Fimmtudagur 9. nóvember 2006

313. tbl. 10. árg.

E f marka má fréttir ríkisfjölmiðlanna í gærkvöldi fór fram mikil öskurkeppni á Alþingi í gær um svonefndan launamun kynjanna. Nýlegar mælingar sýna sama mun á launum karla og kvenna og fyrir 12 árum. Þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu kepptust við að hafa sem stærst orð og mestar heitstrengingar um þennan mun en hann mælist þó ekki síður hjá ríkinu, sem þingmennirnir stýra, en úti á almennum vinnumarkaði.

Þarna liggur þá töfrasprotinn brotinn. Fæðingarorlofslögin frá árinu 2000 áttu að útrýma þessum mun eins og hendi væri veifað. Þingmenn allra flokka trúðu því að þessi lög væru lausnin. Þingmenn vinstri flokkanna samþykktu að hæstu bæturnar sem Tryggingastofnun hefur greitt úr í sögu sinni færu til hátekjumanna. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins að Einari Oddi undanþegnum héldu fyrir skilningarvitin og samþykktu mestu varanlegu útgjaldaaukningu í síðari tíma sögu ríkissjóðs. Hæstu félagslegu bætur í heimi til efnafólks urðu staðreynd á Íslandi.

Útgjaldaaukningin varð raunar talsvert meiri en látið var í veðri vaka í greinargerð með frumvarpinu. Hún fór nærri 200% fram úr áætlunum fjármálaráðuneytisins og Fæðingarorlofssjóður sló hraðamet Atvinnutryggingarsjóðs síðustu vinstri stjórnar í algeru þroti. Skattgreiðendur voru sendir til bjargar að vanda og tryggingagjald, sem leggst á öll greidd laun, var hækkað. Á þá skattahækkun hefur engin stjórnmálaflokkur minnst, sem er skiljanlegt.

Þessi fjáraustur í fullfrískt efnafólk hefur svo engu skilað í að útrýma meintum launamun kynjanna sem var jú helsta ástæðan fyrir því að þingmenn gleyptu við þessu. Jafnvel Pétur Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokksins lét blekkjast og viðurkenndi í ræðustóli á Alþingi í gær að áhrifin af lögunum sem hann studdi væru „vonbrigði“.

Við þessa umræðu er svo auðvitað því að bæta að þrátt fyrir mikinn og góðan vilja til að mæla allan fjandann í þessum heimi eru mælingar á launum manna afar ónákvæm vísindi. Engir tveir einstaklingar eru eins og engin tvö störf eru algerlega eins. Ef menn gættu örlítillar sanngirni þegar rætt er um mældan mun á launum kynjanna hljóta menn að viðurkenna að hann er minni en svo að hægt sé að draga af því víðtækar ályktanir um lögbrot, mannréttindabrot og mannvonsku stjórnenda eins og þingmenn leyfðu sér á Alþingi í gær.