Mánudagur 18. desember 2006

352. tbl. 10. árg.

F ramsóknarflokkurinn varð níutíu ára um helgina og ákvað að nudda þjóðinni aðeins upp úr því. Raunar hafa landsmenn fengið að sjá framan í marga flokka verri en Framsóknarflokkinn og alveg sérstaklega ef horft er til síðustu ára því þá hefur Framsóknarflokkurinn sem ríkisstjórnarflokkur átt þátt í mörgum ágætum málum, svo sem skattalækkunum og einkavæðingu, þó lengra hefði að sjálfsögðu þurft að ganga. Þrátt fyrir þetta hafa skoðanakannanir sýnt sí minnkandi fylgi Framsóknarflokksins undanfarin misseri. Hvernig skyldi standa á því?

Meginskýringin á því er líklega sú að forysta Framsóknarflokksins hafi fyrir nokkrum árum mislesið landið. Hún hefur, eins og aðrir, horft upp á þúsundir manna flytja búferlum af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið og þar sem landsbyggðin hafði löngum verið vígi Framsóknarflokksins þá lét forystan telja sér trú um að til að lifa af yrði hún að vinna land á höfuðborgarsvæðinu. En það sem Halldór Ásgrímsson virðist ekki hafa áttað sig á, er að framsóknarmenn landsbyggðarinnar höfðu ekki hugsað sér að hætta að vera framsóknarmenn, þeir voru bara að flytja. Og þegar það fyrsta sem mætir þeim í Ártúnsbrekkunni er formaður Framsóknarflokksins veifandi evrum og grátandi yfir því að samstarfsflokkurinn sé ekki ennþá reiðubúinn til að afsala fullveldi landsins, þá fara þeir að hugsa sinn gang. Vandamál Framsóknarflokksins er ekki að flokkurinn hafi átt í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Vandamál Framsóknarflokksins er að í nokkur ár hafa framsóknarmenn ekki getað treyst því að forystumenn þeirra séu ennþá framsóknarmenn.

Framsóknarmenn vilja ekki ganga í Evrópusambandið. Þeir vilja ekki taka upp evru. Áhuginn á fæðingarorlofi feðra rænir þá ekki svefni. Þeir eru ekki þeirrar skoðunar að útlendingar sem hingað flytjist geti krafist þess að heimamenn breyti sínum siðum eða gengið að opinberri aðstoð vísri. Þeir eru engir áhugamenn um pólitískan rétttrúnað sem ráðherrar Framsóknarflokksins tala fyrir í örvæntingarfullum tilraunum til að höfða til Samfylkingarmanna. Þeir hafa aldrei heyrt öryggisráð Sameinuðu þjóðanna nefnt. Framsóknarmenn eru viss tegund af Íslendingum og undanfarin ár hefur hún horft upp á þann undarlega flokk sem forsjónin hafði sérhannað fyrir hana, hafna sér fyrir allt aðra kjósendur. Fyrir fólk sem mun aldrei nokkurn tíma kjósa Framsóknarflokkinn.

Samfylkingarmenn sóttu að Framsóknarflokknum um helgina og töldu mjög óeðlilegt að flokkurinn hefði náð þeim áhrifum í borgarstjórn Reykjavíkur að geta ráðskast með mannaráðningar hjá borginni. Síðustu tólf ár var vinstrimeirihluti í Reykjavík og undir forystu Samfylkingarinnar. Þá fékk Framsóknarflokkurinn að fara með ýmis mál að vild, ekki síst stórfyrirtækið Orkuveitu Reykjavíkur þar sem Alfreð Þorsteinsson var nokkurs konar einvaldur ásamt því að gegna starfi yfirborgarstjóra.

Og hverjum datt það fyrst í hug á kosninganótt vorið 2003 að best færi á því að leiða Framsóknarflokkinn til forystu í ríkisstjórn?