Föstudagur 15. desember 2006

349. tbl. 10. árg.
[F]órum við nokkrir í undirbúningshópnum í persónulega heimsókn til hans og fengum þar góðar og virðulegar viðtökur. Hann sýndi þessu máli gríðarlegan áhuga og embættismenn hans hafa fylgst náið með þessu og tekið þátt í mótun þessa frumkvæðis. Þeir sátu meðal annars undirbúningsfundina í London í febrúar/mars síðastliðnum sem við víkjum kannski að síðar. En hvað sem þessum fundum okkar Rúmeníuforseta leið, þá tók hann þá ákvörðun að athuguðu máli, að betur færi á því að hann styddi þetta frumkvæði á sínum vettvangi í stað þess að vera í innsta hring og kvaðst myndu beita sér ákveðið í málinu gagnvart þeim ríkjum sem honum standa næst.
– Ólafur Ragnar Grímsson segir frá „persónulegri“ heimsókn sinni til Nikolai Ceaucescu einræðisherra í Rúmeníu í viðtali við Helgarpóstinn 24. maí 1984.

U ndir miðnætti á mánudagskvöldið var endursýndi Ríkissjónvarpið viðtalsþátt sinn frá árinu 1984 með bandaríska hagfræðingnum Milton Friedman sem lést nýlega í Bandaríkjunum. Í þættinum svaraði Friedman spurningum Boga Ágústssonar fréttamanns og háskólamannanna Birgis Björns Sigurjónssonar, Stefáns Ólafssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar.

Meðal þess sem Ólafur Ragnar Grímsson hafði fram að færa var tilraun til að spyrða Friedman við herforingjastjórn Augusto Pinochet í Chile. Pinochet steypti Salvador Allende af stóli forseta að áeggjan þingsins árið 1973. Ólafur Ragnar þuldi upp voðaverk herforingjastjórnarinnar og spurði svo Friedman hvernig stæði á því að kenningar hans ættu við í slíku einræðisríki. Til að undirstrika að Friedman væri innsti koppur í búri herforingjastjórnarinnar tók Ólafur Ragnar þó fram að hann teldi að Friedman bæri ekki ábyrgð á morðunum sem framin hefðu verið í tíð herforingjastjórnarinnar. En svona eiginlega öllu öðru.

Í svari sínu rakti Friedman annars vegar samskipti sín við Chile. Þau byggðust á áralöngu samstarfi Chicago háskóla og kaþólska háskólans í Santiago, sem efnt var til fyrir tíð herforingjastjórnarinnar. Skólarnir skiptust á nemendum, kennurum og þekkingu. Auk þess dvaldi Friedman í viku í Chile árið 1975 við fyrirlestrahald og flutti þá meðal annars fyrirlestur um hætturnar sem stafar af miðstýrðri herforingjastjórn. Hann lét svo aldrei af gagnrýni sinni á stjórnmálaástandið í Chile í valdatíð Pinochet. Hins vegar benti Friedman á að kenningar sínar um peningamagn ættu ekki síður við í einræðisríkjum en lýðræðisríkjum. Ef peningamagn er aukið með seðlaprentun falla peningar í verði og verðlag hækkar. Verðbólga á sér sömu rætur hver sem stjórnvöld eru. Þessar kenningar Friedmans og aðrar, sem þeim nemendum sem snéru aftur heim til Chile eftir nám í Chicago hafa verið vel kunnar, hafa án efa átt mikinn þátt í því að efnahagur landsins hefur verið sá blómlegasti í Suður-Ameríku undanfarna áratugi.

Tilraun Ólafs Ragnars til að hneykslast á samskiptum Friedmans við Chile á upphafsárum stjórnar Pinochets verður þeim mun undarlegri þegar hún er skoðuð í samhengi við það sem Ólafur Ragnar var sjálfur að bauka á þessum árum. Í viðtali við Helgarpóstinn 24. maí 1984 segir Ólafur Ragnar frá heimsókn sinni til annars einræðisherra. Ólafur Ragnar sótti Nikolai Ceaucescu einræðisherra í Rúmeníu heim til Búkarest í þeim erindum að fá hann til liðs við alþjóðleg þingmannasamtök sín. Ceaucescu hafði þá verið forseti Rúmeníu í nær tvo áratugi og öllum mátti vera ljóst hvernig hann hafði níðst á þjóð sinni og ekki síður öðrum þjóðarbrotum sem bjuggu innan landamæra Rúmeníu. En þetta var víst „persónuleg heimsókn“ að sögn Ólafs Ragnars. Í viðtalinu segir hann bæði Ceaucescu og Trudeau forsætisráðherra Kanada vera „heiðursmenn“. Hann nefndi þá meira að segja í sömu andrá „báða þessa heiðursmenn Ceausescu og Trudeau“, svona eins og þeir væru bara sambærilegir.

Því miður leist Ceaucescu ekki alveg jafn vel á félagsskapinn sem Ólafur var í forsvari fyrir. Ceaucescu afþakkaði því að vera í „innsta hring“ með Ólafi en lofaði samt að leggja málinu lið gagnvart þeim ríkjum sem honum stóðu næst. Ólafur var engu að síður afar hróðugur með árangurinn og sagði: „það er í raun mjög mikill sigur fyrir okkur að þetta hafi þó náð svona langt með Rúmeníuforseta“.

Auðvitað myndu menn hneykslast á því ef Friedman hefði verið í slagtogi með einræðisherra, farið í „persónulega heimsókn“ til hans boðið honum í klúbbinn sinn og jafnvel mært hann í blaðaviðtölum. En auðvitað kippir sér enginn upp við að Ólafur Ragnar Grímsson hafi slíkt á afrekaskránni.