Laugardagur 16. desember 2006

350. tbl. 10. árg.

Þ essa dagana eru margir eins og útspýtt hundskinn að leita að jólagöfum. Af vinsemd sinni vill Andríki benda þeim á að spara má nokkur spor með því að líta inn í vinalega sölubúð, bóksölu Andríkis, þar sem finna má margar fróðlegar og skemmtilegar bækur um þjóðmál og menningu. Þar eru bækur og tímarit, tilvalin til gjafar handa hugsandi vini eða þá vininum sem óskandi væri að byrjaði nú að hugsa.

Meðal þess sem fæst í þessari verslun er tímaritið Þjóðmál, bæði í áskrift og stök hefti. Í gær kom einmitt út jólahefti tímaritsins og kennir þar margra grasa sem fyrr. Í áhugaverðri grein fjallar Björn Jón Bragason sagnfræðingur um framgöngu nokkurra stjórnmálamanna í tengslum við gjaldþrot skipafélagsins Hafskips og má ætla að mörgum komi á óvart hversu stóryrtir þeir voru. Ólafur Ragnar Grímsson og Össur Skarphéðinsson fara þar fremstir en Jón Baldvin Hannibalsson á sína spretti við hlið þeirra. Áhugaverð grein og upplýsandi.

Margt fleira er í Þjóðmálum. Ragnhildur Kolka skrifar þarfa grein um Sameinuðu þjóðirnar, óreiðu þeirra, vanmátt og spillingu, Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifar um aldarfjórðungslöng kynni sín af hinum heimskunna hagfræðingi, Milton Friedman, sem lést fyrir skömmu. Gréta Ingþórsdóttir fer yfir þær niðurstöður sem nú liggja fyrir um fjármálastjórn R-listans í Reykjavík, en í nýrri skýrslu virðist tekið undir flest í gagnrýni sjálfstæðismanna á hana. Árni Björnsson þjóðháttafræðingur skrifar persónulega grein um dvöl sína í skiptri Berlín, samskipti sín við útsendara austurþýsku leyniþjónustunnar og tilraunir þeirra til að fá Árna til starfa fyrir sig. Birtur er kafli úr æviminningum Ásgeirs Péturssonar fyrrverandi sýslumanns og þar á meðal minnisblað Sveins Björnssonar, þáverandi forseta Íslands, um valdmörk forseta Íslands og alþingis. Sést þar að Sveinn hefur haft enn minni trú á því en áður hefur verið talið, á persónulegum heimildum til handa forsetanum til afskipta af löggjafarmálum, og segir Sveinn sérstaklega að möguleikar forsetans til slíks séu enn minni en hafi áður verið um konung, og hafi þær þó verið mjög takmörkum bundnar.

Áskrift að Þjóðmálum kostar kr. 3.500 um hver fjögur hefti en hvert hefti stakt kostar í bóksölu Andríkis kr. 1.250. Heimsending innanlands að sjálfsögðu innifalin eins og um allar aðrar vörur bóksölunnar.