Miðvikudagur 20. desember 2006

354. tbl. 10. árg.

R itstjóri fréttablaðs leiðsögumanna var í viðtali hjá Ólöfu Rún Skúladóttur í Ríkisútvarpinu í gærmorgun. Þar kom fram, ekki síður hjá þáttarstjórnanda en viðmælanda, að vegið væri að leiðsögumönnum úr öllum áttum, eins og það var orðað. Hingað koma víst erlendir hópar undir forystu erlendra leiðsögumanna sem þekkja staðhætti síður en innlendir og geta ekki aðeins orðið til þess að endurskíra náttúrufyrirbrigði heldur jafnvel verið stórhættulegir ferðalöngunum.

Þessi ósköp urðu þáttarstjórnanda tilefni eftirfarandi fyrirspurna: „En er það ekki í rauninni allsérstakt að það sé ekki löngu komin löggilding á þessu starfsheiti? Eru ekki leiðsögumenn búnir að starfa í áratugi?“ Jú, ritstjóri fréttablaðs leiðsögumanna gat fallist á það. En hann taldi líka að ef til vill væri lausn á næsta leyti. Ritstjórinn upplýsti það nefnilega að „ráðuneytið“ hefði tekið vel í kröfur leiðsögumanna og að þeir fengju hugsanlega annaðhvort löggildingu eða skráningarskyldu. Vísaði ritstjórinn meðal annars til þess að í nýjum ferðamálalögum væri ákvæði um neytendavernd, og taldi greinilega að af því mætti leiða hömlur á leiðsögn af hendi annarra en þeirra sem lokið hefðu tilteknu leiðsögunámi.

Menn hafa gjarnan skýlt sér á bak við góðan ásetning skammsýns löggjafa til að rökstyðja aukin afskipti hins opinbera. Þess vegna kæmi ekkert á óvart þótt sumum leiðsögumönnum tækist að fá samgönguráðherra í lið með sér til að hefta atvinnufrelsi annarra leiðsögumanna. Þetta snýst ekki aðeins um erlenda leiðsögumenn sem þekkja staðhætti síður en sérskólagengnir íslenskir leiðsögumenn. Þetta snýst einnig um staðkunnuga heimamenn, sem ekki hafa séð ástæðu til að fara í leiðsögumannaskóla til að kynnast fjallahringnum sem þeir hafa haft fyrir augunum frá unga aldri.

En aðalmálið er það að tiltekinn hópur fólks, sem kosið hefur að ganga tiltekinn menntaveg, á enga kröfu um forréttindi til ákveðinna starfa. Vilji ferðamenn komast hjá því að lenda hjá fáfróðum eða jafnvel hættulegum leiðsögumönnum, þá er þeim í lófa lagið að velja sér leiðsögumenn með tiltekna menntun eða reynslu. Það er hins vegar ófært að banna þeim að njóta leiðsagnar annarra, eða að banna öðrum að leiðbeina ferðalöngum. Þetta er einfaldlega nokkuð sem ríkið á ekkert að vera að skipta sér af.