Helgarsprokið 17. desember 2006

351. tbl. 10. árg.

S igurður H. Guðjónsson formaður Húseigendafélagsins var ómyrkur í máli þegar fréttamaður Ríkisútvarpsins innti hann í gær eftir áliti hans á því að elda skötu í fjölbýlishúsum. Um skötusuðuna sagði Sigurður: „Sumir líta á þetta sem hvern annan viðbjóð sem eigi ekki að draga inn í hús og fólk eigi að stunda þessa skötudýrkun einhvers staðar langt frá heilbrigðu fólki.“

Það þarf ekki að efast mikið um álit formannsins á skötu eða þeim sem elda hana nærri „heilbrigðu fólki” og út af fyrir sig er lítið við því að segja þótt formaðurinn sé á móti skötulykt og því óheilbrigða fólki sem dýrkar skötur. Það er hins vegar áhyggjuefni hve lítið virðist þurfa til að fólk vilji breyta lögum og banna, en formaðurinn segir að ekki væri hægt að banna skötusuðu í fjölbýlishúsum að óbreyttum lögum. Hann segir að það „gengi um of á eignarráð eigandans, en almenningsviðhorfið er þó allt í þá átt að fría menn við svona ófögnuði.

„Menn gleyma því oft að öðrum mönnum fylgir alls kyns „ófögnuður“. Sumir menn fá sér einum of oft eða mikið neðan í því og koma í misjöfnu ástandi heim síðla kvölds eða nætur. Líklega hendir það slíka menn jafnvel einu sinni á ári eða svo að raska ró nágranna sinna.“

Í fréttinni er minnst á að reykingar voru bannaðar í sameignum fjölbýlishúsa og Sigurður telur að þróunin hvað skötuna varðar verði sú sama, og virðist harla ánægður með þá framtíðarsýn. En fyrst minnst var á reykingar í þessu sambandi er rétt að geta þess að þau ólög sem þá voru sett gera húsfélögum ekki aðeins kleift að banna reykingar í sameign. Nei, þau beinlínis banna reykingar í sameign án nokkurra undantekninga. Og sameignir er ekki aðeins að finna í mörg hundruð manna blokkum, nei, sameignir eru líka víða þar sem aðeins eru tvær íbúðir, og þar með jafnvel aðeins tveir íbúar.

Þessir tveir íbúar eru í sumum slíkum tilvikum báðir stórreykingamenn og hafa unun af reykingum. Það breytir því ekki að þeir mega ekki reykja í sameign sinni og skiptir þá engu þótt báðir vilji ólmir að reykingar séu leyfðar í sameigninni, enda vilji þeir geta reykt á leiðinni inn og út af heimili sínu. Þetta banna núgildandi lög; reykingamönnunum ber að drepa í áður en þeir fara út og svo þurfa þeir að kveikja í aftur þegar þeir eru komnir út. Sömuleiðis verða þeir að drepa í áður en þeir ganga inn og kveikja svo í aftur eftir að inn er komið. Þessi lög eru augljós skerðing á réttindum slíkra manna, án þess að nokkur rök sé hægt að færa fyrir þessari skerðingu.

En nú virðist sem sagt byrjað að tala fyrir annarri skerðingu. Nú vilja einhverjir að óheilbrigða fólkið sem borðar skötu einu sinni á ári eigi að gera það annars staðar en á heimilum sínum, nema það sé svo lánsamt að hafa efni á að búa í einbýli. Skötudýrkendurnir, eins og formaður Húseigendafélagsins kallar þennan óþjóðalýð, geta bara farið með „svona ófögnuð“ annað eða lagt af þennan vonda sið.

Ástæða þess að þetta viðhorf formanns Húseigendafélagsins er tekið til umræðu hér er ekki sú að viðhorfið er óvenjulega hatrammt í garð þeirra sem snæða skötu og láta sig hafa lyktina. Nei, ástæðan er miklu frekar sú að það er orðið býsna ríkt í opinberri umræðu að þegar eitthvað sem menn taka sér fyrir hendur er hvimleitt eða þreytandi, þá eigi að banna það. Eða eins og formaðurinn orðaði það: „almenningsviðhorfið er þó allt í þá átt að fría menn við svona ófögnuði.“

Menn gleyma því oft að öðrum mönnum fylgir alls kyns „ófögnuður“. Sumir menn fá sér einum of oft eða mikið neðan í því og koma í misjöfnu ástandi heim síðla kvölds eða nætur. Líklega hendir það slíka menn jafnvel einu sinni á ári eða svo að raska ró nágranna sinna. Aðrir eiga mótorhjól sem þeir ræsa í hádeginu á sunnudegi og aka um sér til ánægju. Slíkir menn vekja gjarnan þá sem komu heim seint kvöldið áður.

Enn aðrir eiga gæludýr sem fara misjafnlega mikið í taugarnar á nágrönnunum, með mjálmi, gelti, eða bara með tilveru sinni. Svo eru það þeir sem eiga ódæl börn, sem æða upp og niður stigana í sameigninni, alveg án tillits til hljóðvistar íbúanna. Eða þeir sem eiga þæg og prúð börn sem æfa sig samviskusamlega á píanó og saxafón á hverju kvöldi. Þeir eru líka til sem fara sjaldan í steypibað og eru skítugir úr hófi, eða hinir sem fara oft í steypibað, en ljúka því jafnan með því að hella yfir sig vænum skammti af ilmvatni sem ætlar alveg að fara með nágrannana í lyftunni á morgnana.

Það er svo óendanlega margt sem hægt er að fjasa yfir. Og út af fyrir sig er ekkert við slíku fjasi að segja, það er oft skiljanlegt og líklega taka allir þátt í því upp að vissu marki. Hins vegar verður fjasið að töluvert alvarlegu vandamáli þegar menn láta sér ekki nægja að fjasa, eða kvarta, eða jafnvel að samþykkja eitthvað á húsfélagsfundum. Þegar skortur á umburðarlyndi er orðinn svo alger að menn eiga sér þá ósk heitasta að lögum verði breytt til að þeir geti gengið á rétt annarra og bannað þeim að reykja, sjóða skötu, setja á sig ilmvatn, eða hvað það nú er sem mönnum dettur í hug, þá er rétt að fara að vara sig.