Þ á kom að því. Heilbrigðisráð New York borgar ákvað í gær að banna notkun á transfitusýrum á veitingastöðum og þar með hefur enn eitt skrefið verið stigið til ánauðar. Ofstopamenn höfðu áður með aðstoð velviljaðra einfeldninga náð fram því markmiði sínu að banna fólki að reykja á opinberum stöðum og þá var kominn tími til að stíga næsta skref. Þegar bent hefur verið á það að reykingabannið sé aðeins eitt skrefið í átt að því að hneppa frjálst fólk í ánauð hafa margir púað á þá röksemd og talið hana fjarstæðu. Reykingar séu sko allt annað en neysla matvæla eða klæðnaður og þess vegna sé útilokað að ofstopamennirnir muni nokkru sinni fá að ráðskast með það hvað menn borða eða hvernig menn klæðast. En nú hefur annað komið á daginn.
![]() |
Menn geta haft ólíkar skoðanir á þessari máltíð. Nema í New York, þar verður hún fljótlega bönnuð. |
Það er staðreynd að ef þeir, sem telja frelsi einstaklingsins af hinu góða, standa ekki í lappirnar þegar settar eru fram hugmyndir um frelsisskerðingu, þá munu ofstopamennirnir alltaf hafa betur. Ef þeir einir hafa markmið að berjast fyrir sem vilja hneppa aðra í ánauð, þá endar það með því að allir verða þrælar þeirra sem alltaf þykjast vita betur. Frelsið mun hverfa smátt og smátt á tiltölulega skömmum tíma ef menn taka ekki þá grundvallarafstöðu að frelsið sé þess virði að verja það gegn yfirgangi þeirra sem vilja ráðskast með aðra.
Þeir sem púuðu á þá sem vildu af prinsippástæðum leyfa reykingar, ætli þeir séu í dag jafn sannfærðir og áður um að reykingabannið verði síðasta bannið? Eða ætli einhverjir láti transfitubannið í New York sér að kenningu verða?
Mest af þeim transfitusýrum sem snæddar eru á veitingastöðum verða til þegar fljótandi olía er hituð og svo hert, en þær verða einnig til í vömbum jórturdýra. Þær eru almennt taldar skaðlegar fyrir æðakerfið, en svipaða sögu má segja um harða dýrafitu, svo sem þá sem finnst í smjöri og kjöti. Verða þessar vörur næstar á bannlistanum? Er svo fráleitt að ímynda sér það eftir að transfitusýrurnar hafa verið bannaðar?
Og hvað með hvítan sykur. Það væri erfitt að halda því fram að heilsufarsráðgjafar mæli sérstaklega með neyslu hans. Nei, þeir eru líklega allir á móti hvíta sykrinum. Eða hvíta hveitið, hvað með það? Dettur einhverjum í hug að það fái að sleppa lengi ef reykingabannið, transfitubannið og fleiri slík bönn fá að standa óáreitt?
Hvernig halda menn svo að framhaldið verði, ætli fatnaðurinn sé ekki næstur? Ætli notkun þunnra jakka og stuttra pilsa í köldu veðri verði ekki fljótlega komin á bannlistann? Er nokkur ástæða til að leyfa fólki að þvælast um í fatnaði sem augljóslega getur verið heilsuspillandi? Hver þarf að ganga um reykjandi í stuttu pilsi, drekka sykrað kók og borða pítsu með frönskum kartöflum? Er ekki bara rétt að banna þetta allt saman?
Eða er ef til vill frekar ástæða til að staldra við og velta því fyrir sér hvort frelsið er einhvers virði?