Fimmtudagur 14. desember 2006

348. tbl. 10. árg.

Setjum sem svo, að dag einn segði Bandaríkjastjórn að hún hefði fengið nægju sína og meira en það af skrifum hins íslenska Morgunblaðs um bandarísk málefni og myndi því banna innflutning íslenskra vara til Bandaríkjanna þar til leiðarar blaðsins skánuðu að þessu leyti. Hugsum okkur því næst að alls kyns hagsmunaaðilar, til dæmis útflytjendur fisks, krefðust þess að stjórnvöld fórnuðu ekki stórfelldum hagsmunum fyrir miklu minni hagsmuni eins fyrirtækis heldur bönnuðu einfaldlega Morgunblaðinu að þylja vinstriþulur sínar um Bandaríkin. Ætli það gæti verið að Morgunblaðið tæki slíkum kröfum illa? Að blaðið segði að réttur þess til að halda áfram að kynna skoðanir sínar geti ekki minnkað þó reiði vegna þeirra úti í heimi leiði til fjárhagslegs tjóns annarra fyrirtækja?

Nei það gæti varla verið. Morgunblaðið krefst þess að Hvali hf. verði stranglega bannað að veiða hvali ef að þær veiðar valda reiði erlendis og hún bitni svo á einhverjum „meiri hagsmunum“ annarra íslenskra fyrirtækja.

SSkemmtileg tilviljun að Listasafn Íslands segi að safngestum hafi fjölgað mjög verulega eftir að hætt hafi verið að innheimta aðgangseyri að safninu. Leiðinlegt hins vegar að engar tölur hafi fylgt þessari staðhæfingu, því aðgangseyrir hefur þau áhrif að það liggur fyrir hversu margir borga sig inn, en ef einskis aðgangseyris er krafist þá hafa menn ekkert nema orð sýningarstjóranna fyrir því hversu vel gengur. Forvitnilegt var til dæmis þegar greint var frá því að á árinu 2004 hefðu að meðaltali fjórtán manns borgað sig inn á sýningar á Kjarvalsstöðum enda sýndi það að áhugi fólks á nútímalist er ekki minni en svo að það líður ekki klukkutími án þess að einhver líti inn.

Hvernig ætti að vera hægt að kljúfa Frjálslynda flokkinn?