aðgerðir gegn hlýnun loftslags eru kúrekarnir fyrir vestan haf að auka mengun.

Þetta lepur hver upp eftir öðrum.

Í gær birti The Wall Street Journal gögn frá Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um aukningu útblásturs gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum og Evrópusambandslöndunum 15 sem tilheyrðu sambandinu fyrir stækkun til austurs.

George W. Bush var kjörinn forseti árið 2000 og fram á árið 2004 jókst útblástur gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum um 2,1%. Á sama tíma jókst útblásturinn um 4,5% í Evrópusambandsríkjunum 15. Það væri gaman að heyra hvað vinstripressan í Evrópu kallar Evrópusambandsríkin nú þegar það liggur fyrir að þau hafa aukið útblásturinn tvöfalt meira en Bush. Þetta gerðist þrátt fyrir meiri hagvöxt og tvöfalt meiri fólksfjölgun í Bandaríkjunum en Evrópu á þessum tíma. Hvað kallar vinstripressan árangur gamla Evrópusambandsins í loftslagsmálum þegar öllum stærstu orðunum hefur verið eytt á Bush?

Á árunum 1995 til 2000 þegar Al Gore var varaforseti jókst útblástur gróðurhúsalofttegunda um 10,1% í Bandaríkjunum.

Nú um stundir er útblástur gróðurhúsalofttegunda án efa helsti kvarðinn sem notaður er á árangur ríkja í umhverfismálum, með réttu eða röngu. Kyoto samkomulagið um takmörkun á útblæstri snýst um að hægja sem mest á aukningu útblásturs. Bandaríkin stóðu sig tvöfalt betur en gamla Evrópusambandið á árunum 2000 til 2004 þegar þessi mælistika er notuð. Og stjórn Bush stóð sig fjórfalt betur en stjórn Clintons og Gore gerði á seinna kjörtímabili sínu.