Þriðjudagur 12. desember 2006

346. tbl. 10. árg.

Þ

"Mesti vindhani íslenskra stjórnmála."
“Mesti vindhani íslenskra stjórnmála.”

að er oft sérkennilegt að lesa það sem formaður þingflokks Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, skrifar um menn og málefni. Greinin hans í Fréttablaðinu í gær var þó líklega með þeim sérkennilegri, en þar vænir hann ýmsa forystumenn Framsóknarflokksins um „vingulshátt“. Össur er líklega sá maður sem síst ætti að væna aðra menn um slíkt, enda enginn annar sem fengið hefur þá nafnbót að vera „mesti vindhani íslenskra stjórnmála“. Og Össur fékk þessa nafnbót ekki frá einhverjum andstæðingi sínum eða manni sem hann treysti verr en öðrum til að fjalla um stjórnmál. Nei, Össur verðlaunaði þennan mann fyrir skarpskyggnina með því að ráða hann aðstoðarmann sinn í embætti umhverfisráðherra.

Grein Össurar snerist annars öðrum þræði um traust og vantraust en undir forystu hans hefur þingflokkur Samfylkingarinnar lítið af öðru en nóg af hinu, eins og nýlega kom fram í frægri ræðu formannsflokksins, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Og ekki skortir heldur á vindhanaeðlið á þeim bænum, því að Ingibjörgu hefur á nokkrum misserum tekist að fara að minnsta kosti heilan hring í umræðum um álver. Ingibjörg Sólrún var sem borgarstjóri andsnúin byggingu álvers á Austurlandi, þegar kom að atkvæðagreiðslu um málið greiddi Ingibjörg Sólrún borgarfulltrúi atkvæði með álveri en þó með einhverjum ónotum í maga. Svo gerðist Ingibjörg Sólrún frambjóðandi til Alþingis og þá var hún orðin svo hlynnt álveri að hún lét mynda sig í bak og fyrir hjá fyrirhuguðu byggingarsvæði álversins. Nú er Ingibjörg Sólrún aftur orðin andstæðingur álvera og telur enga framtíð í þeim. Vefþjóðviljinn leyfir sér að giska á að í kosningabaráttunni í vor verði Ingibjörg Sólrún hlynnt byggingu álvers á kosningafundum á Norðausturlandi en andvíg á Suðvesturlandi. Nema hún telji að vindáttin hafi snúist.

Ekki veit Vefþjóðviljinn hvers vegna Össur kaus að rifja upp vindhananafnbót sína, vingulshátt formanns síns eða orð formannsins sem segir vanda Samfylkingarinnar liggja í því að „kjósendur þora ekki að treysta þingflokknum“. Líklega vildi Össur rifja upp þennan harða – en sanngjarna – dóm formannsins, því að hann veit sem er, að í hvert sinn sem forystumaður Samfylkingarinnar minnist hér eftir á traust í stjórnmálum rifjast orð formannsins upp. Og víst er að samfylkingarmenn munu seint gleðjast yfir þessum orðum formannsins og voru þó ekki of sáttir við formanninn fyrir, eins og nýlegt prófkjör sýndi.

Össur og aðrir andstæðingar Ingibjargar Sólrúnar innan Samfylkingarinnar munu vafalítið oft gera sér leik að því á næstunni að veikja formann sinn með tali um traust. Þeir vita sem er að eftir því sem þetta er rifjað oftar upp fyrir samfylkingarmönnum, þeim mun veikari verður Ingibjörg Sólrún, og því fyrr hrökklast hún úr embætti. Og svo furðar formaðurinn sig á því að kjósendur skuli ekki treysta þessum þingflokki.

J ón Ásgeir Sigurðsson útvarpsmaður og rekstrarhagfræðingur MBA, hefur óskað eftir að svara viðbrögðum Vefþjóðviljans við svari hans við pistli Vefþjóðviljans frá því á laugardag. Vefþjóðviljinn birtir þetta svar fúslega, en sér ekki ástæðu til að bregðast við því. Athugasemdirnar má lesa í heild sinni hér.