B erlín hefur á ýmsan hátt forystu meðal borga í Þýskalandi, nú síðast í reglusetningu um afgreiðslutíma verslana. Þeir sem sótt hafa Þýskaland heim, að ekki sé talað um þá sem hafa dvalið þar langdvölum, þekkja vel að betra er að skipuleggja innkaup sín vel og með fyrirvara. Og þar er betra að geta keypt inn að degi til, nema menn sætti sig við að innkaupin einskorðist við vöruúrvalið á bensínstöðvunum. En nú er að verða breyting á þessu í Berlín og nokkrir aðrir staðir munu fylgja á eftir
Í The Wall Street Journal segir frá því að í fyrradag hafi löggjafinn í borginni gert meiriháttar breytingar til rýmkunar á afgreiðslutíma, en þar til nýverið hafi afgreiðslutíminn að mestu verið takmarkaður við dagvinnutíma í miðri viku og fyrir hádegi á laugardögum. Sunnudagsverslun hafi almennt verið bönnuð með ákvæðum í stjórnarskránni, en stjórnarskráin í Þýskalandi er ekki lítið rit með helstu grundvallarreglum sem flestir hafa lesið, líkt og hér á landi, heldur gríðarlegur doðrantur. Þessar reglur hafa haft í för með sér ýmis konar fáránleika í Þýskalandi eins og annars staðar og á öðrum sviðum þar sem óþarfar reglur eru settar. Þar hefur til að mynda tíðkast að sumar verslanir bjóði upp á sérstaka sýningardaga. Á sýningardögum hafa þessar verslanir verið opnar og fólk hefur getað skoðað úrvalið, en það hefur þurft að koma aftur á mánudegi ef það vildi eiga viðskipti.
Samkvæmt nýjum reglum geta verslunareigendur í Berlín haft opið – og afgreitt viðskiptavinina – allan sólarhringinn nema á sunnudögum. Á sunnudögum gilda enn miklar takmarkanir og verslun aðeins leyfð frá 13:00 til 20:00 tíu daga ársins. Ekki er gert ráð fyrir að allir verslunareigendur nýti sér frelsið, sem er vitaskuld í góðu lagi. Þeir ættu líka að hafa frelsi til að hafa verslanir sínar læstar þegar þeim hentar. Aðalatriðið er vissulega að það er verslunareigandans og viðskiptavinarins að ákveða hvenær viðskiptin fara fram. Löggjafinn ætti ósköp einfaldlega ekki að setja neinar reglur í þessu sambandi, en því miður hafa reglur af þessu tagi verið til trafala miklu víðar en í Þýskalandi.
En mál hafa líka þróast í rétta átt víðar en þar, til að mynda hér á landi. Ekki langt síðan löggjöf var breytt mjög til hins betra að þessu leyti, en líkt og í Berlín var fyrsta stóra skrefið líklega stigið í höfuðborginni. Í Reykjavík var afgreiðslutíminn rýmkaður verulega þrátt fyrir baráttu ýmissa stjórnmálamanna gegn þeirri rýmkun. Einn þeirra er enn í hávegum hafður hjá þeim sem hafa litlar mætur á frelsinu. Um tillögur um frjálsari afgreiðslutíma sagði sá stjórnmálamaður þá að ástæða þess að hún hafnaði tillögunni væri sú, að hún væri ekki sannfærð um að það væri spor í rétta átt að rýmka verslunartímann.
Ári síðar kom enn upp tillaga í borgarstjórn um rýmkun og þá sagði sami stjórnmálamaður, sem rétt er að upplýsa að heitir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og fer fyrir fylkingu nútímalegra jafnaðarmanna: „Ég ætla þá að vera kannski þriðja röddin í þessum neytendakór, en ætla ekki að syngja það sama vers og þeir, því ég ætla núna, sem í þau tvö skipti á þeim fimm árum sem ég hef setið hér í borgarstjórn áður að leggjast gegn þessari rýmkun.“ Ingibjörg Sólrún sýndi ítrekað í verki að henni þykir óþarft að hafa reglunar rúmar, fólk eigi bara að skipuleggja sig betur: „Ég verð að segja það að mér finnst að þessi tími hann ætti að duga bæði kaupmönnum og neytendum til þess að gera þessi viðskipti sem þarna fara fram. Það er með innkaup eins og svo margt annað í lífi manns, að maður verður bara að skipuleggja þau og það er alveg hægt að skipuleggja þau þannig að þau falli innan þessara 70 klukkustunda.“
Ef Ingibjörg Sólrun og félagar hennar réðu væri enn nauðsynlegt fyrir almenning að skipuleggja sig til að lenda ekki í því að vanta mjólk og brauð þegar Ingibjörg Sólrún telur óþarft að slíkur varningur sé boðinn til kaups. En að lokum, og til að gæta fullrar sanngirni í garð Ingibjargar Sólrúnar, er rétt að halda því til haga að hún sýndi því nokkurn skilning að einstaka óreiðupési gæti lent í því að vanta mjólkurpottinn. Og hún hafði líka lausn á þeim vanda, nefnilega að í borginni yrði opnuð sérstök „neyðarverslun“ fyrir þá íbúa sem ekki hefðu náð fullum tökum á skipulaginu. Þangað gætu þeir, sem hefðu misst öll tök á lífi sínu, mætt eftir klukkan sex á daginn. Og þar yrði vitaskuld aðeins boðið upp á það allra nauðsynlegasta; hausaða ýsu, vísitölubrauð, mysu, óhrært skyr – og sennilega armbandsúr.