Tekið skal fram að gefnu tilefni að engir opinberir styrkir hafa verið greiddir til höfundar eða útgáfu vegna þessa mikla verks. Hinsvegar eru greiddar af hverri bók nálægt 180 krónum í söluskatt til ríkisins. Kaupið því Vaska menn til að styðja ríkið. |
M eð þessum orðum fylgdi bókaútgáfan Fjölvi úr hlaði Vöskum mönnum, síðasta bindinu í ritröð sem Þorsteinn Thorarensen setti saman um lif og viðhorf áberandi Íslendinga um aldamótin 1900. Fyrsta bindið, Í fótspor feðranna, kom út árið 1966, sett saman sem andmælarit við hina ágætu ævisögu Hannesar Hafsteins eftir Kristján Albertsson, en áður en lauk urðu bindin fimm, skemmtilega skrifuð og laus við óþarfan hátíðleika og fræðilegan þembing. En hin óvenjulega áskorun í kynningartexta Fjölvaútgáfunnar, um að nú sé að duga og kaupa bókina svo ríkið fái söluskatt, er ekki einungis skondin en geymir einnig áminningu.
Vissulega er hið opinbera ekki alvont. Það gefur og styrkir. En það gerir fleira. Það tekur og veikir. Með annarri höndinni dreifa ríki og sveitarfélög út styrkjum en hin krumlan er á sama tíma í ákefð að skattleggja að sama skapi. Öll „góðu málin“ sem hið opinbera styrkir, öll starfsemin sem það heldur úti, vegirnir sem eru lagðir, firðirnir sem eru þveraðir, myndlistarmennirnir sem eru sendir á Feneyjatvíæringinn, sýningarnar sem Íslenska óperan tapar á, stúkusætin á Laugardalsvellinum, heiðurslaun listamanna, ferðastyrkir íþróttafélaga, fæðingarorlof fráskilinna feðra; allt er þetta greitt af öllum hinum, öllum þeim sem þiggja laun yfir vissu marki og öllum þeim sem eiga skattskyld viðskipti. Allir þeir sem óska eftir því að ríki eða sveitarfélög bæti við sig verkefni eða auki þjónustu, þeir óska eftir því að dýpra verði farið í vasa annars fólks. Þó ríkið geri margt mögulegt með því að styrkja það, þá má ekki gleyma því að það gerir margt ómögulegt með skattlagningunni. Ósanngirnin er svo sú, að það sem ríkið styrkir, það sést, en það sem ríkið hindrar að verði til, það sést auðvitað ekki. Allir geta séð nýja og glæsilega veginn sem var lagður fyrir ríkisfé, en enginn fær að sjá það sem skattgreiðendur hefðu gert ef þeir hefðu fengið að hafa peningana sína í friði.
Þorsteinn Thorarensen skrifaði fleira en óvenjulegan bálk um aldamótamenn. Hann var um tíma einn ritstjóra Stefnis, tímarits Sambands ungra sjálfstæðismanna, og skrifaði margt í blaðið. Á sjötta áratugnum minntist hann þar á aðstöðumuninn milli lýðræðisríkja og ofstækisaflanna sem þau þurfa iðulega að glíma við. Þær hugleiðingar eiga að sínu leyti við í dag, þó horfin séu að sinni þau alræðisríki sem mest ógn stafaði af, en í stað þeirra komin önnur ógn og jafnvel skæðari.
Það væri óhugsandi að vestræn ríki gætu undirbúið styrjaldarárás gegn Austurveldunum án þess að það væri á allra vitorði. Um svo þýðingarmikla ákvörðun sem stríðsyfirlýsingu væri þjarkað og þrefað í þjóðþingunum svo mánuðum skiptir. Og Austurveldin gætu keypt þingtíðindin jafnóðum. Dagblöðin myndu og rífast um þetta, ráðherrar gefa yfirlýsingar, flokkar klofna, efnt yrði til nýrra kosninga, osfrv. Allra upplýsinga um þetta geta Austurveldin aflað sér og hafa frjálsan aðgang að. Þegar við Vesturlandabúar viljum sjá að hverju valdhafar Rússlands og annarra járntjaldsríkja stefna, fáum við lítið af slíkum gögnum upp í hendurnar. Okkur eru sendar innihaldstómar friðardúfu-yfirlýsingar. Þegar við sjáum svo að friðardúfurnar fljúga innan um fallbyssusteypur í stálverksmiðjum Rússlands er engin furða þó forvitni okkar blandin ótta um eigin hag vaxi og við skiljum að það er ekki þýðingarlaust að „kíkja gegnum járntjaldið“. |