Mánudagur 4. desember 2006

338. tbl. 10. árg.

E

Ódýrustu vínin í áfengiseinokun ríkisins munu hækka í verði við boðaðar breytingar á skattlagningu áfengis.

f ekki er um einhvern reginmisskilning að ræða þá hafa fjármálaráðherra og félagar hans í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis lagt í undarlega för. Ef marka má frumvarp um breytingar á gjöldum á áfengi ætla þeir að lækka virðisaukaskatt á áfengi úr 24,5% í 7% í þeim tilgangi að veitingastaðir verði með eitt virðisaukaskattsþrep á allri þjónustu og veitingum. Gott og vel. Það mætti hafa það oftar í huga við breytingar á skattkerfinu að skattarnir séu einfaldir og þægilegir í innheimtu og uppgjöri. Til að „bæta“ ríkissjóði upp tekjumissinn verður áfengisgjaldið hins vegar hækkað um 58%. Það virðist kerfisbundinn vandi að þegar skattkerfum er breytt þá vill ríkissjóður hafa vaðið fyrir neðan sig og alls ekki verða af tekjum vegna breytinganna. Þess vegna koma jafnan skattahækkanir út úr breytingum af þessu tagi. Svo virðist einnig með þessa breytingu.

Áfengisgjaldið er lagt á hvern sentilítra vínanda umfram 2,25%. Þetta gjald er föst krónutala á hvern sentílítra vínandainnihalds en þó mismunandi eftir því hvort um er að ræða öl, vín eða brennd vín. Engu máli skiptir hvert innkaupsverð flöskunnar er, þessi skattur fer aðeins eftir alkóhólmagninu. Þetta er með öðrum orðum skattur á möguleg ölvunaráhrif. Rauðvínsflaska sem kostar 100 krónur í innkaupum fær sama áfengisskatt og flaska sem kostar 100.000 krónur í innkaupum, ef þær innihalda sama áfengismagn.

Fyrir venjulega rauðvínsflösku (13% styrkleiki) er þetta gjald um 425 krónur. Á flösku sem kostar 100 krónur í innkaupum er þetta gjald því 425% skattur en 0,425% skattur á 100.000 króna flöskuna.

Afleiðingin af þessari skattastefnu er auðvitað að vín sem eru ódýr í innkaupum eru hreint fáránlega dýr hér á landi. En fjármálaráðherra hefur ekki áhyggjur af þessu. Hann boðar þvert á móti að áfengisgjaldið verði hækkað um 58%. Fyrir venjulega rauðvínsflösku (13%vol) fer því gjaldið úr 425 krónum í 672 krónur. Nú um stundir kostar ódýrasta rauðvínsflaskan í áfengiseinokun ríkisins 890 krónur. Nýja áfengisgjaldið á rauðvín verður því um 75% af verði ódýrasta rauðvínsins sem fæst í einokuninni um þessar mundir. Það er ljóst að með þessari aðgerð verður verð á ódýrasta víninu vart undir 1.100 krónum, jafnvel þótt virðisaukaskatturinn lækki á móti.

Það þarf vart að taka það fram að mörg ódýrustu vínin eru þau söluhæstu. Bjór mun fá svipaða útreið og ódýrustu léttvínin við þessar breytingar. Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. upplýsir á vef sínum að bjór muni hækka um tæp 15% í kjölfarið.

Án þess að Vefþjóðviljinn telji það gild rök í málum sem þessum að Sjálfstæðisflokkurinn muni tapa fylgi á þessum skattahækkunum þá langar hann að samt að geta þess hér að kjósendur kunna að taka því misvel að bjórkassinn hækki um 700 krónur og ekkert rauðvín fáist lengur undir þúsund krónum. Þessar breytingar eiga að taka gildi tveimur mánuðum fyrir kosningar!

En vonandi er þetta allt saman misskilningur sem fjármálaráðherra og meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar leiðrétta hið fyrsta.