Þriðjudagur 5. desember 2006

339. tbl. 10. árg.

Þó því sé stundum haldið fram, jafnvel í orðvörum vefritum, að einungis einstaklingar en ekki þjóðir hafi vilja, þá er á þeirri reglu undantekning. Íslenska þjóðin vantreystir þremur stjórnmálamönnum svo gersamlega að það er hreinlega óþægilegt að fylgjast með því. Hér er vitanlega átt við alþingismennina Jóhann Ársælsson, Rannveigu Guðmundsdóttur og Guðrúnu Ögmundsdóttur og raunar ótrúlegt hversu vantraust þjóðarinnar á þessu fólki ristir djúpt.

Formaður Samfylkingarinnar hélt ræðu á dögunum og útskýrði þar fyrir öllum hvernig stæði á því undri að Samfylkingin hefði, þrátt fyrir vonir þjóðarinnar, ekki enn komist til valda. Á því reyndist vera skýring sem ekki tengdist stefnu flokksins og alls ekki formanninum. Þjóðin treystir ekki þingflokki Samfylkingarinnar, sagði formaður flokksins og virtist sjálf ekki gera neinn ágreining við þjóðina um það vantraust, en bætti við öruggur í fasi að frá og með næstu kosningum myndi þetta allt breytast.

Frá og með næstu kosningum þarf þjóðin ekki að vantreysta þingflokki Samfylkingarinnar. Þá munu þau Jóhann Ársælsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir horfin úr þingflokknum og þá engin fyrirstaða lengur fyrir valdatöku Samfylkingarinnar. Að öðru leyti mun Samfylkingin bjóða upp á sömu þingmenn og áður og meira að segja nær óbreyttri röð. Það er því brotthvarf þeirra Rannveigar, Jóhanns og Guðrúnar sem veldur því að þjóðin, sem í dag treystir ekki þingflokki Samfylkingarinnar til neins, mun á morgun láta drauminn rætast og kjósa þau Ingibjörgu Sólrúnu, Jóhönnu, Lúðvík, Ástu Ragnheiði og félaga.

Ádögunum var haldinn aðalfundur Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Aðeins um fimmtánhundruð manns tóku þátt í fundinum enda var hann aðeins opinn fyrir reykvíska félagsmenn á tilteknum aldri og auk þess haldinn á einum stað í bænum og það um miðjan virkan dag. Ekki var því við öðru að búast en fundurinn yrði fámennur og hvor formannsframbjóðandi hlyti aðeins um sjöhundruð atkvæði eða svo. Öðru máli gegnir hins vegar um glæsilegt prófkjör vinstrigrænna nú um helgina þar sem flokksmenn á öllum aldri og ekki aðeins úr Reykjavík heldur einnig Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ og öðrum sveitarfélögum suðvesturkjördæmis komu á einhvern þriggja kjörstaða og kusu. Þar mættu samtals um þúsund manns til að velja á milli þrjátíu frambjóðenda svo að hver frambjóðandi hefur að meðaltali dregið langt yfir 30 kjósendur á kjörstað. Til að gera prófkjörið enn glæsilegra mátti svo kjósa þrjá frambjóðendur í hvert sæti. Þeir þrír frambjóðendur sem lentu í fyrsta sæti fengu samtals yfir tvöþúsund atkvæði í það sæti frá þessum þúsund kjósendum. Jafnvel Ágúst Ágúst Ágústsson ætti bágt með að ná svo góðum árangri á landsfundi Samfylkingarinnar. Þannig fengu frambjóðendur sem samkvæmt skoðanakönnunum eru komnir langleiðina inn á þing um 400 atkvæði í prófkjörinu. Prófkjör vinstrigrænna er því ótvírætt merki um stórsókn flokksins.

Annars er sérstakt að á aðalfundi Heimdallar hafi tvær ungar konur fengið um sjöhundruð félaga sína til að kjósa til sig formennsku í litlu félagi. Hvers vegna fengu þær ekki þetta fólk til að skrá sig í Vinstrihreyfinguna grænt framboð og kjósa sig á þing?