Mánudagur 11. desember 2006

345. tbl. 10. árg.
The ceasefire between Israel and the Palestinians in Gaza appears to be holding even after militants fired rockets into Israeli territory.
– BBC metur stöðuna í Miðausturlöndum einn kyrrlátan mánudag í nóvember 2006.

H inum virtustu fréttastofum Vesturlanda þykir sem vopnahlé sé virt, svo lengi sem Ísraelsmenn halda að sér höndum. Þó flugskeytum rigni yfir Ísraelsmenn þá vekur það litla sem enga athygli á Vesturlöndum. Það fer enginn í mótmælastöðu sérstaklega vegna þess. En ef Ísraelsmenn svara fyrir sig, eða reyna jafnvel að eyðileggja búðir og bækistöðvar hryðjuverkamanna, þá horfir málið öðru vísi við. Þá er búið að rjúfa vopnahléð.

Þeir erlendir fjölmiðlar sem íslenskir sækja erlendan fróðleik sinn að miklu leyti til, gefa yfirleitt skakka mynd af raunveruleikanum. Vinstriblöð eins og Guardian, New York Times og Washington Post eru eftirlæti ríkisfjölmiðlanna og auðvitað Morgunblaðsins. Og stundum er eins og fjölmiðlamennirnir íslensku haldi í raun að þessi blöð séu hlutlaus fréttablöð. Þannig er því alltaf slegið upp sem stórfrétt þegar New York Times lýsir yfir stuðningi við forsetaframbjóðanda demókrata, sem blaðið hefur þó gert, og alltaf jafn óvænt, áratugum saman. Í fimmtíu ár, hvernig sem ástand mála vestan hafs hefur verið, hefur New York Times stutt forsetaframbjóðanda demókrata. Í einstökum málum tekur blaðið svo afstöðu gegn Bandaríkjunum eins ákveðið og það þorir hverju sinni. Ár eftir ár, áratug eftir áratug, syngur blaðið sama söng og alltaf þykir evrópskum fjölmiðlamönnum hann jafn markverður og fallegur í eyra.

Eftir síðustu þingkosningar í Bandaríkjunum eru repúblikanar einum þingmanni frá því að stjórna öldungadeild þingsins. Ein tvísýnasta baráttan um öldungadeildarsæti var háð í Virginíu þar sem demókratar sóttu að sitjandi þingmanni, George Allen. Á einn framboðsfund Allens kom útsendari mótframbjóðanda hans, demókratans James Webb, til að taka fundinn á myndband. Allen minntist á manninn og notaði í því sambandi orðið „macaca“. Og þá gekk vorið í garð á ritstjórnarskrifstofum hinna virtustu blaða. Í einhverjum kreðsum var orðið macaca niðrandi ef það var haft um fólk af indíánaættum. Næstu daga á eftir birti Washington Post þrjátíu fréttir um kosningabaráttuna í Virginiu og þetta eina orð, þar af tíu á forsíðu. Tíu sinnum náði orðið í leiðara blaðsins. Blaðið birti sérstaka grein um útsendara Webb og aðra sem fjallaði sérstaklega um hárgreiðslu hans, en maðurinn var með hanakamb.

Nokkru áður hafði Webb hins vegar sent frá sér áróður gegn öðrum andstæðingi sem þótti litaður af gyðingahatri. Washington Post hafði ekki eins miklar áhyggjur af því framan af, en frétti loks af málinu og sagði frá því að talið væri að Allen hygðist nota sér það til að níða Webb niður.

Fjölmiðlar eru eins og þeir eru. Þeim, sem vilja kynna sér aðrar hliðar á hinum virtu bandarísku fjölmiðlum en þær sem íslenskir fjölmiðlar hampa, má benda á fróðlegar bækur eins og Bias eftir fyrrum CBS-fréttamanninn Bernard Goldberg og Slander  eftir hina umdeildu en skemmtilegu Ann Coulter. Og þeir sem halda að öðru máli gegni um íslenska fjölmiðla en erlenda, þeir geta gert sér ferð í bóksölu Andríkis eftir bókum Ólafs Teits Guðnasonar.

F rá því var sagt um helgina að þá hefði „fyrsta Svíanum verið skotið út í geiminn“. Nú má auðvitað segja að einn sé ekki mikið, en mjór er mikils vísir og menn eru þó að minnsta kosti byrjaðir.

J ón Ásgeir Sigurðsson, útvarpsmaður og rekstrarhagfræðingur MBA, hefur óskað eftir að svara pistli Vefþjóðviljans frá því á laugardag. Svar Jóns Ásgeirs ásamt viðbrögðum Vefþjóðviljans er að finna hér.